Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 510 . mál.


863. Tillaga til þingsályktunar



um skólabúðir að Núpi.

Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Svavar Gestsson,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun skólabúða að Núpi í Dýrafirði. Skólabúðirnar verði aðallega opnar nemendum 8.–10. bekkjar grunnskóla, auk þess sem nemendum framhaldsskóla verði gefinn kostur á því að vera í skólabúðum að Núpi.
    Skólabúðirnar að Núpi taki til starfa frá og með næstu áramótum.

Greinargerð.


    Mikil óvissa er um skólahald á Vestfjörðum að Núpi og í Reykjanesi. Málefni Reykjaness hafa verið rædd á Alþingi eftir að ríkisstjórnin ákvað að loka skólanum í andstöðu við þingmenn Vestfjarða. Ríkisstjórnin lét viðhorf þingmanna Vestfjarða sem vind um eyru þjóta og hefur hún enn ekki tekið ákvörðun um framtíðarstarf skóla í Reykjanesi.
    Alþingi hefur hingað til hins vegar lítt fjallað um þá staðreynd að annar héraðsskóli á Vestfjörðum hefur verið lokaður í eitt skólaár. Það er skólinn að Núpi í Dýrafirði. Þar var myndarlegt skólastarf til skamms tíma og þar eru húsnæðisaðstæður ákjósanlegar.
    Hér er flutt tillaga um að húsnæðið að Núpi verði nýtt fyrir skólabúðir líkar þeim sem eru að Reykjum í Hrútafirði og hafa gefist vel. Þar er fullskipað allan veturinn. Hér er gert ráð fyrir því að miða skólabúðirnar að Núpi aðallega við unglingastarfið, auk þess sem nemendum framhaldsskóla verði gefinn kostur á því að vera í skólabúðum að Núpi.
    Fyrir liggja hugmyndir um skólabúðir að Núpi. Verður gerð nánari grein fyrir þeim málum í framsögu.