Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:16:26 (5448)


[18:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að staðfesta að ég er almennt með mjög jákvæðu hugarfari, það er auðvitað ljóst. Í öðru lagi þakka ég honum fyrir að staðfesta að hér er um ákaflega sértækar aðgerðir að ræða eins og hæstv. fjmrh. orðaði það og held ég að það sé tiltölulega mjög góð einkunn að þær eru ákaflega sértækar.
    Í þriðja lagi er það hins vegar þannig, hæstv. forsrh., að jafnvel þó að þær væru sértækar og ákaflega sértækar í þeim skilningi að þær taki bara á vanda byggðarlaga í atvinnumálum, sem stafar af slæmri afkomu fyrirtækja vegna samdráttar í þorskveiðum, þá eru þær samt sértækari en það vegna þess að hliðstæð dæmi finnast í öðrum landshlutum sem þessu frv. er ekki ætlað að taka til. Því er jafnframt ætlað að útiloka fyrirtæki sem eru ekki í sveitarfélögum sem eru að sameinast. Þannig að sjálf grundvallarröksemdin í málinu, undirbygging málsins, að það sé flutt vegna hins sértæka vanda á Vestfjörðum, sem stafar af bágri afkomu og samdrætti í þorskveiðum, fellur um sjálfa sig þegar skilyrðing frv. er dregin fram í dagsljósið. Það er það sem ég er sérstaklega að gagnrýna, hæstv. forsrh., að gangi ekki.
    Ég held að ef málið væri t.d. þannig upp byggt að öll fyrirtæki sem hefðu fengið á sig samdrátt í veiðiheimildum sem næmi meiru en x% í þorskígildum fengju tiltekna fyrirgreiðslu en önnur ekki. Það væri þá rökrétt aðgreining sem mismunaði mönnum ekki eftir landafræði eða sveitarfélögum heldur á efnislegum grundvelli, en þetta gerir það ekki. Þetta er bara einhver mannasetning, að fyrirtæki í tilteknum sveitarfélögum en önnur ekki komist undir þessa reglu.
    Auk þess minni ég á að ríkisstjórnin hefur verið með annars konar sértækar aðgerðir sem m.a. hafa grundvallast á atvinnumálum. Dæmi um það eru Suðurnes.