Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 327 . mál.


598. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Síðari málsgrein 1. gr. laganna fellur niður.

2. gr.


     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný 10. gr., svohljóðandi, en númer síðari greina breytast til samræmis:
     Skrásetningargjöld í sérgreinadeildum skólans skulu háð árlegu samþykki skólanefndar og menntamálaráðuneytisins. Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga í undirbúningsdeild og raungreinadeild skólans (frumgreinadeild), svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að heimildir Tækniskóla Íslands til að innheimta skrásetningargjöld af nemendum verði í eðlilegu samræmi við slíkar heimildir hliðstæðra skóla í landinu.
     Í gildandi lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, og lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, eru ákvæði sem gera ráð fyrir skrásetningargjöldum. Slík ákvæði er ekki að finna í lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands, og ákvæði í 1. gr. laganna þess efnis að kostnað við stofnun og rekstur skólans skuli greiða úr ríkissjóði hefur verið túlkað á þann veg að Tækniskólanum sé ekki heimilt að innheimta skrásetningargjöld af nemendum í sérgreinadeildum með sama hætti og framangreindum skólum þótt fjárlög 1992 hafi miðast við að Tækniskólinn hefði tekjur af slíkum gjöldum.
     Í 8. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, er gert ráð fyrir innheimtu gjalda af nemendum við innritun í námsáfanga. Lög þessi taka ekki til Tækniskólans og í lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands, eru ekki slík ákvæði. Æskilegt þykir að fá skýra lagaheimild til innheimtu innritunargjalda af þeim nemendum Tækniskólans er teljast á framhaldsskólastigi og verði þeim hagað með hliðstæðum hætti og lögin um framhaldsskóla gera ráð fyrir.
     Gildandi lög um Tækniskóla Íslands, nr. 66/1972, eru um margt orðin úrelt og þarfnast endurskoðunar í heild sinni. Menntamálaráðuneytið hefur skipað nefnd til að endurskoða lögin og skal hún skila tillögu að frumvarpi til nýrra laga fyrir 1. október nk.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Grein þessi felur í sér að felld er niður málsgrein þess efnis að kostnað við stofnun og rekstur skólans skuli greiða úr ríkissjóði. Í lögum um aðra skóla á háskólastigi er ekki að finna slíkt ákvæði, en fjárveitingar til skólanna ákvarðast að sjálfsögðu í fjárlögum hverju sinni. Nefna má að ekki þótti ástæða til að hafa ákvæði af þessu tagi í nýlega settum lögum, nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skrásetningargjöld í sérgreinadeildum skólans, sbr. hliðstætt ákvæði um skrásetningargjöld í 15. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri. Enn fremur eru ákvæði um gjöld nemenda í undirbúnings- og raungreinadeild skólans (frumgreinadeild) sem teljast vera á framhaldsskólastigi, sbr. hliðstæð ákvæði í 8. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands.


    
Með frumvarpi þessu er verið að leggja til tvíþætta breytingu á gildandi lögum:
     Annars vegar er felld niður málsgrein í 1. gr. núgildandi laga er kveður á um að kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði. Þessi breyting hefur engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs enda verður fjárveiting til skólans ákveðin í fjárlögum hverju sinni eins og áður.
     Hins vegar er bætt við nýrri grein, 10. gr., sem kveður á um innheimtu ýmissa gjalda, svo sem skrásetningargjöld, innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendagjöld. Þessi grein hefur engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna skólans. Í fjárlögum 1993 er gert ráð fyrir innheimtu innritunar- og efnisgjalda á háskólastigi. Áætlað er fyrir innheimtu innritunar- og efnisgjalda við Tækniskólann en 10. gr. þessa frumvarps tekur af öll tvímæli um að það sé heimilt.