Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 17:34:00 (5092)


[17:34]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með þessu máli nú um tæplega eins árs skeið. Það var á vormánuðum sem frv. um breytingu á búvörulögunum kom fyrst fram og við erum hér að fást við þriðju gerð þessa máls.
    Hæstv. forsrh. gat þess hér áðan að efni þessara deilna sem við höfum orðið vitni að svo vikum skipti hafi verið meira en efnið gaf tilefni til. Það hefði verið svona eins konar ys og þys út af engu og við hljótum að spyrja okkur hvað liggur þar á bak við, hverjar eru skýringarnar. Ein skýringin er auðvitað sú hvað ástandið hefur verið bagalegt í Sjálfstfl. og sá flokkur slæmur á taugum, ekki síst eftir þá atburði sem gerst hafa hér í Reykjavík og við urðum vitni að í gær kannski síðasta þætti þess taugastríðs. Eins og hér hefur komið fram þá hugleiddi Sjálfstfl. stjórnarslit á grundvelli þessa máls, ekki vegna efnisins sem hér er um að ræða heldur fyrst og fremst til þess að reyna að finna leið út úr þeim mikla vanda sem hann stendur nú frammi fyrir.
    Ég hygg að við séum að fást við eitthvert sérkennilegasta mál sem komið hefur á dagskrá Alþingis um árabil og hér hefur framganga stjórnarliðsins verið með þvílíkum hætti að ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða séð annað eins. Það var makalaust að fylgjast með umræðunum hér sl. fimmtudag og að hlusta á þau mismunandi sjónarmið sem þar komu fram hjá stjórnarliðinu og ekki síst að heyra þau skot sem gengu á milli ráðherranna og þær mismunandi túlkanir sem þeir höfðu á þessum málum. Annars vegar sagði hæstv. landbrh. að í þessum drögum hér væri ekki að finna neina tengingu við GATT-samkomulagið en síðan lýsti hann sig algerlega sammála túlkun formanns landbn. á lögunum. Þá vaknar auðvitað sú spurning út af þessu: Hvað telja menn sig eiginlega vera að samþykkja hérna? Við stöndum frammi fyrir því að það hefur verið skilað hvorki meira né minna en fjórum nefndarálitum í þessu máli og þar af koma þrjú frá stjórnarmeirihlutanum. Hér eru málin túlkuð út og suður og hvert í sína áttina svo að ég ítreka þá spurningu, hvað telja menn sig eiginlega vera að samþykkja? Hæstv. forsrh. sagði áðan að lagatextinn væri skýr en menn túlka hann í margar áttir. Hvað eru menn eiginlega að samþykkja hér?
    Þessi framganga stjórnarliðsins vekur spurningar um það hvers konar verkstjórn er á ferð í þinginu og ekki síst innan ríkisstjórnarinnar. Hvernig hefur hæstv. forsrh. beitt sér í þessu máli? Hvernig hefur hann reynt að leita sátta? Ég gat ekki betur séð en hann stillti sér mjög ákveðið upp með öðrum arminum og gott ef hann var ekki að ýta undir deilurnar meðan hann var að hugsa það hvort hann gæti notað þetta mál til að slíta stjórninni, en svo tók hann á sig rögg og viðurkenndi að það lægi ákveðið samkomulag fyrir í stjórnarflokkunum og það yrði víst að fylgja því.
    Ég túlka nú þessar skammir og skot sem gengið hafa á milli stjórnarflokkanna þannig að þetta lýsi fyrst og fremst þeirri miklu þreytu sem komin er í stjórnarsamstarfið og þeirri uppgjöf sem á þeim er að finna, á þessu þreytta liði, og ég get ekki sagt annað en að þegar svo er komið fyrir stjórnarsamstarfi eins og raun ber vitni þá eiga menn auðvitað að segja af sér. Ég tel að það sé algerlega ófært að afgreiða þetta lagafrv. með þeim hætti að fyrir liggi mismunandi túlkanir og ef þessi mál fara fyrir dómstóla þá hljóta menn að lenda þar í vandræðum. Og hvað er það sem ræður? Hvaða túlkun er það sem ræður? Ég verð að segja það sem mína skoðun að að sumu leyti er túlkun Alþfl. nær lagi. Það er ljóst að Alþfl. fór með sigur af hólmi í þessu máli, þeir fengu sínu framgengt. Það er býsna sérkennilegt að lesa skýringar 1. minni hluta.
    Ég ætla að fara stuttlega í gegnum sögu þessa máls vegna þess að mér finnst hún vera mjög lýsandi fyrir þetta mál allt saman og ágætt að rifja það upp hér. Mergurinn málsins er sá að eftir að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var gerður og undirritaður 2. maí 1992, þá lá ljóst fyrir að í honum fólust breytingar sem snerta íslenskan landbúnað. En eins og mönnum er kunnugt þá er samkvæmt EES-samningnum heimilt að flytja inn ákveðnar blóma- og grænmetistegundir yfir ákveðna vetrarmánuði sem áður var óheimilt og auk þess koma þarna nokkrar mjólkurvörur við sögu, jógúrt af einhverju tagi. Í kjölfar þessa samnings var það auðvitað alveg ljóst að það yrði að gera breytingar á búvörulögunum til þess að við gætum uppfyllt þennan samning en á þeim tíma stóðu menn í þeirri trú að hér væri innflutningsbann á ákveðnum tegundum landbúnaðarvara í samræmi við það sem stóð í búvörulögunum. Á þessum tíma var mönnum jafnframt ljóst að ýmsar frekari breytingar kynnu að vera fram undan ef viðræðum lyki um nýjan GATT-samning sem þá stóðu yfir í Úrúgvæ.

    Það var ekki fyrr en undir vor 1993, sem frv. frá ríkisstjórninni leit dagsins ljós og þá sem enn eitt EES-málið sem við vorum að fást við hér á þingi og ég held að þegar það frv. kom fram, þá hafi enginn gert sér ljóst hvílíkt sprengjuefni var þarna á ferð og þetta mál ætti eftir að snúast upp í stórpólitíska deilu milli stjórnarflokkanna. En eins og menn minnast þá var svo heitt í kolunum í fyrravor að hæstv. forsrh. rauf þing með sögulegum hætti á laugardagskvöldi öllum að óvörum vegna þess að honum fannst komið þarna í mikið óefni. En þar með var ekki sagan öll því að málið hélt áfram sl. sumar og blossaði upp hvað eftir annað þegar innflytjendur voru að gera tilraunir og láta reyna á gildandi lög með því að flytja inn kalkúnalappir, skinku og kjúklingabita og ráðherrar gáfu leyfi eða bönnuðu sitt á hvað eftir því hver þeirra átti í hlut.
    Þegar þetta mál er skoðað þá snýst það í hnotskurn um það í fyrsta lagi hvaða lög hafa gilt um innflutning. Eftir þá breytingu sem gerð var á gjaldeyrislögunum 1992 og við stóðum hér öll að, þá var ljóst að þarna hafði orðið breyting á en það túlkaði enginn þá breytingu með þeim hætti sem Hæstiréttur síðar gerði.
    Í öðru lagi snerust þessar deilur um það hvernig bæri að túlka milliríkjasamninga sem við erum aðilar að og í því samhengi vil ég geta þess hér að það er ekki bara um að ræða gildandi GATT-samning og EES-samninginn heldur hafa komið til sögu sérstakir milliríkjasamningar, viðskiptasamningar, fríverslunarsamningar við ýmsar þjóðir. Þar er auðvitað að finna ákvæði sem snerta viðskipti Íslendinga og þar á meðal með landbúnaðarvörur. Mér þóttu mjög athyglisverð ummæli formanns Stéttarsambands bænda þar sem hann sagði í mín eyru að það væri hægt að lifa með GATT-samkomulaginu en hann hefði meiri áhyggjur af ýmsum milliríkjasamningum sem búið væri að gera og menn hefðu ekki áttað sig á að fela í sér ýmiss konar erfiðleika gagnvart íslenskum landbúnaði. Hann nefndi þar sérstaklega fríverslunarsamninginn við Ísrael sem hér fór í gegn að ég held athugasemdalaust í fyrra. Og af því tilefni vil ég hvetja þingmenn til að líta betur á þá fríverslunarsamninga sem við höfum nú til meðferðar á þinginu. Það er erfitt og út í hött að vera að setja á innflutningsbann og reglur um verðjöfnunargjöld ef síðan eru utan við það samningar sem leyfa innflutning án þess að slíkum heimildum sé hægt að beita, þá er komið ákveðið ósamræmi í málin. En þetta þarf auðvitað að skoðast betur.
    Í þriðja lagi hafa þessar deilur snúist um það hvar valdið til að leggja verðjöfnunargjöldin á skuli liggja og hversu víðtækt það vald skuli vera og ég held ég komi nánar inn á það efni hér á eftir. En eins og ég rakti í 1. umr. um þetta mál, þó að hæstv. forsrh. segi að þetta sé ys og þys út af engu, þá er mismunandi hugmyndafræði og mismunandi skoðanir sem liggja hér á bak við. Þær skoðanir varða m.a. afstöðu manna til landbúnaðarins, mikilvægis hans, hvernig og hvort skuli standa vörð um hann, hvernig hann skuli skipulagður og hvort og hvernig stuðningur ríkisins við þessa atvinnugrein skuli vera. Þessar hugmyndir hafa auðvitað stungið upp kolli hér í þessari umræðu.
    Þarna eru líka á ferð mismunandi hugmyndir um viðskiptasiðferði, viðskiptareglur eða viðskiptafrelsi eða takmarkanir á því frelsi. Og loks eru hér líka mismunandi hugmyndir um það hvernig hagur neytenda verði best tryggður.
    Þegar þing hófst í haust biðu menn eftir að frv. til breytinga á búvörulögunum liti dagsins ljós en vikurnar liðu án þess að það kæmi og stjórnarandstæðingar fóru hér margsinnis í pontu og spurðu um þetta mál en fátt var um svör. En síðan gerðist eiginlega sá makalausi atburður að frv. til breytinga á búvörulögum leit dagsins ljós nokkrum dögum fyrir jólaleyfi þingmanna. Aðeins nokkrum dögum fyrir jólaleyfi kom þetta frv. loksins, enda höfðu verið endalausar deilur um þetta í ríkisstjórninni hvernig það skyldi líta út og það var ekki nóg með að málið kæmi svona seint fram heldur var þess krafist að það yrði afgreitt á nokkrum dögum. Og þar mátti ekki orði hagga. Það mátti ekki breyta einu einasta orði í því frv. vegna þess að það var verið að lögfesta samkomulag á milli ríkisstjórnarflokkanna. En þegar farið var að skoða þessa lagasetningu betur nú eftir áramótin kom í ljós þegar þeir ágætu lögfræðingar sem hér hafa komið við sögu í þessari umræðu fóru yfir efni þessarar greinar, 72. gr. laganna, þá var bent á það að hana mætti túlka á þrjá mismunandi vegu og þar að auki væri hæpið að lagagreinin eins og hún var orðuð stæðist stjórnarskrána vegna þeirrar víðu heimildar sem landbrh. er þar veitt til þess að leggja á verðjöfnunargjöld. Ráðherra ákveður upphæð gjaldanna, segir í greininni. Það verður bara að viðurkennast að þetta fór fram hjá okkur í hita leiksins og þeim mikla hraða sem var á afgreiðslu þessa máls. Og það er auðvitað ekki hægt að standa svona að verki eins og þarna var gert.
    Hér hefur mjög mikið komið við sögu deilan um það að hve miklu leyti hægt er að beita þessum lögum og þeim breytingum sem verið er að gera á lögunum á GATT-samninginn væntanlega en það er algerlega ljóst í mínum huga að meiningin af hálfu ríkisstjórnarinnar var aldrei sú að þessi lög næðu til GATT-samningsins. Það var það sem fólst í samkomulagi stjórnarflokkanna að láta þennan væntanlega GATT-samning bíða og hæstv. landbrh. sagði í sinni framsöguræðu 17. des. 1993, það var 17. des. sem mælt var fyrir frv., þá sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Þar eð ekki liggur endanlega fyrir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem felast í væntanlegum GATTsamningi var ákveðið að frekari endurskoðun á innflutningsákvæðum búvörulaganna eigi sér stað á árinu 1994 með hliðsjón af þeim samningi``.
    Það var því alveg ljóst í desember að GATT-samningurinn var ekki inni í dæminu og þarf nú ekki að vera að deila um það mál.

    Næsti þáttur þessa máls voru svo þau óvæntu tíðindi þegar dómur Hæstaréttar féll í skinkumálinu. Sá dómur gekk þvert á dóm undirréttar og það verður ekki annað sagt en þessi dómur hafi komið allverulega á óvart. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að innflutningsbanni hefði verið aflétt með þeim breytingum sem gerðar voru á gjaldeyrislögunum, innflutningslögunum 1992, þó að eins og hér hefur komið fram hafi það verið alveg ljóst að löggjafinn, hið háa Alþingi, taldi sig ekki vera að nema úr gildi þau lög, enda stendur í lagagreininni: Innflutningur er heimill nema önnur lög kveði á um annað. Þetta er ekki orðrétt hjá mér, ég man þetta ekki nákvæmlega, en meiningin er þessi að innflutningur er að öllu jöfnu frjáls nema kveðið sé á um takmarkanir í öðrum lögum.
    Hæstv. forsrh. orðaði það svo að þessum lögum hefði verið laumað í gegnum þingið en ég mótmæli enn og aftur þeim ummælum því a.m.k. töldum við nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. okkur vita nákvæmlega hvað við vorum að gera. Það var verið að breyta neikvæðu ákvæði í jákvætt. Allt er frjálst nema það sem er bannað í staðinn fyrir að áður stóð: Allt er bannað nema það sem er frjálst. Þetta er bara ákveðin framsetning á lögum.
    En Hæstiréttur tók hins vegar ekki mið af þessum vilja Alþingis í sínum dómi og það er kannski ekki síst það sem kemur á óvart. Það var ljóst hver vilji löggjafans var en í sínum dómi túlkar Hæstiréttur það á annan hátt. Það var í kjölfar þessa dóms sem þetta frv. sem hér er til umræðu kom svo fram og enn einu sinni eftir langar og strangar deilur í ríkisstjórninni. Þegar þetta frv. kom fram var það ljóst að enn var verið að lögfesta samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna og að þessu sinni var meiningin að gera það þannig að telja upp hverja einustu vöru sem hæstv. landbrh. hefði vald yfir þannig að hans vald væri ljóst. Við 1. umr. gagnrýndum við stjórnarandstæðingar þessa framsetningu málsins og þótti afar einkennilegt en það sem hefur gerst í meðferð málsins er að það er ekki bara einn viðauki heldur eru þeir orðnir tveir og upptalningin orðin enn þá ítarlegri. Ég túlka þessa meðferð málsins þannig að þarna komi enn einu sinni í ljós það vantraust sem ríkir á milli stjórnarflokkanna. Og enn og aftur kom það fram þegar ráðherra lagði málið fram að það var ekki meiningin að ná utan um nýja GATT-samninginn og ég ætla enn að vitna í það sem hann sagði við 1. umr. um þetta frv., með leyfi forseta:
    ,,Það er óhjákvæmilegt í lokin á þessari ræðu að láta í ljós von um það að hv. þingmenn telji að sú niðurstaða sem hér er fengin sé tryggileg og nægileg. Við erum að tala um það að GATT-samningar ganga í gildi um næstu áramót, kannski á miðju næsta ári. Undirbúningur þeirrar löggjafar er auðvitað hafinn. Við erum þess vegna ekki með þessum lögum að skapa ástand sem eigi að vara til langs tíma, heldur erum við að tala um skamman tíma.``
    Þetta var skilningur ráðherrans á því hvað væri verið að gera og það var ljóst að í samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna fólst það að skipuð yrði nefnd fjögurra ráðuneyta sem mundi koma með tillögur um framtíðarskipan þessara mála. Og þess vegna var þetta frv. sem lagt var fram í janúar og mælt fyrir 3. febr., það var og er eins konar vopnahlé á milli ríkisstjórnarflokkanna, vopnahlé til skamms tíma. Við erum því að fjalla um tímabundið ástand. ( JGS: Vopnahléið stóð ekki lengur en í Sarajevó.) Nei, vopnahléið hefur verið rofið margsinnis en það ríkir friður þessa stundina. Átök blossuðu reyndar upp enn einu sinni sl. fimmtudag. En ég er nú að rekja þetta hér vegna þess sem á eftir gerðist. Það sem gerðist var einmitt það að þegar hv. landbn. hóf skoðun málsins, þá kom tvennt í ljós, reyndar var fleira en tvennt sem skipti kannski mestu máli. Það voru fleiri atriði sem þeir lögmenn sem við kölluðum til bentu á en það var tvennt sem skipti þarna mestu máli. Það var annars vegar þetta að það væri nauðsynlegt að endurskoða hina nýsettu 72. gr. laganna þrátt fyrir samkomulag stjórnarflokkanna vegna þessara mismunandi túlkana sem menn gátu sett fram á þessari grein vegna þessarar opnu skattlagningarheimildar sem ég gat um hér áðan. Þetta var annað atriðið en hins vegar gerðist það að það kom strax fram mikill vilji allrar nefndarinnar til þess að kanna það hvort ekki væri með einhverjum hætti hægt að ná utan um GATT-samninginn, hinn nýja GATT-samning. Ég skildi það þannig. Við vildum leita leiða til þess að gera lögin þannig úr garði að allri réttaróvissu yrði eytt og jafnframt að í honum fælist heimild til landbrh. til þess að vinna að því sem fram undan er. Það má svo aftur um það deila hvort það er hægt í raun og veru. Það er kannski hluti af þeim deilum sem hér eru á ferð hvort í rauninni er hægt að setja í lög ákvæði um samning sem ekki er búið að ganga frá og Ísland ekki orðið aðili að. En það sem við vildum reyna var að finna einhverja leið í málinu þannig að hægt væri að þróa málin áfram eftir því sem GATT-samningurinn skýrist. Okkar vilji var sá að staða landbúnaðarins gagnvart því sem koma skal væri sem allra skýrust og það væri ljóst hvernig þessum heimildum til gjaldtöku gagnvart GATT-samningnum yrði háttað. Og ég ítreka það enn að það var nefndin sem heild sem tók þessa stefnu. Það var ekki hv. formaður nefndarinnar Egill Jónsson sem réð þar alfarið ferðinni. En hins vegar gerðist það þegar lögfræðingarnir fóru að vinna og tillögur fóru að koma fram að tillögur þeirra voru ekki í samræmi við það sem mér alla vega fannst vera rétt og ég var ekki alls kostar sátt við þá stefnu sem tillögugerðin tók.
    Að mínum dómi eru það þrjú meginatriði sem skipta máli varðandi þessa lagasetningu. Þar er fyrst að nefna að lögin standist þá milliríkjasamninga sem Íslendingar eru aðilar að hvað sem okkur svo annars finnst um efni þeirra samninga. Ég get ítrekað það enn einu sinni að ég er andstæðingur samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði en úr því að hann er orðinn að lögum þá eigum við að standa við þann samning enda grundvallaratriði að við stöndum við gerða samninga hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

    Í öðru lagi tel ég það vera meginatriði og þarf varla að nefna að valdið til skattlagningar, því eins og hér hefur komið fram þá erum við að tala um skattlagningu --- íslenskir dómstólar hafa túlkað gjaldtöku af þessu tagi sem skatt --- þessi skattlagning þarf að vera í samræmi við gildandi lög og reglur. Það gengur ekki að við séum að samþykkja breytingar á lögum sem jaðra við stjórnarskrárbrot. Það gengur auðvitað ekki, það sér hver maður.
    Í þriðja lagi finnst mér vera meginatriði þessa máls að vald landbrh. sé vel skilgreint og að því verði beitt á þann hátt að það valdi hvorki hækkun verðlags í landinu né óeðlilegum takmörkunum á innflutningi og það verður að segjast eins og er að á tímabili stefndi í allsérstæðar heimildir landbrh. í þeim efnum en sú varð ekki raunin á.
    Varðandi þessi efnisatriði vil ég geta þess og ítreka það að ég hef haft vissar efasemdir um þá skipan mála sem hér er lögð til. Ég gat þess í ræðum þegar við vorum að ræða þessi mál fyrir jólin en þessi skipan var þá lögfest. Það sem einkum hefur vakað fyrir mér er það að ég átt þátt í því að vinna að breytingum á tollalöggjöfinni í hv. efh.- og viðskn. þegar það var samþykkt í ljósi EES-samningsins og í ljósi bókunar 3 að veita fjmrh. heimildir til álagningar verðjöfnunargjalda. Þar var sú breyting gerð. Síðan var tekin sú stefna að færa þetta vald yfir til landbrh. að hluta til, þ.e. það sem snýr sérstaklega að þessum milliríkjasamningum og mér finnst það ekki gefið að það sé rétt að skipan mála sé með þessum hætti þó að bæði Norðmenn og Svíar hafi þann hátt á. Ég vil benda á að þessum málum er háttað öðruvísi í ýmsum öðrum ríkjum. Sem dæmi má nefna Bandaríkin. Þar hefur annars vegar verið haldið uppi miklum verndartollum en hins vegar verið talað fyrir frjálsum viðskiptum og frjálum innflutningi. Þar háttar málum þannig að sérstök stofnun eða ráðuneyti fer með þessi mál, US Trade Representative, og sú stofnun fer með forræði tollamála en landbrn. hefur umsagnarrétt um þau mál sem snerta landbúnaðinn. Þessum málum er því háttað á ýmsan veg og ég hefði kosið að við hefðum einfaldlega skoðað það betur hvernig og hvað hentar okkur best hér.
    Ég get tekið undir þau sjónarmið að það er eðlilegt að landbrn. komi að þessum málum en það er líka eðlilegt að þar komi önnur sjónarmið að og ekki síst sérfræðiþekking á sviði alþjóðaviðskipta og þeirra samninga sem við erum aðilar að og þar geta auðvitað hagsmunir og hugmyndir rekist á. Ég held að það þurfi að huga mun betur en gert hefur verið að því fordæmi sem þessi skipan mála felur í sér gagnvart stjórnsýslunni. Við þurfum að hafa það í huga að þessi breyting getur haft ýmislegt annað í för með sér nema menn séu einfaldlega þess fullvissir að sérstaða landbúnaðarins sé svo mikil að hún réttlæti þessa skipan ein og sér án þess að setja nokkur spurningarmerki við það hvort það á að koma sama skipulagi á annars staðar, að innflutningur á sjávarafurðum fari til sjútvrn. og iðnaðarvörum fari til iðnrn. o.s.frv.
    En hvað um það, það er alveg ljóst að við erum að tala um tímabundið fyrirkomulag og það verður farið yfir þessi mál öllsömul þegar kemur að því að fjalla um GATT-samninginn hvort sem það verður gert af þessari ríkisstjórn eða einhverri annarri og ég ætla að láta þetta gott heita í bili. Ég féllst á þetta fyrir jól og ég ætla að standa við það þó að ég hafi vissulega efasemdir hvað þessi mál varðar.
    Varðandi þau tvö önnur mikilvægu atriði sem ég nefndi áðan, skattlagningarvaldið og það hvort þessar breytingar standist þá milliríkjasamninga sem við erum aðilar að, þá fæ ég ekki betur séð en að búið sé að skilgreina skattlagningarvaldið með fullnægjandi hætti þó að sé allt óljóst um framkvæmdina, allt óljóst um það hvernig þessi álagning verðjöfnunargjaldanna verður í raun.
    Varðandi það hvort þessar breytingar standast milliríkjasamninga vil ég rifja upp að í hv. landbn. kom fram og eru lagastoðir fyrir að samkvæmt gildandi GATT-samningi er ekki heimilt að taka upp þrengingu á innflutningi eða innflutningsbann. Eftir að dómur Hæstaréttar féll er ljóst að hér ríkir ekki innflutningsbann, ef þessi lög verða samþykkt þá er auðvitað verið að taka bannreglu upp að nýju. En það var hins vegar túlkun þeirra sérfræðinga sem við kölluðum til að hér væri um tímabundið ástand að ræða og ákaflega ólíklegt að nokkur fari að fetta fingur út í það þó að við bregðumst þannig við meðan þessi mál eru til endurskoðunar enda var ljóst að löggjafinn stóð í þeirri trú að hér væri innflutningsbann. Þetta er sennilega ekki atriði sem þarf að hafa miklar áhyggjur af en þetta er ekki samkvæmt laganna hljóðan.
    Hér hefur miklum tíma verið varið til þess að bera saman nefndarálit 1. og 2. minni hluta og mér þykir að Alþfl. hafi fengið liðsmann í Morgunblaðinu sem gerði úttekt á þessum málum 3. mars sl. Ég ætla aðeins að vitna í þá úttekt en þar var dregið mjög rækilega fram hvernig þróun málsins var í nefndinni og hvernig þessar brtt. þróuðust, hverju var bætt við og síðan hvað var tekið út. Það er alveg ljóst að Morgunblaðið er sammála túlkun Alþfl. og reyndar okkar stjórnarandstæðinga á því að öll tenging við GATT-samninginn hafi verið felld út úr þessum brtt. Það segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Öll tilvísun til fyrirkomulags tollamála eftir gildistöku GATT er felld út.``
    Ég er á þeirri skoðun að þessi túlkun sé rétt og eins og reyndar ráðherrar hafa margítrekað hér.
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins í lokin að koma að því um hvað þetta mál snýst í raun og veru þegar á allt er litið. Í fyrsta lagi snýst það um vinnubrögð í ríkisstjórninni. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þetta mál hefur opinberað vægast sagt furðuleg vinnubrögð í þeirri ríkisstjórn sem nú situr og ekki er annað hægt að segja en það er makalaust að horfa upp á það hvernig menn hafa verið að reyna að komast hér fram hjá því samkomulagi sem gert hefur verið. Málið hefur líka snúist um verkaskiptingu milli ráðuneyta og það er óútkljáð hvernig þeim málum verður á endanum háttað.
    Í þriðja lagi snýst þetta mál, og það er kannski það langmikilvægasta, um það hvernig hægt verði

að búa íslenskan landbúnað undir þær breytingar sem fram undan eru og hvernig hægt verði að standa vörð um íslenskan landbúnað. Það er mergurinn málsins. Og mín meginspurning í framhaldi af þessu öllu saman er auðvitað sú: Hvernig er verið að undirbúa íslenskan landbúnað undir þær miklu breytingar sem fram undan eru? Þó að hæstv. forsrh. geri lítið úr GATT-samningnum þá felur hann auðvitað í sér töluverðar breytingar. Hann felur í sér aukinn innflutning og allt hefur þetta áhrif á atvinnugrein sem nú þegar stendur mjög illa að vígi og hefur gengið í gegnum mikinn samdrátt. Það þarf enginn að segja manni það að þessir samningar hafa sín áhrif. Að mínum dómi hafa menn verið að verja tímanum í endalaust þras um tímabundið ástand í stað þess að snúa sér að því verki að skapa íslenskum landbúnaði viðunandi samkeppnisstöðu og þar þarf svo sannarlega fleira að koma til en þau verðjöfnunargjöld sem okkur hefur orðið svo tíðrætt um. Það þarf í fyrsta lagi að snúa sér að því að endurskoða búvörusamninginn, ekki síst í ljósi fenginnar reynslu og þeirra breytinga sem við höfum horft upp á, ekki síst varðandi sauðfjárbændur. Þar þarf að fara rækilega í gegnum skipulag landbúnaðarins. Á því eru bændur reyndar byrjaðir sjálfir en þar þarf miklu meira að koma til. Það þarf að skoða verðmyndunarkerfið, það þarf að skoða milliliðina og afurðastöðvarnar og það þarf að fara í gegnum lagabáknið sem reyrir landbúnaðinn niður og það þarf að skapa honum meira svigrúm og sjálfstæði þannig að hann geti sjálfur tekið á sínum málum. Og það þarf að skoða allt umhverfi landbúnaðarins í ljósi nýrra aðstæðna þannig að hann standist þá samkeppni sem fram undan er og hann fái notið þeirrar sérstöðu sem felst í hinum miklum gæðum íslenskra landbúnaðarvara.
    Þetta er það verk sem er fram undan, að fara í gegnum stöðu landbúnaðarins og að finna leiðir til þess að bæta stöðu hans og búa hann undir samkeppnina. En ég heyri ákaflega lítið frá hæstv. landbrh. hvað þessi mál varðar, enda kom það fram á búnaðarþingi, sem er nýlokið, að fulltrúar landbúnaðarins eru mjög uggandi um sinn hag og þykir erfitt að búa við það að vita ekkert hvernig starfsumhverfi landbúnaðarins verður á komandi árum. Ég skora á hæstv. landbrh. að snúa sér að því að taka á þessum málum, fara í gegnum stöðuna og finna leiðir til þess að bæta stöðu landbúnaðarins. Það má ekki bíða að landbúnaðurinn hér á landi hefji stórsókn á öllum sviðum til þess að tryggja betur stöðu sína. Það þarf virkilega að taka á öllum þáttum hans.
    Virðulegi forseti. Að lokum er mín niðurstaða sú að í þessu máli hafi öll vinnubrögð verið aldeilis fráleit. Við stöndum frammi fyrir því að túlkanir á þeim lagatexta sem hér liggur fyrir eru afar misvísandi sem leiðir auðvitað til þess að réttaróvissu, sem meiningin var að eyða, verður ekki eytt. Meðferð GATT-málsins er jafnóljós og áður og verður kannski illa við ráðið og mín lokaniðurstaða er sú að þannig hafi verið staðið að þessu máli að rétt sé að á endanum beri ríkisstjórnarflokkarnir ábyrgð á því þó að við kvennalistakonur munum samþykkja einstaka þætti málsins.