Úthlutun aflaheimilda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:03:51 (4031)


[16:03]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að vegna mikillar loðnu væri þorskurinn í miklum vexti og hefði vaxið hraðar en hann hefur gert að undanförnu. Mér sýnist þess vegna að hv. þm. sem vakti athygli á því hvort auka mætti þorskkvótann hafi í reynd ekki verið að leggja til að fleiri þorskar væru drepnir en hæstv. ráðherrann sjálfur hafði lagt til á sínum tíma. Mér er ekki ljóst að hægt sé að lýsa því yfir að einn sé ábyrgðarlaus en annar með ábyrgð því það vill svo til, hvað sem þessum málum líður, að þingmönnum er ætlað að bera ábyrgð á lífskjörum íslensku þjóðarinnar. Og umhyggjan fyrir þorskinum má varla verða meiri en umhyggjan fyrir fólkinu í landinu.