Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 519 . mál.


877. Tillaga til þingsályktunar


um ár aldraðra.

Flm.: Svavar Gestsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa sjö manna nefnd fulltrúa allra þingflokka er hafi það verkefni að vinna að framkvæmdaáætlun í málefnum aldraðra í tilefni af ári aldraðra.
    Nefndin hafi nána samvinnu við frjáls félagasamtök sem þegar hafa lagt drög að undirbúningi átaks vegna árs aldraðra. Meginverkefni þeirrar nefndar, sem Alþingi ályktar að kjósa, verði hins vegar að móta framkvæmdastefnu í málefnum aldraðra til lengri tíma.
    Nefndin skal gera grein fyrir einstökum þáttum þessarar framkvæmdaáætlunar og samspili þátt anna. Nefndin geri þannig tillögu um heimilisþjónustu og heimahjúkrun aldraðra, heilsugæslu aldr aðra, hjúkrunarheimili, lífeyrismál og aðra þá þætti sem snerta aldraða sérstaklega. Nefndin meti enn fremur sérstaklega árangur þann sem varð af ári aldraðra 1982, þar með talin lögin um málefni aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Nefndin leggi fyrir þing í haust skýrslu um málin sem verði rædd á Alþingi, m.a. í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Greinargerð.

    Þegar síðast var efnt til árs aldraðra hér á landi tóku stjórnvöld virkan þátt í því. Það gerðist með setningu laganna um málefni aldraðra og með lögunum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Má segja að framkvæmdasjóðurinn hafi staðið fyrir byltingu á þessu sviði eins og fram kemur í fylgiskjölum með tillögu þessari.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem nú situr, hefur hins vegar ákveðið að ríkisstjórnin verði ekki aðili að ári aldraðra á Íslandi. Hefur hann reyndar fullyrt að það sé ekkert ár aldraðra á Ís landi af því að Ísland er ekki í Evrópubandalaginu. Þrátt fyrir þessa afstöðu ráðherrans hefur fjöldi félagasamtaka undirbúið margs konar tíðindi á ári aldraðra 1993 á Íslandi.
    Tillagan skýrir sig að mestu leyti sjálf en nánar verður gerð grein fyrir henni í umræðum. Hvat inn að flutningi tillögunnar er þríþættur:
    Í fyrsta lagi hafa kjör aldraðra almennt farið versnandi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Í öðru lagi ríkir beinlínis neyðarástand í málefnum aldraðra á ákveðnum svæðum, einkum í Reykjavík þar sem borgaryfirvöld hafa kosið að eyða peningum fremur í annað en hjúkrunarheimili aldraðra. Í þriðja lagi má nefna yfirlýsingu ráðherra um afstöðu hans til árs aldraðra sem eina af ástæðunum fyrir flutningi tillögunnar.
    Í fylgiskjölum eru birtar mikilsverðar upplýsingar um málið. Fyrst er þar að nefna skýrslu um málefni aldraðra sem lögð var fram á síðasta þingi, en æskilegt er að ræða efni hennar um leið og tillagan er rædd og í annan stað er birt umræða úr fyrirspurnatíma um ár aldraðra og orðaskipti flutn ingsmanns og ráðherra af því tilefni.


Fylgiskjal I.

Skýrsla heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

um málefni og hagi aldraðra.

(3. mál 115. löggjafarþings.)



(Tölvutækur texti ekki til.)

Fylgiskjal II.


Frá umræðum á Alþingi um fyrirspurn Svavars Gestssonar um ár aldraðra.

(11. mars 1993).


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Árið 1982 var alþjóðlegt ár aldraðra. Á því ári efndu stjórnvöld til mikils átaks í þágu málefna aldraðra, m.a. með framkvæmdaáætlun í málefnum aldraðra sem hafði það í för með sér að það hafa verið byggð síðan á árinu 1982 mörg hundruð rými fyrir aldraða hér á landi, bæði hjúkrunarrými og almenn vistrými.
    Það er hægt að halda því fram með góðri samvisku að þetta ár aldraðra 1982 hafi þannig séð markað tímamót á Íslandi. Nú er það svo að fyrir nokkru ákváðu Evrópubandalagið og EFTA-ríkin að efna til árs aldraðra í Evrópu. Síðan rofnaði það samstarf. EFTA-ríkin klufu sig út úr því. En Norðurlöndin hafa engu að síður ákveðið fyrir sitt leyti að helga þetta ár málefnum aldraðra.
    Hér á landi hefur því miður ekki orðið vart við jákvæða stefnumótun í málefnum aldraðra á þessu ári. Mér er ekki kunnugt um að neinar stefnumarkandi áætlanir í málefnum aldraðra liggi fyrir um fram það sem komið hefur fram í ákvörðun stjórnvalda á öðrum sviðum sem bitnar á öldruðum, m.a. að því er varðar lyf og læknisþjónustu og fleiri slíka þætti, sömuleiðis verðlag á sérfræðiþjónustu lækna. Göngudeildargjöld hafa hækkað o.s.frv. og allt bitnar þetta á gömlu fólki.
    Mér er kunnugt um að þau samtök sem sinna málefnum aldraðra hafa lagt mjög mikla áherslu á að reyna á árinu að efna til alls konar viðburða til að kynna hluta aldraðra í þjóðfélaginu, m.a. menningarstarfsemi á vegum aldraðra sem mun birtast með málverkasýningum síðar á þessu ári. Þá verður sérstakur hátíðisdagur helgaður málefnum aldraðra í sumar þar sem hápunkturinn verður hér m.a. í miðbæ Reykjavíkur. En stjórnvöld hafa hins vegar ekkert aðhafst að þessu leyti til og ekki lagt fram neina stefnumarkandi áætlun og samtök aldraðra og samstarfsnefndin um málefni aldraðra hefur ekki verið „beðin um neitt“ eins og það er orðað af hálfu stjórnvalda. Stjórnvöld hafa ekki virt samtök aldraðra viðlits á þessu ári til þessa að því er varðar tillögur í tilefni af ári aldraðra.
    Þess vegna er fsp. borin fram um leið og hún er borin fram til að skora á hæstv. heilbrrh. að láta ekki lyfjahækkanirnar einar nægja, heldur að ákveða einhverja stefnumarkandi framkvæmdaáætlun í málefnum aldraðra sem gæti orðið til að halda áfram því mikla átaki sem efnt var til frá og með ár inu 1982 og hefur sannarlega valdið kaflaskilum í málefnum aldraðra hér á landi.

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Fyrri fsp. hljóðar svo:
    „Til hvaða ráðstafana hyggst heilbrrn. grípa til þess að bæta kjör og aðbúnað aldraðra í tilefni af ári aldraðra 1993?“
    Þessi fsp. virðist vera á misskilningi byggð. Þeim misskilningi að Ísland sé aðili að ákvörðun um ár aldraðra 1993. Svo er ekki. Svokallað öldrunarár Evrópu 1993 er hugmynd á vegum Evrópu bandalagsins. EFTA-þjóðirnar hafa ekki tekið þátt í þeim undirbúningi að öðru leyti en því að sumar þeirra hafa sent áheyrnarfulltrúa á undirbúningsfundi Evrópubandalagsins en aðrar, og þar á meðal Íslendingar, fengið fundargerðir af þessum fundum.
    Hér er því alls ekki um að ræða ár aldraðra í þeim skilningi sem hv. fyrirspyrjandi virðist halda, því hér er aðeins um að ræða ákvörðun Evrópubandalagsríkja og eins og kunnugt er er Ísland ekki aðili að Evrópubandalaginu og aðild að Evrópubandalaginu ekki einu sinni á dagskrá hér á Íslandi.
    Síðasti undirbúningsfundur Evrópubandalagsins um þetta mál var haldinn 14. des. sl. og okkur er ekki kunnugt um að nein EFTA-þjóð hafi tekið formlega afstöðu til málsins sem sérstaks árs Evrópuþjóða. Með vísan til þess sem hér hefur verið sagt ítreka ég að ár aldraðra í Evrópu er aðeins ákvörðun Evrópubandalagsríkjanna en ekki með aðild EFTA-þjóða og ekki heldur með aðild þeirra þjóða í Evrópu sem utan þessara bandalaga standa.
    Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort heilbrrn. hafi uppi ákvörðun sem líkist því á einhvern hátt sem gripið var til í tilefni af ári aldraðra árið 1982. Svo er að sjálfsögðu ekki vegna þess að engin ákvörð un hefur verið tekinn um það af hálfu Íslendinga eða annarra EFTA-þjóða um það atvik sem hv. þm. spyr um. Þannig að þetta er fsp. á misskilningi byggð.
    Hins vegar eru öll ár á Íslandi ár aldraðra. Ég vil gjarnan upplýsa hvað verið er að undirbúa í sambandi við árið 1993. Í fyrsta lagi vil ég upplýsa að á fyrsta heila ári ríkisstjórnarinnar árið 1992 voru teknar í notkun á annað hundrað þjónustu- og hjúkrunarrými fyrir aldraðra. Á síðasta ári fráfar andi ríkisstjórnar sem hún lagði grundvöll að, þ.e. árinu 1991 voru tekin í notkun sjö rými. Á árinu 1992 tókst í fyrsta skipti að uppfylla allar þarfir fyrir heimahjúkrun og hvíldarinnlagnir aldraðra á Reykjavíkursvæðinu. Það hefur verið lagður grundvöllur að því að það verði áfram unnt að gera á árinu 1993.
    Í upphafi þess árs hefur verið samið við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri um sérstakt tilrauna verkefni um starfrækslu fimmdagadeildar fyrir aldraða og verður það tilraunaverkefni í þrjá mán uði. Það er í fyrsta skipti sem slík tilraun hefur verið gerð.
    Þá er verið að undirbúa að hefja kennslu í öldrunarfræðum, bæði við læknadeild Háskóla Íslands og einnig í framhaldsskólum. Þá hefur samstarfsnefnd aldraðra verið að kanna hvernig megi koma á alþjóðlega viðurkenndum mælingum á þjónustustörf innan stofnana líkt og komið hefur verið á um vistunarmat. Árið 1993 verður fyrsta árið þar sem liggur fyrir vistunarmat á vistunarþörf aldr aðra í öllum kjördæmum landsins.
    Í september nk. er gert ráð fyrir að samstarfsnefnd Norðurlanda í öldrunarmálum þingi hér á landi og þá mun ráðuneytið nota tækifærið og boða til fundar með þeim aðilum sem vinna að öldrun armálum hér á landi og þeim norrænu gestum sem hér verða. Þá má minna á að ýmis rannsóknar verkefni eru í gangi, svo sem samnorræn rannsókn á högum 80 ára og eldri svo og samanburðar verkefni fimm bæja á Norðurlöndum með 15–20 þús. íbúa þar sem Akureyri hefur verið valin sem fulltrúi Íslands. Þá greiðir ráðuneytið einnig kostnað af sérstöku rannsóknarverkefni á vegum Akur eyrarbæjar og yfirvalda þar um samstarf um heimahjúkrun og heimaþjónustu og liggur niðurstaða fyrir af þeim athugunum.
    Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið þær aðgerðir sem eru í undirbúningi og er verið að fram kvæma á árinu 1993. En ég ítreka að fsp. hv. þm. byggist á misskilningi.

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra og Öldrunarráð Íslands eru nú að undir búa ýmsa viðburði á ári aldraðra 1993. Það verður efnt til verulega myndarlegrar hátíðar hér í miðbæ Reykjavíkur í tilefni ársins, það verður efnt til menningarviðburða í tengslum við málefni aldraðra á árinu 1993 um allt land. Þannig að allir þeir sem sinna málefnum aldraðra frá degi til dags gera sér grein fyrir því að hér er Ísland aðili eins og ég sagði áðan að fjölþjóðasamstarfi, upphaflega Evrópu þjóðanna allra en síðan Norðurlanda um málefni aldraðra.
    Það er hins vegar svo dapurlegt, virðulegi forseti, og ég ætla ekki að orðlengja um það frekar, að það er einn aðili á Íslandi sem veit ekki að það er ár aldraðra 1993, en það er slæmt að það skuli vera hæstv. heilbrrh.

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegur forseti. Það er mjög slæmt að hv. þm., sem manna harðast hefur barist gegn samstarfi Íslands við Evrópubandalagið, skuli ekki gera sér grein fyrir því að ár aldraðra 1993 er einvörðungu bundið við þau lönd sem í Evrópubandalaginu eru. Ekkert EFTA-land hefur tekið ákvörðun um að gerast aðili að því samstarfi um ár aldraðra sem á sér stað innan Evrópubandalagsins. Eina aðferðin til að tryggja það að Ísland gerðist aðili að því átaki sem á sér stað í málefnum aldraðra á vegum Evr ópubandalagsins væri að sjálfsögðu að Ísland gerðist eitt af aðildarríkjum Evrópubandalagsins.
    Ég vænti þess vart að hv. þm. sé að mæla fyrir því. En það sýnir bara á hvílíkum misskilningi og vanþekkingu fsp. hans er byggð. Ég ítreka að ekkert ríki utan Evrópubandalagsins hefur ákveðið að standa að því sem kallað er Öldrunarár Evrópu 1993 í löndum Evrópubandalagsins. Hv. þm. ætti að gera sér fulla grein fyrir því að eini möguleikinn fyrir Ísland til að gerast aðili að Öldrunarári Evr ópu 1993, væri ef það gerðist aðili að Evrópubandalaginu sem hingað til hefur verið aðeins akademískt spursmál hér á landi.

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson):
    Hv. 9. þm. Reykv. óskar að bera af sér sakir.

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Mér þykir leitt til þess að vita að Öldrunarráð Íslands og samstarfsnefnd um málefni aldraðra séu að fást við verkefni sem er tómur misskilningur og það sé verið að undirbúa verulega menningarviðburði í tengslum við ár aldraðra á Íslandi en hafi farið fram hjá hæstv. heil brrh. Kannski er það miðað við allar aðstæður í raun og veru trygging fyrir því að ár aldraðra geti orðið vel heppnað á Íslandi að hæstv. núv. heilbrrh. komi ekki hvergi nálægt því.

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. ráðherra hefur þegar talað tvisvar í þessum umræðum og samkvæmt þingsköpum er hon um ekki leyft að tala aftur.

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla bara að spyrjast fyrir um það hjá forseta: Hvaða sakir var hv. þm. að bera af sér í ræðu sinni hér áðan?

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Í tilefni af spurningu hæstv. heilbrrh. þá er oft erfitt fyrir forseta að meta innihald ræðna hv. þm. og telur forseti að það sé ekki í hlutverki hans að gera það þegar ræðum er lokið. Hv. 9. þm. Reykv. óskaði eftir því skv. 55. gr. þingskapa að bera af sér sakir og það er heimilt og honum var veitt það.

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Bara til glöggvunar voru þær sakir sem ég vildi bera af mér þær að hæstv. heil br.- og trmrh. hélt því fram að fsp. væri á misskilningi byggð og ekki á rökum reist sem ég hef þó hrakið hér í seinni athugasemdum mínum.
    Mér finnst hins vegar til umhugsunar úr því að heilbrrh. var þeirrar skoðunar að fsp. væri röng þá átti hann að gera athugasemdir við hana um leið og hún kom fram. Það gerði hann ekki. Ég tel að hér sé um að ræða handvömm hæstv. ráðherra og til hennar stofnað vísvitandi til að geta haft í frammi útúrsnúninga skipulega hér í fyrirspurnatíma í stað þess að fjalla um það hvaða stefnu ríkis stjórnin hefði í málefnum aldraðra. Ég gagnrýndi því heilbrrh. á grundvelli þingskapa í þessu efni.

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Ég verð að biðja hv. þm. um að halda umræðum um þingsköp í skefjum eins og þeir frekast mega á þessum fundi. Það er hér verið að svara fyrirspurnum og margar fyrirspurnir á dagskrá nema þá hv. þm. vilji gera athugasemd við stjórn forseta á fundinum og ef hann telur þingsköp hafa verið brotin á einhvern hátt. Hæstv. heilbrrh. óskar eftir því að gera athugasemd við þingsköp.

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. er fyllilega þingleg, en það er líka ekkert óþinglegt við vanþekkingu. Fsp. er þingleg en vanþekkingin getur verið það líka.