Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:23:02 (4641)


[21:23]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ef ég man rétt þá minntist hv. þm. Steingrímur Hermannsson hæstv. fyrrv. forsrh. með mikilli virðingu og vitnaði til hans og það tel ég að hæstv. fyrrv. forsrh. hefði bara kunnað vel við ef hann hefði mátt hlýða á. Hann gerði það ekki í ádeiluskyni leyfi ég mér að fullyrða eins og hæstv. núv. forsrh. hefur blandað honum í málið.
    Það hefur vissulega dregið úr setningu bráðabirgðalaga. Ég er ekki að mæla því bót að ríkisstjórnir á níunda áratugnum settu að meðaltali bráðabirgðalög fimm sinnum á ári. Ég er ekki að mæla því bót. M.a. þess vegna var stjórnarskránni breytt, þ.e. þingsköpunum, þannig að Alþingi situr allt árið til að gera óþarft að setja bráðabirgðalög. Ef þau þingsköp sem við búum við nú hefðu verið sett 1980 hefðu ekki verið sett bráðabirgðalög fimm sinnum á ári til jafnaðar.

    Síðan lætur hæstv. forsrh. drjúglega yfir því að hann sé búinn að handjárna þingmenn Sjálfstfl. og það getur vel verið. En hann hefur komið dónalega fram við þá og ég er svo sem ekkert að kvarta yfir því. Þeir verða að svara fyrir sig. En í öllum lifandi bænum vil ég biðja hæstv. forsrh. að muna það að við búum við aðrar aðstæður hvað þinghald snertir nú en við gerðum fyrir 1991.