Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:33:00 (4191)


[23:33]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. talaði frá hjartanu þegar hann mælti hér áðan af mikilli fyrirlitningu og ræddi um fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa sem nýtti sér kerfið til að græða á því. Það er einmitt þessi synd sem er grundvallarsyndin í augum hv. þm., þ.e. að fyrirtæki í landinu í sjávarútvegi skuli nýta sér kerfið til að græða á því. En það er einmitt grundvöllur atvinnulífsins landinu í heild. Það er að fyrirtækin nýti sér það kerfi sem er löglegt kerfi í landinu til þess að græða á því. ( ÓÞÞ: Þetta er nú útúrsnúningur.) Er hægt að fullyrða það eins og hv. þm. sagði hér áðan í andsvari að Útgerðarfélagi Akureyringa væri veittur einhver sérstakur möguleiki til að komast yfir kvóta? Hvað er það sem hefur veitt þessu félagi möguleika til þess að komast yfir kvóta, hv. þm.? Það er rekstur fyrirtækisins og það er tiltrú einstaklinga og lífeyrissjóða á rekstur fyrirtækisins sem lýsir sér í því að þessir aðilar hafa keypt hlutabréf þar sem hefur gefið þessu fyrirtæki sérstakan möguleika til að komast yfir kvóta. Og er þetta í sjálfu sér glæpsamlegt athæfi? Auðvitað er hagkvæmni einstakra fyrirtækja eins og þau eru rekin á landinu öllu hagkvæmni þjóðarinnar í heild. Það er ekki hægt að bera á móti því.
    Það sem mér finnst vera alvarlegast við þær skoðanir sem hér hafa verið viðraðar, m.a. hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, er það að menn ímynda sér það að með því að afnema frjáls viðskipti með kvóta þá sé hægt að leysa með því illvígar deilur sem hafa orðið í þessu þjóðfélagi. Ímynda menn sér virkilega . . .
    ( Forseti (Gunns): Ræðutími hv. þm. er liðinn.)