Samkeppnisstaða innlendrar garðyrkju

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:39:56 (3315)


[15:39]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Um áramótin gekk í gildi samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið ásamt fylgisamningum hans. Reyndar átti samningurinn um árstíðabundinn tollfrjálsan innflutning á sumum tegundum blóma og grænmetis að taka gildi snemma á síðasta ári samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sá samningur var gerður á milli einstakra EFTA-landa og Evrópubandalagsins. Milli annarra EFTA-landa en Íslands var samið um gagnkvæma rýmkun innflutningsheimilda þannig að hinar þjóðirnar fengu einnig betri kjör á útflutningi landbúnaðarafurða til Evrópubandalagsins. Þessu var þveröfugt varið hvað Ísland varðar því ekki var farið fram á neitt slíkt fyrir íslenskar útflutningsvörur. Íslendingar létu því allt fyrir ekki neitt.
    Hæstv. utanrrh. sagði að við ættum að kaupa meira af framleiðslu fátækra þjóða í Suður-Evrópu en nú hefur komið fram í fréttum að innflutningurinn að undanförnu sem byggður er á þessum samningi kemur bæði frá Afríku og Ameríku svo sá málflutningur átti ekki við rök að styðjast.
    Þó skammt sé um liðið er þegar ljóst að þessi samningur er mikið áfall fyrir íslenska garðyrkju. Á síðustu árum hafa garðyrkjumenn lagt í mikinn kostnað við búnað til

að geta einnig haldið uppi framleiðslu grænmetis og blóma í skammdeginu. Er það framleiðendum mikilvægt að geta þannig tryggt framboð allt árið. En fyrst og fremst er það ómetanlegt fyrir neytendur að innlend matvæli geti fullnægt sem stærstum hluta af matvælaþörfinni. Við fáum sífellt meiri viðurkenningu erlendra sérfræðinga á einstökum aðstæðum á Íslandi til framleiðslu heilnæmra matvæla sem verða í vaxandi mæli talin mikil forréttindi að eiga kost á að fá. Til þess að íslenskir garðyrkjumenn geti haldið áfram að vinna þetta þjóðnytjastarf þarf ríkisvaldið að veita þeim sanngjarnan rekstrargrundvöll.
    Landbrn. hefur að undanförnu látið gera úttekt á samkeppnisstöðu garðyrkjunnar og gefið út um það skýrslur. Þar kemur fram að tollar, orkuverð og fleira, sem ríkisvaldið ákveður, er hér mjög óhagstætt. Á sama tíma og vatnið rennur ónotað fram hjá orkuverum Landsvirkjunar eru samningar um raforkusölu til garðyrkjubænda þannig að rafmagn til lýsingar er rofið til þeirra meiri hluta sólarhringsins vegna þess að annars margfaldast orkuverð sem þó er fyrir miklu hærra en í nágrannalöndum okkar. Sem dæmi um tollamismunun má nefna að nellikkugræðlingar sem garðyrkjubændur eru nú að flytja inn til ræktunar eru á sama verði og innfluttar nellikkur sem seldar eru beint til neytenda.
    Það er augljóst að það er útilokað fyrir íslenska garðyrkju að búa við slíka samkeppnisstöðu. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. hvort ríkisstjórnin ætli ekki tafarlaust að laga aðstæður garðyrkjunnar þannig að hún njóti sanngirni þegar ríkisstjórnin hefur opnað fyrir ótakmarkaðan tollfrjálsan innflutning ýmissa tegunda frá öllum heimshornum u.þ.b. hálft árið.
    Geri ríkisstjórnin ekki nauðsynlegar ráðstafanir mun það kippa rekstrargrundvelli undan mörgum garðyrkjustöðvum sem hafa búið sig til að fullnægja innlendri eftirspurn við þau skilyrði sem ríkisvaldið hefur skapað fram að þessu. Ef svo færi mundi það ekki aðeins gera garðyrkjubændur atvinnulausa, því að í annað hús er ekki að venda við ríkjandi stjórnarfar, heldur yrðu eignir þeirra verðlausar.
    Það er ótrúlegt ef ríkisstjórnin telur siðferðilega réttlætanlegt að gera samning sem hún telur til mikils ávinnings fyrir þjóðarbúið að gera það svo gróflega á kostnað einstaklinga innan einnar atvinnugreinar að þeir verði bæði eigna- og atvinnulausir. Ég vil að minnsta kosti ekki trúa því að það sé vilji meiri hluta alþingismanna.
    Að lokum vil ég geta þess að í 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið segir: ,,Ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðhagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum sem líklegt er að verði viðvarandi getur samningsaðili einhliða gripið til viðeigandi ráðstafana.`` Gildir þetta einnig um hin tvíhliða samning við Evrópubandalagið og hefur landbrh. hæstv. haft í huga að nota sér slíkar heimildir?