Seta embættismanna í sveitarstjórnum

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:25:17 (3582)


[15:25]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur borið fram fsp. sem hann gerði grein fyrir í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er svohljóðandi:
    ,,Hvaða reglur gilda um setu embættismanna, svo sem sýslumanna og starfsmanna ráðuneyta, í sveitarstjórnum eða nefndum á þeirra vegum?``
    Samkvæmt 20. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, eru allir þeir kjörgengir í sveitarstjórn í sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili og ná þar 18 ára aldri ásamt því að fullnægja nokkrum öðrum almennum skilyrðum. Samkvæmt sömu lagagrein er þeim sem kjörgengir eru skylt að taka sæti í sveitarstjórn séu þeir til þess kjörnir.
    Af þessum reglum leiðir að embættismenn ríkis, þar með talið sýslumenn og starfsmenn ráðuneyta, svo og starfsmenn sveitarfélaga, eiga rétt til þess og er meira að segja í vissum tilvikum skylt að taka sæti í sveitarstjórn. Sama á við um nefndir á vegum sveitarstjórnar að öðru leyti en því að í 59. gr. sveitarstjórnarlaga er svo fyrir mælt að forstöðumenn og aðrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana sveitarfélaga séu ekki kjörgengir í stjórnir þeirra stofnana er þeir starfa hjá.
    Ég lít þannig á að með þessum orðum sé svarað hinum fyrri lið fyrirspurnarinnar.
    Síðari liður í fsp. hv. þm. er svohljóðandi:
    ,,Hvaða áhrif munu ný stjórnsýslulög hafa á þátttöku embættismanna í sveitarstjórnum og nefndum á þeirra vegum þegar þau lög öðlast gildi um nk. áramót og telur ráðherra rétt að setja sérstakar reglur þar um vegna lagasetningarinnar?``
    Hin nýju stjórnsýslulög hafa ekki að geyma neinar reglur um svonefnt almennt hæfi manna til setu í sveitarstjórn eða nefndum á þeirra vegum, þ.e. hvaða skilyrðum menn þurfi að fullnægja til þess að taka þar sæti. Samkvæmt 2. gr. stjórnsýslulaganna gilda ákvæði þeirra ekki heldur við svonefnt sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna eða starfsmanna sveitarfélaga, þ.e. hvenær þeir skuli víkja sæti við meðferð einstakra mála í sveitarstjórnum eða nefndum á þeirra vegum. Um það atriði gilda eftir sem áður ákvæði 45. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir að sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo og sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
    Ástæðan fyrir því að ekki þótti rétt að láta hin ítarlegu ákvæði stjórnsýslulaganna um sérstakt hæfi taka til sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga er sú hve fámenn sveitarfélögin eru en sú staðreynd gerir það aftur erfitt eðli málsins samkvæmt að gera strangar kröfur í þessu efni.
    Álitamál er að sjálfsögðu hvaða reglur skuli gilda um kjörgengi í sveitarstjórnum og nefndir á þeirra vegum. Alþingi hefur sett þær reglur í sveitarstjórnarlögum og sem fyrr segir hrófla hin nýju stjórnsýslulög ekki við þeim reglum. Af þeim sökum er ekkert tilefni til þess að setja sérstakar reglur um þetta efni nú þegar stjórnsýslulög hafa tekið gildi.
    Á hinn bóginn er það svo, vegna þess að tiltekinn sýslumaður var nefndur, að það er litið svo á að hafi einstaklingar gegnt skyldustörfum sínum í sveitarstjórnum einhvern tíma þá sé þeim heimilt án þess að þeir séu að brjóta þá skyldureglu að taka sæti í sveitarstjórn að biðjast undan því að taka kjöri til slíkra starfa ef þeim hentar. Ég tel að það fari ekki illa á því til að mynda að sýslumenn með þann starfa sem þeir hafa hafi þá reglu sem þarna var nefnd en þeim er það ekki skylt. Þeim er meira að segja rétt að taka slíku kjöri ef þeir óska eftir því sjálfir en það er örugglega til bóta að sýslumenn hafi þá þætti í huga hvort það geti valdið tortryggni í garð þeirra starfa en þeim er það ekki skylt að lögum.