Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 11:35:08 (5317)


[11:35]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Já, það er varðandi 3. gr. Hv. þm. talaði um það og raunar líka í gær að umsögnin um 3. gr. væri eins og hún væri skrifuð um eitthvað allt annað en stendur í lagagreininni sjálfri. Hv. þm. veit náttúrlega að í umsögnum um lagagreinar kemur ýmislegt fleira fram heldur en stendur í greininni sjálfri. Það er ekkert annað sem er að gerast hér heldur en það að verið er að skýra út eftir hverju ætlast er til að ráðherra fari við val á meðlimum í Vísindaráðið. Ég sé ekki neitt óeðlilegt við það. Ég tek hins vegar fram að ég hefði ekkert á móti því að það væru settar einhverjar viðmiðunarreglur um það hvernig skuli skipað í ráðið. Ég hef ekkert á móti því, en ég tel ekkert óeðlilegt við það að í umsögn um greinina komi fram til hvers er ætlast af ráðherra. Það er það sem þarna er gert og það hefur þýðingu í sambandi við framkvæmd laganna.
    Hv. þm. taldi eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir að það væri óeðlilegt að það væri í höndum ráðherra að hafa frumkvæði að skipun rannsóknaprófessors. Ég er þessu ósammála. Ég tel eðlilegt að það sé einmitt í hendi ráðherra. En ef menn halda að með því hafi ráðherra alveg frjálsar hendur um það hvern hann setur í stöðu rannsóknaprófessors þá er það auðvitað grundvallarmisskilningur. Ég kæmist t.d. ekki upp með það að setja hv. þm. Svavar Gestsson sem rannsóknaprófessor t.d. á einhverju sviði læknavísinda vegna þess að hann mundi ekki standast hæfnisdóm. Ég er ekki að segja honum það til neinnar lítillækkunar. Rannsóknaprófessor þarf að ganga í gegnum hæfnisdóm og það er t.d. munurinn á því sem er varðandi rannsóknastöðu t.d. í fornleifafræði sem hér var rætt um áðan. Það var mál sem háskólinn tók upp hjá sér og það fór enginn í hæfnisdóm til að hljóta þá stöðu. Það var ákvörðun háskólans. Þetta gæti menntmrh. ekki gert. Á þessu er sem sagt alveg grundvallarmunur.
    Varðandi annað atriði sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi líka. Honum þótti undarlegt að í einum lagabálki væri ungað út fjórum sjóðum, eins og ég held að hv. þm. hafi orðað það. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þrír þessara sjóða höfðu lagastoð áður og hér erum við að sameina Rannsóknaráð ríkisins og Vísindaráð þar sem þessir þrír sjóðir voru vistaðir. Rannsóknanámssjóðurinn er hins vegar að fá hér lagastoð í fyrsta sinn, en hann var stofnaður í fyrra án sérstakrar lagaheimidar.