Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 16:07:58 (4782)


[16:07]
     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég var þar komin í ræðu minni áðan að ég var að ræða um vægi Náttúruverndarráðs eins og það kemur fram í þessu frv. og vil endurtaka það að ég tel að þarna sé verið að fara einhverja leið sem engum þjónar og valdsvið Náttúruverndarráðs verði ekkert að ráði og allra síst þjóni það

hag almennings. Í væntanlegri 16. gr. er talað um að umhvrn. eigi að hafa samvinnu við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins og tel ég vera af hinu góða. Hins vegar hefði ég viljað að í þessu sambandi hefði verið gengið lengra og farið í að kanna grundvöll fyrir því hvernig er hægt að samræma þessi mál enn betur.
    Hvað eftir annað hafa komið fram hugmyndir um ákveðna sameiningu á ákveðnum þáttum þessara stofnana og ég hefði fagnað því að það hefði verið skoðað og látið reyna á það vegna þess að því sem lýst er í frv., þ.e. friðlýsingum, rannsóknarþættinum í störfum Náttúrufræðistofnunar og ef ég bæti við Skógrækt ríkisins, starfsemi hennar um skógvernd og Landgræðslu ríkisins, um landvernd þá eru þetta allt þættir í ákveðinni landnýtingu og sú landnýting er einnig hluti af skipulagsmálum. Þetta hefði þurft að skoða í tengslum við skipulagsmál og hvernig þau eru framkvæmd því að skipulag er ekkert annað en áætlunargerð. Við erum með margar tegundir af því hvort sem það heitir landskipulag, aðalskipulag eða svæðisskipulag. Ef við tökum svæðisskipulag sem dæmi, þá falla friðlýsing og umfjöllun um náttúruverndarsvæði, sem ég tel fyllilega vera á sviði Náttúrufræðistofnunar að koma með tillögur um, undir grunnrannsóknir hjá okkur. Síðan er þáttur skógræktar með ákveðna áætlanagerð í sambandi við hvaða svæði á að taka til ræktunar hvort sem það er sem nytjaskógrækt eða fjölnytja skógrækt og síðan einnig hvernig að landgræðslu er staðið. Þetta er það sem tengist inn í skipulag.
    Í þessari grein hefði ég því viljað sjá eitthvað nánar um þessa samræmingu sem ég var að tala um áðan og hæstv. ráðherra var ekki alveg viss hvernig hann ætti að túlka en það má kannski segja að það lýsi sér best í þessari grein að hún mætti vera ítarlegri og ná yfir fleiri þætti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að samskipti við þessar tvær stofnanir, Landgræðslu og Skógrækt, hefur þvælst fyrir mönnum við stofnun umhvrn. vegna þess að ekki var talið fært að flytja stofnanirnar yfir, en það er spurning hvort einhverjir þættir gætu farið til umhvrn. undir þeim formerkjum að fella þetta meira inn í skipulagsþáttinn. Ég hefði viljað sjá að þessu væri gerð betur skil í frv.
    Ég hafði að vísu ekki margar aðrar athugasemdir en ég ítreka að ég er ekki nógu sátt við þetta með Ferðamálaráð. Það kemur fram í greinargerðinni aftur hvaða vægi það á að fá, en mig langar að lokum, virðulegur forseti, að gera að umtalsefni umsögn fjmrn. Þar er talað um að það eigi að efla sjálfstæði og frumkvæði Náttúruverndarráðs. Og ég endurtek enn og aftur að ég tel það ekki vera tilfellið eins og þetta er lagt fram þarna. Síðan segir í umsögn fjmrn., með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir nokkurri fækkun í öðrum störfum.`` Þ.e. fækkun starfa í Náttúruverndarráði í dag og ég verð að segja að það kemur mér á óvart því ef það er eitthvað sem hefur háð náttúruverndarmálum þá er það einmitt sú mannfæð og þeir erfiðleikar sem Náttúruverndarráð hefur átt í að standa undir þeim skyldum sem því hefur verið lagt á herðar í gegnum löggjöfina. Mér finnst það því ekki verða burðugt ef þetta er túlkað þannig að það eigi að fækka störfum á þessu sviði.
    Nokkur síðar segir í umsögn fjmrn., með leyfi forseta: ,,Í fyrsta lagi munu rannsóknir og vettvangsathuganir við undirbúning framkvæmda verða á hendi Skipulagsstjóra og Náttúruverndarráðs.`` Samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, er það framkvæmdastjóri einn sem á að sinna þessu. Þá er verið að tala um mat á umhverfisáhrifum. Ég átta mig nú ekki alveg á þessu. Þetta þarf að vera nokkuð öflugur starfsmaður ef hann á að komast yfir allt sem honum er ætlað samkvæmt frv.
    Að lokum segir í umsögn frá fjmrn. að umhvrn. fyrirhugi að standa þannig að framangreindum breytingum á framkvæmd náttúruverndar að starfsemin rúmist innan ramma núverandi fjárveitinga. Það finnst mér vera dapurleg niðurstaða því að ég hefði vænst þess að með þessu væri verið að gera svo miklar breytingar og efla þennan málaflokk mikið og til þess þurfum við meira fjármagn og fleira fólk til að vinna að þessum málum. Ég hefði því lagt til að það væri farið hægt í sakirnar til þess að aðlaga þetta aðstæðum eins og þær eru í dag og ná meiri samræmingu, efla starfið við Skipulag ríkisins, Landgræðslu og Skógrækt ásamt fleiri aðilum og aðlaga þetta þeim athugasemdum sem hafa komið fram.
    Virðulegur forseti. Í greinargerðinni með frv. segir m.a. að vinna að gerð þessa frv. hafi eingöngu verið unnin af tveim embættismönnum innan umhvrn. ( Umhvrh.: Og ráðherra.) Og ráðherra, að honum ógleymdum. Ég tel það bagalegt því það er ekki hægt að segja að fjallað hafi verið um það á opnum vettvangi. Umfjöllunin sem var á náttúruverndarþingi sem haldið var í haust var um þá stefnu sem Náttúruverndarráð lagði þar til umfjöllunar og hún var að mörgu leyti mjög frábrugðin því sem hér kemur fram.
    Hins vegar var boðað til ráðstefnu fyrir nokkrum, mér liggur við að segja dögum síðan, þar sem þetta frv. var til umfjöllunar en það var ekki tækifæri til að koma neinum ábendingum í þetta frv. og þessa vinnu vegna þess að frv. átti að leggja fram í þinginu strax daginn eftir eða fimm dögum eftir ráðstefnuna. Það finnst mér bagalegt vegna þess að á ráðstefnunni komu margar mjög góðar athugasemdir. Þess vegna vona ég að í þeirri umfjöllun sem þetta á eftir að fá í þinginu verði tekið mið af því sem þar kom fram og reynt að aðlaga frv. þeim athugasemdum og þeim tillögum því ekki veitir af að reyna að hafa samráð við sem flesta og ekki einangra þetta í þröngum hópum.
    Virðulegur forseti. Þrátt fyrir þessar athugasemdir mínar hvet ég til þess að frv. verði vísað áfram í þinginu og það fái málefnalega og góða umfjöllun.