Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:14:11 (5589)


[15:14]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég er þakklátur hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, fyrir að gefa hér stuttan útdrátt úr því sem aðrir hv. þm. höfðu sagt við þessa umræðu. Ég held að það eina nýja sem kom fram hafi verið skírskotunin til hestamennskunnar. Það er að vísu rétt t.d. um á eins og Kjarrá að ef menn vilja fara upp á Tvídægru þá þykir þeim betra að fara það á hestum. Þannig að það er vissulega viss skyldleiki með lax- og silungsveiði og hestamennsku ef svo ber undir.
    Nú vil ég segja almennt um þá gagnrýni á það hversu seint þetta frv. er fram lagt að auðvitað má færa rök fyrir því og ég er sammála því að það hefði verið betra að frv. hefði komið fyrr fyrir hið háa Alþingi. Á hinn bóginn er á það að líta að í frv. er komið inn á nýja þætti og aðra þætti en gert var á sl. vori, m.a. með hliðsjón af athugasemdum sem ráðuneytinu bárust. Það var reynt að vinna úr þeim og taka tillit til þeirra. Ef það er svo að það sé ofviða hv. þm. í landbn. að gera sér grein fyrir þeim kafla sem inn hefur verið bætt frá því á sl. vori og þeir hafa ekki tíma til þess nú í aprílmánuði þá er hægt að hugsa sér að fella þann kafla frv. niður við afgreiðslu þingsins. Á hinn bóginn eru heilir kaflar í frv. sem voru lagðir fram á sl. vori og sem hv. þm. er engin ofætlan að athuga og gera sér grein fyrir.
    Ég er sammála því sjónarmiði hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, að það var auðvitað álitamál hvort rétt gæti verið að efna til heildarendurskoðunar laganna og leggja hér fram frv. sem í fólst heildarendurskoðun á lögunum um lax- og silungsveiði. Það var hins vegar niðurstaða mín og annarra þeirra sem að þessu máli hafa komið að það væri líklegra að unnt yrði að ná fram breytingum á ákveðnum köflum laganna fremur en á heildarendurskoðuninni vegna þess hversu viðkvæmt þetta mál er og hversu misjafnir hagsmunir eru og vegna þess hve misjafnar skoðanir menn hafa á þessu máli. Af þeim sökum er það mjög viðkvæmt að efna til heildarendurskoðunar eins og ég veit að hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni á að vera sérstaklega kunnugt eins og hann talaði hér áðan. Það er einmitt af þeim sökum sem sú leið var farin að taka sérstaka þætti úr lax- og silungsveiðilögunum út úr til að gera þeim skil og reyna að bæta þar úr.
    Ef það er svo í einhverjum kafla þessara laga að hv. þm. telja sig ekki umkomna að fjalla efnislega um það, ef þeir telja að þeir séu of flóknir eða of seint fram komnir vegna þess að þeir hafa ekki séð þá áður, að þeir geti ekki áttað sig á þeim á þeim tíma sem er til þinglausna, þá er auðvitað ekkert við því að gera. En það má þó ekki verða til að tefja allt málið, því þetta frv. er flutt fram í sérstökum köflum og það er nauðsynlegt að koma við lagfæringu á sumum greinum lax- og silungsveiðilaganna. Þessi mál voru lögð fram til kynningar á sl. vori og hv. þm. sem áhuga hafa á málinu hafa áreiðanlega sett sig rækilega inn í þá þætti málsins. Hins vegar hafa þeir sérfræðingar sem að málinu hafa komið síðan bætt inn nýmælum og nýjum kafla. En eins og ég segi má það ekki verða til þess að tefja fyrir öðrum þáttum málsins.
    Ég álít að þegar þessar lagfæringar hafa síðan verið gerðar á lax- og silungsveiðilögunum þá sé rétt að fella þau saman í eina heild og jafnframt að hefja heildarendurskoðun á lagabálkinum en ég óttast að ef menn ætla sér að taka það allt fyrir í einu lagi þá muni það dragast eins og hefur sýnt sig um þetta mál.
    Hæstv. forseti. Þó ræðutími sé takmarkaður þá er ugglaust hægt að hafa um það einhver fleiri orð hvernig á því hafi staðið að það dróst fram til þessa tíma að leggja frv. fram. Það er stundum svo þegar menn eru að fjálla um flókin mál og önnur aðkallandi verkefni eru til staðar þá vill það dragast að komast að niðurstöðu. En efnið er hv. þm. kunnugt í öllum aðalatriðum. Það er ekkert annað en undansláttur ef menn vilja halda því fram að þeir hafi ekki tóm eða næði til að setja sig inn í málið.
    Um það atriði að ríkið hætti að leggja fram fjármagn til þess að hafa eftirlit með veiðum er það eitt að segja að það hefur verið mjög mismunandi og á mjög fáum stöðum, mjög fáum ám, sem ríkið hefur komið inn í kostnað við veiðieftirlit. Það hefur heyrt til hreinna undantekninga og er auðvitað eðlilegra að veiðiréttarhafar sjálfir hafi þessa gæslu á hendi. Þeir geta gert það fyrir minni fjármuni. Oft taka þeir eftir því tilsýndar ef einhver óeðlilegur umgangur er um árnar þar sem svo háttar til og á öðrum stöðum getur það farið saman að vera veiðiverðir og leiðsögumenn og hver gætir annars. Ég tel því rétt að mismuna ekki í þessu efni.
    Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að reyna að auka eftirlit með veiði í sjó. Orri Vigfússon hefur unnið þrekvirki í þeim málum eins og hv. þm. er kunnugt. Það voru að koma gleðifregnir nú, t.d. frá Skotlandi, um að þar væri miklu meiri veiði en áður sem auðvitað er bein afleiðing af friðun laxastofnsins í hafinu sem við verðum að halda og standa vel vörð um.
    Hv. 3. þm. Vestf., Guðjón Kristjánsson, lýsti yfir andstöðu sinni við það ákvæði að ef menn fái lax í sjó í veiðitæki þá skuli þeir sleppa honum aftur lifandi eða dauðum. Það er auðvitað eðlilegt sjónarmið fiskveiðimannsins að hann geti nýtt þann fisk sem inn kemur en eins og hann sagði er þessu ákvæði ætlað að reyna að stemma stigu við því að óheimilli laxveiði sé haldið áfram í sjó. Það hefur verið töluvert mikið um hana á sumum stöðum og hægt að sýna fram á það annars staðar að veiðiháttum sé beinlínis breytt eftir að laxinn fer að ganga þar sem mikið er um hann. Það er því augljóslega rétt að ýmsir hafa af því drjúgar tekjur að veiða lax í sjó með ólögmætum hætti og þessu ákvæði er ætlað að sporna við því.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði um hvort til stæði að flytja Veiðimálastofnun út á land, nánar tiltekið til Akureyrar. Það er í athugun nú hvort hægt sé að koma við samvinnu við sjávarútvegsdeildina við háskólann þar. Við höfum athugað að ráða sérfræðing frá Veiðimálastofnun til Akureyrar af þeim sökum en á hinn bóginn er ekki í athugun að flytja Veiðimálastofnun norður.
    Ég álít að það sé orðið mjög aðkallandi og raunar brýnt að endurskoða bæði landbúnaðarnámið í heild sinni, verkaskiptingu, hvernig staðið er að rannsóknastarfsemi og þar fram eftir götunum. Slík starfsemi þarf stöðugt að vera í endurskoðun, hvernig að henni er staðið til að hún dragist ekki aftur úr og þetta sérstaka atriði kemur þá til athugunar í því sambandi.
    Ég hygg, hæstv. forseti, að það sé ekki meira um þetta að segja. Ég mælist vinsamlega til þess við landbn. að hún afgreiði þetta frv. a.m.k. þá kafla þess sem ( JGS: Komist yfir að lesa það.) þingmönnum eru kunnir af því að þeir kaflar voru lagðir fram í frv. á sl. ári og er ekki ofverk manna að rifja upp.
    Á hinn bóginn má vera, eins og ég sagði áðan, að viðbótarkaflinn, sem fjallar m.a. um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn sé það flókinn að hv. þm. geti ekki sett sig inn í hann á þessum skamma tíma, hv. þm. Eyfirðinga Jóhannes Geir. Það getur vel verið að formaður landbn. reyni með einhverjum hætti þá að aðstoða hann og leiðbeina honum. ( Gripið fram í: Minnsta kosti við nefndarálitið.) En aðalatriðið er auðvitað að þessi vinna sé málefnaleg og rétt því það eru mikil verðmæti í húfi.