Ferill 268. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 268 . mál.


359. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Ágústa Gísladóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.


    6. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal ákvarðaður af ráðherra eftir tillögum tryggingaráðs. Tillögu sína skal tryggingaráð byggja á könnun á kostnaði við framfærslu barns að frádregnum bótum til einstæðra foreldra og skal barnalífeyrir aldrei nema lægri upphæð en sem nemur helmingi þess kostnaðar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Á 113. og 115. löggjafarþingi lögðu þingkonur Kvennalistans fram frumvarp sem gekk efnislega í sömu átt og þetta frumvarp. Í hvorugt skiptið tókst að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok og því er nú gerð enn ein tilraunin.
     Sú breyting er hins vegar gerð á frumvarpstextanum að ekki er lengur lagt til að sérstök barnalífeyrisnefnd geri tillögu um árlegan barnalífeyri heldur sé það í verkahring tryggingaráðs. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að tillagan byggi á könnun á raunverulegum kostnaði við framfærslu barns. Það yrði þá í verkahring tryggingaráðs að láta vinna þá könnun. Þessi breyting er m.a. gerð vegna ábendinga sem fram komu í umsögn barnaverndarráðs við frumvarp það sem flutt var á 115. löggjafarþingi.
     Þá hefur jafnframt verið felld út setning, sem var í frumvarpinu áður og var tekin beint upp úr almannatryggingalögunum, um að ekki skuli greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris. Þessi breyting á frumvarpinu felur því jafnframt í sér tillögu til breytinga á núgildandi almannatryggingalögum. Eru flutningsmenn frumvarpsins sammála því sem kom fram í umsögn Öryrkjabandalags Íslands að örorkubætur séu til þess ætlaðar að mæta óþægindum og aukakostnaði sem af fötlun hlýst og eigi því ekki að hafa áhrif á aðrar lífeyrisgreiðslur eða bætur.
     Ákvörðun barnalífeyris fer enn eftir reglum sem settar voru þegar lög um almannatryggingar tóku gildi fyrir meira en 50 árum. Þessar reglur eru löngu úreltar og meira en tímabært að taka upp aðrar aðferðir við mat á lífeyri, þ.e. taka mið af kostnaði við framfærslu eins og hún er nú á tímum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að skv. 2. mgr. 11. gr. barnalaga skal meðlagsgreiðsla taka mið af barnalífeyri og hvorugt er í neinu samræmi við kostnað af framfærslu barns.
     Barnalífeyrir, og þar með lágmarksmeðlag, er nú 7.551 kr. á mánuði. Færa má sterk rök fyrir því að foreldri, sem greiðir lágmarksmeðlag með barni sínu — í flestum tilvikum faðir — leggi talsvert minna af mörkum til framfærslu barnsins en það mundi gera ef það væri í sambúð með barninu. Það getur tæpast verið vilji löggjafans að draga með þessum hætti úr framfærsluskyldu við sambúðarslit. Með þessu frumvarpi er lögð á það áhersla að barnalífeyrir og meðlag sé í samræmi við þann kostnað sem fylgir framfærslu barns.
     Í fylgiskjali eru birtar niðurstöður könnunar á kostnaði við framfærslu barna árið 1991 sem Félag einstæðra foreldra lét gera. Þar kemur í ljós sá munur sem er á raunverulegum útgjöldum vegna barna og þeim greiðslum er hið opinbera ákvarðar til framfærslu þeirra.


Fylgiskjal.

Unnið upp úr könnun meðal félaga FEF.



Meðaltal 1991

1–5 ára

6–9 ára



    Greitt fyrir gæslu      115.107 82.544
    Matar- og hreinlætisvörur      71.330 137.752
    Fatnaður      115.730 86.536
    Ferðakostnaður      9.302 6.663
    Læknis- og lyfjakostnaður      10.550 4.179
    Tónlistar- og dansskóli og íþróttir      3.111 11.136
    Skólagjöld, bækur, skólatöskur      4.410
    Skemmtanir og vasapeningar      4.458 16.564
    Klipping      2.593 2.152
    Kerra, vagn, hjól      16.373 2.577
    Hókus pókus stóll, bílstóll      1.500
    Myndataka      1.277 1.545
    Gleraugu      1.540 1.691
             Samtals     
352.871
357.749
    Meðlag      89.276 89.276

        Mismunur      263.595 268.473

Innifalið í fatnaði er allur úti- og innifatnaður, bleiur o.þ.h., skór, stígvél, rúmfatnaður, sængur og koddar. Ekki reiknað með: Kostnaður vegna íbúðarhúsnæðis, rafmagn, hiti, sími og fjölmiðlar.

Unnið upp úr könnun meðal félaga FEF.



Meðaltal 1991

10–12 ára

13–15 ára



    Matar- og hreinlætisvörur      169.226 188.731
    Fatnaður      103.791 119.709
    Ferðakostnaður      14.850 21.960
    Læknis- og lyfjakostnaður      11.813 17.539
    Tónlistar- og dansskóli og íþróttir      28.313 34.962
    Skólagjöld, bækur, skólatöskur o.fl.      18.836 20.096
    Skemmtanir og vasapeningar      23.829 43.339
    Klipping      3.431 3.485
    Reiðhjól og varahlutir      3.350 4.320
    Skíðaútbúnaður, skíði, skautar o.þ.h.      6.469 5.230
    Rúm o.fl., húsgögn í herbergi      2.930 7.436
    Gleraugu      2.750 3.687
    Tannrétting      6.935 31.539
             Samtals     
396.523
502.033
    Meðlag      89.276 89.276

        Mismunur      307.247 412.757

Innifalið í fatnaði er allur úti- og innifatnaður, skór, stígvél, rúmfatnaður, sængur og koddar.
Ath.: Fermingarkostnaður vegna 14 ára barnsins er ekki innifalinn í ofangreindum tölum.
Ekki reiknað með: Kostnaður vegna íbúðarhúsnæðis, rafmagn, hiti, sími og fjölmiðlar.