Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 176 . mál.


635. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Þ. Þórðarsonar um launabreytingar hjá forstjórum o.fl.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða launabreytingar hafa orðið hjá forstjórum, framkvæmdastjórum, forstöðumönnum, sveitarstjórum og bæjarstjórum á þjóðarsáttartímabilinu?
    Óskað er eftir sundurgreindu svari eftir starfshópum.


    Þar sem félagsmálaráðuneytið hefur ekki yfir að ráða upplýsingum um launabreytingar var í tilefni af fyrirspurninni leitað til allmargra aðila.
    Starfsmannaskrifstofa ríkisins upplýsti er leitað var til hennar að þar lægju ekki fyrir upplýsingar um aðrar launabreytingar en þau 1,7% sem samið var um. Var að öðru leyti bent á kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna ef óskað væri ítarlegri upplýsinga um launaþróun.
    Í svari kjararannsóknarnefndar, dags. 28. janúar sl., kom fram eftirfarandi:
    „Á fundi framkvæmdanefndar KOS í gær var tekið fyrir bréf ráðuneytisins, dags. 22. janúar 1993, sem var ítrekun á bréfi, dags. 11. nóvember, sama efnis.
    Fyrra bréfið komst ekki í okkar hendur.
    Því er til að svara að ýmis vandkvæði eru á að vinna umbeðnar upplýsingar hvað opinbera starfsmenn varðar.
—    Ekki er til samræmdur starfalykill þannig að unnt sé að velja viðkomandi starfsheiti eftir honum.
—    Verið er að vinna upplýsingar frá nokkrum sveitarfélögum um laun og koma skilum frá sveitarfélögunum í viðunandi horf. Enn er þó ekki hægt að fá fram á marktækan máta upplýsingar um meðallaun sveitar- og bæjarstjóra, bæði af þeim sökum og sömu ástæðu og að framan greinir.
    Til eru launaheiti í skrám ríkis og Reykjavíkurborgar. Þau launaheiti eru ekki rétt hvað varðar greiningu í þessi störf og því ekki unnt að flokka eftir þeim.“
    Þá leitaði félagsmálaráðuneytið til Kjaradóms um upplýsingar, en svar Kjaradóms er á þann veg að allar upplýsingar, sem dómurinn aflar sér um launaþróun, séu trúnaðarmál og því geti dómurinn ekki gefið ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar.
    Þjóðhagsstofnun svaraði félagsmálaráðuneytinu á eftirfarandi hátt:
    „Upplýsingar um laun eftir umræddum starfsheitum liggja ekki fyrir á Þjóðhagsstofnun.
    Leitað var til Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi bæjar- og sveitarstjórnir. Í svarbréfi þess kom fram að það hefði engar upplýsingar um launakjör bæjar- og sveitarstjóra og aldrei komið að gerð kjarasamninga við þá. Slík samningagerð væri algjörlega í höndum einstakra bæjar- og sveitarstjórna.
    Þar sem ekki var hægt að fá upplýsingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sendi ráðuneytið fyrirspurn til Reykjavíkurborgar og allra kaupstaða á landinu og óskaði eftir upplýsingum um launabreytingar hjá viðkomandi sveitarfélagi. Svör hafa borist frá átta sveitarfélögum. Þar hefur yfirleitt komið fram að þeir starfsmenn bæjarfélaganna, sem fyrirspurnin nær til, hafi ekki fengið aðrar launahækkanir en hinar almennu hækkanir er samið var um í almennum kjarasamningum. Einn bæjarstjóri upplýsti að launahækkanir sínar næmu 4,3% frá mars 1991 til febrúar 1993. Einhver dæmi eru um það að laun bæjarstjóra hafi ekkert hækkað á „þjóðarsáttartímabili“.
    Beðist er velvirðingar á því hversu dregist hefur að svara fyrirspurninni, en reynst hefur nauðsynlegt að ítreka ofangreinda fyrirspurn við suma þá aðila sem leitað var til, jafnframt því sem svör liggja ekki á lausu.
    Af framansögðu er ljóst að ekki er á færi félagsmálaráðuneytis að útvega frekari upplýsingar sem fyrirspurnin lýtur að.