Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 437 . mál.


737. Tillaga til þingsályktunar



um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



    Alþingi ályktar að lýsa stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu (VES).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Hinn 20. nóvember 1992 var haldinn í Róm fundur utanríkisráðherra aðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins með fulltrúum ríkja sem boðin hafði verið aðild, auka- eða áheyrnaraðild, að samtökunum. Umhverfisráðherra, Eiður Guðnason, sótti fundinn fyrir hönd Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra og undirritaði á fundinum skjal um aukaaðild lýðveldisins Íslands, konungsríkisins Noregs og lýðveldisins Tyrklands að Vestur-Evrópusambandinu, ásamt utanríkisráðherrum tveggja síðastnefndra ríkja.
    Aukaaðildarskjalið er pólitísk yfirlýsing ríkjanna sem hlut eiga að máli, en ekki lagalega bindandi samningur. Skjalið er birt sem fskj. I með þingsályktunartillögu þessari, sameiginlegar bókanir birtast í fskj. II, en yfirlýsing formennskuríkisins í fskj. III og A-hluti III. kafla Petersberg-yfirlýsingarinnar í fskj. IV.
    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi lýsi stuðningi við aukaaðild Íslands að VES.
    

Skilgreining aukaaðildar.


    Nauðsynlegt er að greina á milli aukaaðildar og aðildar að Vestur-Evrópusambandinu. Aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu eru ekki aðilar að stofnsamningi þess, hinum endurskoðaða Brussel-samningi, og eru ákvæði hans því ekki bindandi fyrir þá. Aukaaðilar fá því ekki þau réttindi og hafa heldur ekki þær skuldbindingar sem tilgreindar eru í stofnsamningi VES.
    Af þessum ástæðum geta aukaaðilar hvorki beitt V. gr. (varnarskuldbindingar) né VIII. gr. (samráð vegna aðsteðjandi hættu) stofnsamningsins. Þeir eru því ekki skuldbundnir til að taka þátt í aðgerðum VES. Vestur-Evrópusambandið hefur hvorki öryggisskuldbindingar né varnarskyldur gagnvart ríkjum sem hlotið hafa aukaaðild.
    Aukaaðildarskjalið er að miklu leyti efnislega samhljóða Petersberg-yfirlýsingu Vestur-Evrópusambandsins frá 19. júní 1992, en þar segir m.a. að aukaaðildarríki geti tekið fullan þátt í fundum ráðs, vinnuhópa og undirnefnda VES með eftirfarandi skilmálum:
—    takmarka má þátttöku í fundum við aðildarríki ef meiri hluti þeirra eða helmingur, ásamt formennskuríki, óskar þess;
—    þeir hafa sömu réttindi og skyldur og aðildarríki að því er varðar verkefni sem flutt hafa verið til VES frá öðrum stofnunum, að því tilskildu að aukaaðilar hafi verið aðilar að þeim stofnunum;
—    þeir hafa rétt til að taka til máls, en geta ekki hindrað ákvarðanir sem aðildarríki eru sammála um;
—    þeir geta gerst aðilar að ákvörðunum sem aðildarríki taka;
—    þeir geta tengst varnaráætlanadeild með föstum tengilið;
—    leggi þeir til herlið geta þeir tekið þátt í hernaðaraðgerðum VES á sama grundvelli og aðildarríki;
—    þeir samþykkja efnislega að fullu A-hluta III. kafla Petersberg-yfirlýsingarinnar;
—    þeir munu tengjast fjarskiptaneti VES (WEUCOM);
—    gert er ráð fyrir að þeir greiði fjárframlag til VES.
    Aukaaðilar geta þannig tekið fullan þátt í ráði og öllum nefndum Vestur-Evrópusambandsins og hafa því góða möguleika á að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri. Jafnframt geta þeir tengst ákvörðunum sambandsins hverju sinni. Aukaaðilar geta á hinn bóginn ekki hindrað ákvarðanir sem samstaða hefur náðst um á meðal aðildarríkja.
    Ísland tekur ekki þátt í hernaðaraðgerðum Vestur-Evrópusambandsins þar sem landið hefur ekki eigin her. Á þetta atriði bentu fulltrúar Íslands í viðræðum um aukaaðild.
    Gert er ráð fyrir að aukaaðild Íslands, Noregs og Tyrklands að VES taki gildi þegar Grikklandi verður formlega veitt aðild að samtökunum, en þangað til verða ríkin þrjú „virkir áheyrnaraðilar“, eins og það er orðað í aukaaðildarskjalinu.
    

Ísland, NATO og VES


    Atlantshafsbandalagið hefur ítrekað lýst stuðningi við það markmið að Vestur-Evrópusambandið verði þróað til að efla hina evrópsku stoð bandalagsins. Kemur slíkur stuðningur m.a. fram í yfirlýsingu leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Róm 1991 sem ruddi braut fyrir boði VES til evrópskra aðildarríkja bandalagsins sem ekki höfðu tengst VES. Litið var svo á að kysu einstök aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í Evrópu að standa utan VES kynni það að torvelda aðlögun Atlantshafsbandalagsins að breyttum aðstæðum.
    Verði raunin sú að Atlantshafsbandalagið verði, þegar frá líður, fyrst og fremst vettvangur tvíhliða samráðs Vestur-Evrópusambandsins annars vegar og ríkja Norður-Ameríku hins vegar eiga evrópsk aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, sem ekki tengjast Vestur-Evrópusambandinu, á hættu að einangrast innan bandalagsins. Tengsl við VES í formi aðildar, auka- eða áheyrnaraðildar, gera ríkjum þessum kleift að taka þátt í samráði um afstöðu Evrópuríkja til málefna Atlantshafsbandalagsins.     
    Aukaaðild veitir Íslandi rétt til þátttöku í umfjöllun Evrópuríkja um öryggis-og varnarmál og möguleika á að koma sjónarmiðum sínum, m.a. um mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið, á framfæri, en það er ekki síst þýðingarmikið vegna vaxandi ábyrgðar Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum.
    Bæði í Vestur-Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu beinist athyglin nú í auknum mæli að öryggi sunnanverðrar Evrópu. Þátttaka Íslands og Noregs í VES stuðlar að því að aukið tillit verði tekið til norðurslóða í umfjöllun um öryggismál Evrópuríkja.
    Sem dæmi um starfsemi Vestur-Evrópusambandsins á sviði öryggismála fram að þessu má nefna samræmingu á flotaeftirliti á Persaflóa vegna styrjaldar Íraks og Írans og aðgerðir aðildarríkja VES vegna innrásar Íraks í Kúvæt. Einnig hefur VES annast eftirlit með refsiaðgerðum gegn Serbíu og Svartfjallalandi á Adríahafi í samvinnu við Atlantshafsbandalagið.
    Líkur benda til að eitt af meginverkefnum Vestur-Evrópusambandsins á næstu árum verði að annast friðargæslu og tilheyrandi hjálparstarfsemi í umboði Sameinuðu þjóðanna eða Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu (CSCE) vegna svæðisbundinna átaka. Með aukaaðild að VES fær Ísland þannig nýtt færi á að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála.
    Ísland á þess kost að fá aðgang að geimeftirlits- og gervihnattamiðstöð VES þegar tilraunatímibili hennar líkur árið 1995. Hugsanlegt er að miðstöðin veiti möguleika á að fylgjast með ýmsum þáttum umhverfismála og mun það skýrast frekar að tilraunatímabilinu loknu.     
    Höfuðstöðvar Vestur-Evrópusambandsins voru fluttar frá Lundúnum til Brussel í byrjun þessa árs. Þá var fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu falið að annast þátttöku í VES. Slíkt fyrirkomulag samrýmist vel þeirri grundvallarstefnu Íslands að þátttaka landsins í Vestur-Evrópusambandinu byggist fyrst og fremst á nánum tengslum þess við Atlantshafsbandalagið.
    Aukaaðildarríki þurfa að greiða árlega fjárframlag til VES, en framlög verða endanlega ákveðin innan tíðar.
    Þegar á heildina er litið hefur aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu ýmsan ávinning í för með sér fyrir Ísland, en fáar kvaðir eða skuldbindingar.

Framvinda viðræðna

.
    Viðræður Vestur-Evrópusambandsins undir forustu Ítalíu og ríkja, sem boðin var aðild, aukaaðild eða áheyrnaraðild, hófust með sameiginlegum fundi þeirra í Róm í júlí 1992. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var tekið skýrt fram að þau nálguðust VES og boð þess um aukaaðild með hliðsjón af þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og mikilvægi öryggismálasamvinnu Evrópu og Norður-Ameríku í bandalaginu. Áhersla var lögð á að Ísland hefði ekki eigin her og tæki þarafleiðandi ekki þátt í hernaðaraðgerðum VES.
    Viðræðurnar héldu áfram í september sl. í Lundúnum undir forustu Ítalíu af hálfu Vestur-Evrópusambandsins. Í viðræðunum lögðu fulltrúar Íslands á það áherslu að mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið kæmi fram í texta aukaaðildarskjalsins og að tekið yrði sérstaklega fram í aukaaðildargögnum að aukaaðild að VES hefði á engan hátt áhrif á skuldbindingar ríkja Atlantshafsbandalagsins samkvæmt stofnsamningi þess. Bráðabirgðasamkomulag um aukaaðildargögnin náðist á fundi í Lundúnum 10. nóvember sl. Aukaaðildarskjalið var, eins og fyrr segir, undirritað á ráðherrafundi Vestur Evrópusambandsins í Róm 20. nóvember sl.
    Aukaaðildargögnin eru fjögur:
    Aukaaðildarskjalið þar sem tilgreindir eru skilmálar aukaaðildar.
    Bókun við aukaaðildarskjalið þar sem skýrð eru nánar einstök efnisatriði í aukaaðildarskjalinu.     
    Sérstakar yfirlýsingar formennskuríkis, en komið er til móts við áhersluatriði einstakra aukaaðildarríkja í þeim.
    Petersberg-yfirlýsingin, en aukaaðilar staðfesta í aukaaðildaskjalinu að þeir fallist á kafla III. A. í yfirlýsingunni.
    Þessi gögn eru hjálögð sem fylgiskjöl.

Saga og verkefni VES


    Vestur-Evrópusambandið var stofnað árið 1948 af Frakklandi, Benelux-löndunum og Bretlandi í kjölfar þess óvissuástands, sem skapaðist eftir heimsstyrjöldina síðari. Tilgangurinn var að efla efnahagslega og félagslega samvinnu aðildarríkjanna og leggja jafnframt grunninn að varnarsamvinnu þeirra. Stofnun Vestur-Evrópusambandsins greiddi fyrir stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949. Hins vegar dró mjög úr störfum VES eftir stofnun bandalagsins.
    Vestur-Þýskaland fékk inngöngu í VES árið 1954 og voru þá gerðar breytingar á stofnsamningnum, Brussel-samningnum, sem felast í því að tengsl VES við Atlantshafsbandalagið eru skilgreind. Síðan er jafnan vísað til endurskoðaðs Brussel-samnings (modified Brussel's Treaty).
    Á fundi VES í Róm 1984 var gerð tilraun til að glæða samtökin lífi að nýju og efla Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum. Þremur árum síðar, á haustfundi VES í Haag 1987, var samþykkt stefnuskrá í öryggis- og varnarmálum. Þar er m.a. lögð áhersla á ágæti ríkjandi varnarfyrirkomulags. Síðar fengu Spánn og Portúgal aðild að sambandinu.
    Yfirstjórn VES er í höndum ráðherraráðsins sem hittist reglulega tvisvar á ári, en dagleg stjórn er hjá fastaráðinu sem hefur nú aðsetur í Brussel. Reglulegt samráð fer einnig fram í tveimur vinnuhópum háttsettra embættismanna. Jafnframt fæst sérstakur vinnuhópur við þjálfun starfsmanna til að annast eftirlit með framkvæmd samningsins um hefðbundin herafla í Evrópu (CFE). Þessu starfi tengist sameiginleg geimeftirlits- og gervihnattamiðstöð á Spáni sem ætlað er að fylgjast með vígbúnaði, hættuástandi og umhverfisógnum.
    Þingmannasambandi Vestur-Evrópusambandsins, sem staðsett er í París, var komið á fót skömmu eftir stofnun VES. Ráðið gefur þingmannasambandinu árlega skýrslu um störf sín. Fulltrúar í þingmannasamkomu VES eru þeir þingmenn sem sitja ráðgjafaþing Evrópuráðsins.
    

Maastricht-fundurinn.


    Þáttaskil urðu í sögu Vestur-Evrópusambandsins á fundi þess í Maastricht sem haldinn var í tengslum við sögulegan leiðtogafund Evrópubandalagsins í byrjun desember 1991, en á fyrrnefnda fundinum tóku aðildarríkin veigamiklar ákvarðanir um aukið hlutverk og náin tengsl VES við Atlantshafsbandalagið og fyrirhugað nánara pólitískt samband Evrópubandalagsríkjanna.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í ákvörðunum Vestur-Evrópusambandsins frá Maastricht að sambandið fái það hlutverk að annast varnarmálaþáttinn í sameiginlegri utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópubandalagsins, en hún á, þegar tímar líða, að taka til allra þátta sem snerta öryggi þess, þar á meðal sameiginlegrar varnarstefnu og jafnvel sameiginlegra varna. Um er að ræða hugsanlegt framtíðarmarkmið og gæti langur tími liðið áður en því verður náð.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í niðurstöðum fundarins að Vestur-Evrópusambandið verði þróað til að efla Evrópustoðina í Atlantshafsbandalaginu á þann veg að hlutverk og ábyrgð Evrópuríkja í bandalaginu aukist. Fyrirhugað er að aðildarríki VES efli samráð um málefni, sem til umfjöllunar eru í Atlantshafsbandalaginu og varða sameiginlega hagsmuni þeirra, með það fyrir augum að koma með samræmda afstöðu inn í umræður um þessi málefni á vettvangi bandalagsins þar sem endanlegar ákvarðanir verði teknar.
    Í þriðja lagi var ákveðið að bjóða EB-ríkjunum þremur, sem ekki eru í VES (Danmörk, Grikkland og Írland), aðild eða áheyrnaraðild. Öðrum Evrópuríkjum (Íslandi, Noregi og Tyrklandi), sem eru í Atlantshafsbandalaginu, en ekki í EB, var boðin aukaaðild. Þessi ríki áttu ekki kost á áheyrnaraðild. Á þennan hátt var stefnt að því að öll aðildarríki EB og öll Evrópuríki í Atlantshafsbandalaginu tækju þátt í störfum Vestur-Evrópusambandsins og lætur því að líkum að það geti orðið mun umfangsmeiri vettvangur fyrir umfjöllun um öryggismál Evrópuríkja en áður hefur þekkst.

Petersberg-yfirlýsingin.


    Á fyrstu mánuðum ársins 1992 skilgreindi Vestur-Evrópusambandið nánar hvað felst í ákvörðunum þess frá Maastricht. Á ráðherrafundi VES í Bonn í júní sl. tóku aðildarríki frekari ákvarðanir um eflingu tengsla VES við önnur ríki í EB og Atlantshafsbandalaginu, en einnig um hernaðarlegt hlutverki sambandsins og ýmis framkvæmdaratriði.
    Samkvæmt ákvörðun um væntanlegt hernaðarlegt hlutverk Vestur Evrópusambandsins geta hersveitir aðildarríkja þess tekið þátt í sameiginlegum vörnum skv. 5. gr. í Atlantshafssáttmálanum og V. gr. í endurskoðuðum Brussel-samningi. Auk þess geta þær annast:
—    neyðaraðstoð og hjálparstarfsemi;
—    friðargæslu;
—    hernaðaraðgerðir í tengslum við stjórnun á hættutímum, þar á meðal aðgerðir til að koma á friði.
Til að annast skipulagningu þessara hernaðarlegu verkefna var stofnuð sérstök varnaráætlanadeild.
    Ákvörðun um tengsl við önnur ríki í EB og önnur evrópsk aðildarríki Atlantshafsbandalagsins tekur m.a. til réttinda og skyldna ríkja sem fá aukaaðild. Þar segir að aukaaðilar geti tekið fullan þátt í fundum ráðs Vestur-Evrópusambandsins, vinnuhópa og undirnefnda samkvæmt ákveðnum skilmálum. Þessi hluti Petersberg-yfirlýsingarinnar varð síðar meginefni aukaaðildarskjalsins sem undirritað var 20. nóvember sl.
    Hvað varðar ýmis framkvæmdaratriði var ákveðið að ráð VES í Brussel ætti jöfnum höndum að fást við pólitísk mál og öryggis- og varnarmál, auk þess að stjórna allri starfsemi sambandsins.
    Að lokum var kveðið á um sérstök tengsl við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Af lýðveldum Sovétríkjanna fyrrverandi ná þessi samskipti enn einungis til Eystrasaltríkjanna þriggja. Hér er að nokkru leyti um að ræða tengsl hliðstæð þeim sem komið hefur verið á í Norður-Atlantshafssamstarfsráðinu.



Fylgiskjal I.

Skjal um aukaaðild lýðveldisins Íslands,


konungsríkisins Noregs og lýðveldisins Tyrklands


að Vestur-Evrópusambandinu.



    1. Utanríkisráðherrar aðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins og utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Tyrklands áttu fund í Róm 20. nóvember 1992. Þeir staðfestu enn á ný þær skuldbindingar ríkjanna sem beinast að því að tryggja frið og öryggi í Evrópu. Þeir lýstu í því sambandi ánægju með þróun evrópskrar samkenndar á sviði öryggis og varnarmála. Í ásetningi sínum að koma tengslum Vestur-Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja innan Atlantshafsbandalagsins á nýjan grundvöll í því skyni að stuðla að stöðugleika og öryggi í Evrópu, með hliðsjón af hlutverki Vestur-Evrópusambandsins sem leiðar til að styrkja Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins, vísuðu þeir til yfirlýsingar ráðherrafundar Vestur-Evrópusambandsins í Maastricht 10. desember 1992, þar sem þessum ríkjum var boðið að gerast aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu.
    2. Í þessu samhengi vísuðu þeir til boðs utanríkisráðherra Þýskalands og þáverandi formanns ráðs Vestur-Evrópusambandsins 30. júní 1992 til lýðveldisins Íslands, konungsríkisins Noregs og lýðveldisins Tyrklands um að hefja viðræður um hugsanlega aukaaðild þeirra að Vestur-Evrópusambandinu. Í skoðanaskiptum þessum hefur verið staðfest að lýðveldið Ísland, konungsríkið Noregur og lýðveldið Tyrkland fallast á þann ásetning aðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins að efla hlutverk Vestur-Evrópusambandsins þegar litið er til lengri tíma fram til sameiginlegrar evrópskrar varnarmálastefnu sem samrýmist stefnu Atlantshafsbandalagsins og að þau fallast að öllu leyti á A-lið III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar.
    Að viðræðunum loknum staðfestu utanríkisráðherrar Vestur-Evrópusambandsins þá ósk að lýðveldið Ísland, konungsríkið Noregur og lýðveldið Tyrkland gerðust aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu.
    Enn fremur töldu ráðherrarnir að í aukaaðild þessara landa fælist mikilvægt skref til að styrkja Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins og þar með sjálf tengslin yfir Atlantshafið í anda yfirlýsingar Rómarfundarins um frið og samvinnu frá 8. nóvember 1991.
    3. Í samræmi við þetta, og án þess að eftirtalin atriði feli í sér breytingar á endurskoðuðum Brussel-samningi, gerast lýðveldið Ísland, konungsríkið Noregur og lýðveldið Tyrkland aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Geta þau, enda þótt þau séu ekki aðilar að endurskoðuðum Brussel-samningi, tekið fullan þátt í fundum ráðs Vestur-Evrópusambandsins — með fyrirvara hvað snertir ákvæði VIII. gr. — svo og starfshópum þess og undirstofnunum, eins og nánar er lýst hér á eftir:
—    Að ósk meiri hluta aðildarríkja, eða helmings aðildarríkja að meðtöldu formennskuríki, má takmarka þátttöku við aðildarríki,
—    þau njóta málfrelsis, en geta ekki komið í veg fyrir samróma ákvarðanir aðildarríkja,
—    þau mega tengjast ákvörðunum aðildarríkja og geta tekið þátt í að framkvæma þær nema meiri hluti aðildarríkja, eða helmingur aðildarríkja að meðtöldu formennskuríki, ákveði annað,
—    lýðveldið Ísland, konungsríkið Noregur og lýðveldið Tyrkland geta tengst varnaráætlanadeild með föstum tengilið,
—    þau munu, á sama grundvelli og fullgild aðildarríki, taka þátt í þeim hernaðaraðgerðum Vestur-Evrópusambandsins sem þau leggja herlið til,
—    þau verða tengd við fjarskiptakerfi aðildarríkjanna (WEUCOM) hvað snertir fjarskipti varðandi fundi og störf sem þau taka þátt í,
—    þau verða beðin um að leggja fram fé til þarfa samtakanna.
    Af hagkvæmnisástæðum verða geimverkefni takmörkuð við núverandi aðildarríki til 1995 er tilraunaþætti rekstrar gervihnattamiðstöðvarinnar lýkur. Meðan á þeim þætti stendur verða ný aðildar- og aukaaðildarríki látin fylgjast með þeim störfum Vestur-Evrópusambandsins sem varða geimverkefni. Gerðar verða viðeigandi ráðstafanir til að aukaaðilar geti tekið þátt í síðari geimverkefnum um leið og ákvarðanir eru teknar um að halda þeim áfram.
    4. Lýðveldið Ísland, konungsríkið Noregur og lýðveldið Tyrkland munu eiga sama rétt og bera sömu skyldur og ríki með fulla aðild hvað snertir störf sem flutt eru til Vestur-Evrópusambandsins frá öðrum vettvangi eða stofnunum sem þau eiga þegar aðild að.
    5. Lýðveldið Ísland, konungsríkið Noregur og lýðveldið Tyrkland munu verða aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu á þeim degi er lýðveldið Grikkland verður aðili að Vestur-Evrópusambandinu. Fram til þess tíma verður litið á lýðveldið Ísland, konungsríkið Noreg og lýðveldið Tyrkland sem virka áheyrnaraðila að Vestur-Evrópusambandinu.



Fylgiskjal II.

Sameiginleg bókun, samþykkt í tengslum við


aukaaðildarskjal


í ráðherraráði Vestur-Evrópusambandsins


í Róm 20. nóvember 1992.



— Þar sem aukaaðilar eru ekki aðilar að hinum endurskoðaða Brussel-samningi varðar sú tilvísun til samþykkis aukaaðila að öllu leyti, sem gerð er í A-kafla III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar, ekki X. gr. samningsins.

— Í 5. undirlið 3. tölul. aukaaðildarskjalsins segir að aukaðilar muni á sama hátt og aðildarríki taka þátt í þeim hernaðaraðgerðum Vestur-Evrópusambandsins sem þau leggja herlið til. Undir orðalagið að leggja herlið til kann að falla það að séð sé fyrir aðstöðu til birgðaaðdráttar og annarri aðstöðu í verulegum mæli. Ef aukaaðilar taka þátt í hernaðaraðgerðum Vestur-Evrópusambandsins sem eiga rætur að rekja til ákvarðana aðildarríkja koma þátttökuríkin á grundvelli hvers tilviks fyrir sig á þeirri tilhögun sem fylgt verður um framkvæmd aðgerðanna.

— Málfrelsi fylgir tillöguréttur.

— Til fullrar þátttöku heyrir þátttaka í fundum ríkjahópa samkvæmt sömu reglum og gilda um þátttöku í fundum ráðs Vestur-Evrópusambandsins og annarra stofnana.

— Það er undirskilið að reglur þessa skjals um aukaaðild skerða ekki réttindi og skyldur samkvæmt gildandi þjóðréttarsamningum.

— Ráðið mun taka fullt tillit til öryggishagsmuna aukaaðila.



Fylgiskjal III.


Yfirlýsingar formennskuríkis, teknar úr yfirliti um umræður


milli Vestur-Evrópusambandsins og þeirra þriggja Evrópuríkja utan þess


sem einnig eru í Atlantshafsbandalaginu.



1.     Varnaráætlanadeild.
    „Í svari sínu við fyrirspurn fulltrúa Tyrklands gat formennskuríkið þess að samkvæmt Petersberg-yfirlýsingunni geta þau ríki sem gerast aukaaðilar í framtíðinni tengst varnaráætlanadeild með föstum tengilið.
    Af þessu leiðir að slíkri tilhögun verður komið á hvað snertir Tyrkland og hvert það aukaaðildarríki annað sem þess óskar.“

2.     Upplýsingar til aukaaðildarríkja.
    „Í svari sínu til fulltrúa þeirra ríkja sem óska aukaaðildar staðfesti formennskuríkið að engar hömlur yrðu á upplýsingum milli aðildarríkja og aukaaðildarríka og upplýsingar þar að lútandi um lokaða fundi yrðu tímanlega veittar.“

3.     Yfirlýsing um „gildandi þjóðréttarsamninga“.
    „Í svari sínu við spurningu fulltrúa Íslands staðfesti formennskuríkið að með orðunum „gildandi þjóðréttarsamningar“ í bókun þeirri, sem samþykkt hefði verið í tengslum við aukaaðildarskjalið, væri m.a. átt við Atlantshafssáttmálann.“


Fylgiskjal IV.

Ráðherraráð Vestur-Evrópusambandsins.


(Bonn, 19. júní 1992.)



Úr Petersberg-yfirlýsingunni.



III.    Um samskipti Vestur-Evrópusambandsins og þeirra Evrópuríkja utan þess sem aðild eiga að pólitísku sambandi Evrópu eða Atlantshafsbandalaginu.
A. Er yfirlýsingin hafði verið gefin í Maastricht hinn 10. desember 1991 í tengslum við sameiningarsamning Evrópu minntust ráðherrar ríkja Vestur-Evrópusambandsins þeirra gundvallarsjónarmiða sem samskipti fullra aðildarríkja og aukaaðildarríkja skulu byggð á:
—    Að leyst sé úr ágreiningi milli þeirra á friðsamlegan hátt í samræmi við þær skuldbindingar sem leiðir af hinum endurskoðaða Brussel-samningi, Atlantshafssáttmálanum, sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, skuldbindingum sem gengist hefur verið undir samkvæmt lokaskjali Helsinki-ráðstefnunnar og Parísaryfirlýsingunni, svo og öðrum almennt viðurkenndum meginviðhorfum og reglum þjóðaréttar.
—    Að ekki sé gripið til valdbeitingar eða hótunar um valdbeitingu eins og sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða gerir ráð fyrir.
    Ráðherrarnir lögðu einnig áherslu á að þær skuldbindingar um öryggi og varnir, sem aðildarríkin eru bundin innan Vestur-Evrópusambandsins annars vegar og Atlantshafsbandalagsins hins vegar, styrki hverjar aðra og að þau ríki, sem játast undir III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar, muni ekki draga þær inn í deilur milli aðildarríkja innan hvorugra samtakanna.

B. Í Maastricht-yfirlýsingu sinni hinn 10. desember 1991 lögðu aðildarríki Vestur-Evrópusambandsins til að aðildarríkjum sameinaðrar Evrópu yrði boðið að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu samkvæmt þeim skilyrðum er samkomulag yrði um eins og gert er ráð fyrir í samræmi við XI. gr. hins endurskoðaða Brussel-samnings eða áheyrnaraðilar ef þess væri óskað. Um leið var öðrum Evrópuríkjum innan Atlantshafsbandalagsins boðin aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu er veitti þeim kost á að taka fullan þátt í störfum þess.
    Í samræmi við III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar urðu ráðherrarnir sammála um að er þeim ríkjum, er áhuga sýndu, væri boðin aðild, áheyrnaraðild eða aukaaðild, yrði eftirfarandi tekið fram:

Aðildarríki:
    Aðildarríki sameinaðrar Evrópu, sem þekkst hafa boð um aðild að Vestur-Evrópusambandinu, skuldbinda sig til
—    að virða, í samræmi við þau meginsjónarmið og gildi sem öll aðildarríki Vestur-Evrópusambandsins aðhyllast, Brussel-samninginn frá 1948 eins og honum var breytt hinn 23. október 1954, bókanir með honum og tengd skjöl, svo og þá samninga sem aðildarríkin hafa gert með sér samkvæmt þeim samningi,
—    að taka jákvætt tillit til umsaminna atriða, ákvarðana og reglna sem hlotið hafa samþykki á þann hátt sem samningurinn gerir ráð fyrir og yfirlýsinga sem gefnar hafa verið frá Rómaryfirlýsingunni hinn 27. október 1984 að telja,
—    að byggja Vestur-Evrópusambandið upp sem varnarþátt hinnar sameinuðu Evrópu og tæki til að styrkja hina evrópsku meginstoð Atlantshafsbandalagsins í samræmi við skuldbindingu þá sem gengist var undir hinn 10. desember 1991 með yfirlýsingunni um hlutverk Vestur-Evrópusambandsins og samskipti þess við hina sameinuðu Evrópu og Atlantshafsbandalagið er fylgir sameiningarsamningi Evrópu og
—    að samþykkja að öllu leyti efni III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar er mun verða hluti aðildarbókunar.

Áheyrnaraðilar:
    Aðildarríkin hinnar sameinuðu Evrópu er þekkst hafa boð um áheyrnaraðild,
—    geta, enda þótt þau séu ekki aðilar að hinum endurskoðaða Brussel-samningi og með fyrirvara um ákvæði VIII. gr. hans, sótt fundi Vestur-Evrópusambandsins, en að ósk meiri hluta aðildarríkja, eða helmings aðildarríkja að meðtöldu formennskuríki, má takmarka fundarsókn á ráðsfundum við ríki sem aðild eiga,
—    mega sækja fundi starfshópa samkvæmt boði þar um,
—    mega ávarpa fundi samkvæmt boði ef þess hefur verið óskað,
—    munu eiga sama rétt og bera sömu skyldur og ríki með aðild hvað snertir störf sem flutt eru til Vestur-Evrópusambandsins frá öðrum vettvangi eða stofnunum sem þau eiga þegar aðild að.

Aukaaðildarríki:
    Önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í Evrópu. sem þekkst hafa boð um að gerast aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu, geta, enda þótt þau séu ekki aðilar að hinum endurskoðaða Brussel-samingi, tekið fullan þátt í fundum ráðs Vestur-Evrópusambandsins — með fyrirvara hvað snertir ákvæði VIII. gr. samningsins — svo og starfshópum þess og undirstofnunum, eins og nánar er lýst hér á eftir:
—    Að ósk meiri hluta aðildarríkja, eða helmings aðildarríkja að meðtöldu formennskuríki, má takmarka þátttöku við aðildarríki,
—    þau munu geta tengst varnaráætlanadeild með föstum tengilið,
—    þau munu eiga sama rétt og bera sömu skyldur og ríki með aðild hvað snertir störf sem flutt eru til Vestur-Evrópusambandsins frá öðrum vettvangi eða stofnunum sem þau eiga þegar aðild að,
—    þau munu njóta málfrelsis, en geta ekki komið í veg fyrir samróma ákvarðanir aðildarríkja,
—    þau mega tengjast ákvörðunum aðildarríkja og geta tekið þátt í að framkvæma þær nema meiri hluti aðildarríkja, eða helmingur aðildarríkja að meðtöldu formennskuríki, ákveði annað,
—    þau munu á sama grundvelli og aðildarríki taka þátt í þeim hernaðaraðgerðum Vestur-Evrópusambandsins sem þau leggja herlið til,
—    þau munu að öllu leyti samþykkja efni A-kafla III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar er verður hluti aukaaðildarskjalsins,
—    þau verða tengd við fjarskiptakerfi aðildarríkjanna (WEUCOM) hvað snertir fjarskipti varðandi fundi og störf sem þau taka þátt í,
—    þau verða beðin um að leggja fram fé til þarfa samtakanna.

Geimverkefni:
    Af framkvæmdaástæðum verða geimverkefni takmörkuð við núverandi aðildarríki til 1995 er tilraunaþætti rekstrar gervihnattamiðstöðvarinnar lýkur. Meðan á þeim þætti stendur verða ný aðildarríki og aukaaðildarríki látin fylgjast með þeim störfum Vestur-Evrópusambandsins sem varða geimverkefni. Gerðar verða viðeigandi ráðstafanir til að aukaaðilar geti tekið þátt í síðari geimverkefnum um leið og ákvarðanir eru teknar um að halda þeim áfram.

Umboð:
C. Ráðherrarnir fólu fastaráðinu að undirbúa viðræður við viðkomandi ríki.

    Ráðherrarnir staðfestu þá ósk sína að nauðsynlegum samningum yrði lokið fyrir árslok 1992.