Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 19:12:36 (5613)


[19:12]
     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst hér var endað á því að ræða um greiðsluaðlögunarformið, þá vil ég byrja á því. Ég er mjög ánægður með það að hæstv. ráðherra skuli telja þetta vænlegan kost og vel þess virði að eyða tíma í að skoða þennan möguleika og það sé á döfinni að það komi fram skýrsla um þetta efni í næsta mánuði. Það tel ég mjög til bóta og sýna það að menn vilji skoða þetta í fullri alvöru. Það kemur mjög á óvart eftir yfirlýsingar fulltrúa ráðuneytisins á fundi nefndarinnar 1. mars því að það var ekki hægt að skilja þær yfirlýsingar öðruvísi en svo að menn væru að leggja þetta mál til hliðar. Ég verð að segja að ég undrast það að hæstv. ráðherra skuli fyrst núna seinni hlutann í marsmánuði 1994 upplýsa að nefnd sé að vinna að þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að ráðherrann lýsti því yfir í blaðaviðtali 30. ágúst á síðasta ári, fyrir hálfu ári, að það væri verið að skoða þessi mál milli dómsmrn. og félmrn. Og ég spyr: Er ekkert komið meira af þessari skoðun annað en nefnd komi til sögunnar? Og 1. mars, fyrir nokkrum

vikum, leit málið þannig út að þetta væri ekki vænlegur kostur. Ég held að hæstv. ráðherra verði þá að gera frekari grein fyrir þessu máli fyrst hún á annað borð dró þetta hér upp. En ég dreg ekkert úr því að ég fagna því ef satt er að nefnd er að komast á lokastig með að skila skýrslu um efnið og er vonandi að það verði jákvætt.
    Þá vil ég taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu varðandi þessa vinnuaðferð ráðherra sem er að færast í vöxt, einkum og sér í lagi ráðherra Alþfl., að biðja þingnefndir að flytja fyrir þá breytingartillögur við frumvörp. Ég velti þessu auðvitað fyrir mér að það væri ekki eðlilegur hlutur að eftir að stjfrv. er komið fram, þá skuli koma fram tvö bréf frá hæstv. félmrh. þar sem nefndin er beðin um að flytja gersamlega nýjar tillögur við málið sem eru samanlagt það stórar í sniðum að þær eru stærri hluti málsins heldur en sjálft frv. fjallar um. Það kemur líka á óvart eftir yfirlýsingar ráðherrans í byrjun febrúar, fyrir ekki nema rúmum mánuði síðan, að 1. og 2. febr. mátti sjá og heyra í fjölmiðlum að það væri verið að vinna að stjfrv. um þetta efni, um greiðslufrestun. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar er þetta stjfrv.? Er þetta stjfrv. bréfið sem ráðherrann sendi félmn.? Náðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki saman um stjfrv. í þessu efni? Er það það sem er vandinn í málinu eftir yfirlýsingarnar í fjölmiðlum sem ég er með afrit af, stórkostlega réttarbót fyrir fólk, að þetta frv. er ekki enn komið fram sem ráðherrann boðaði 1. febr. í fjölmiðlum? Er ástæðan sú að stjórnarflokkarnir hafi ekki náð samkomulagi um að þetta frv. verði flutt? Það er bara í umfjöllun um þetta mál og viðtölum við ráðherrann 1. og 2. febr. sem fram kemur skilgreining enn frekari en menn hafa nú þegar í skjölum um hvað þetta þýðir og hvað það er stórt mál fjárhagslega séð. En það segir hér t.d. í sjónvarpinu 1. febr. um þetta mál, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu vegna þessara ráðstafana og mun frysting lána ef af verður draga úr útlánagetu Húsnæðisstofnunar. Áhrifin verða þó ekki stórkostleg. Talið er að frysting 100 lána þýði um 18 millj. kr. minni tekjur fyrir Húsnæðisstofnun.``
    Þetta er nú rökstuðningurinn. Ég sé ekki annað en hann sé samhljóða því mati sem ég dreg upp í mínu minnihlutanefndaráliti og þeim skjöl sem með því fylgja þannig að það kemur mér á óvart ef ráðherrann vill ekki kannast við þennan skilning á málinu og mat mitt á því.
    Þá vil ég segja í framhaldi af þeim ummælum ráðherrans í ræðu sinni hér áðan þar sem hún fjallaði um álit lögfræðinga Húsnæðisstofnunar sem komast að þeirri niðurstöðu að stofnunin hafi almenna heimild, innan vissra marka þó, en almenna heimild til að skuldbreyta lánum í Byggingarsjóði ríkisins, húsbréfadeild, með skilmálabreytingu og ég rakti í minni ræðu. En ráðherra sagði um þetta ákvæði að þetta væri öfugur skilningur hjá mér um þetta því að menn hefðu notað þennan skilning til að gefa út reglugerðina frá 1993 um þennan nýja lánaflokk. Ég verð nú að leiðrétta ráðherrann með þetta og ég hafði ekki hugsað mér að taka til umfjöllunar þessa merkilegu reglugerð nr. 414/1993 en fyrst ráðherrann bregst svona við þá held ég að rétt sé að draga það fram.
    Staðreyndin er sú að ef menn lesa lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins þá er það húsnæðismálastjórn sem leggur til að stofna nýja lánaflokka. Síðan fær það staðfestingu ríkisstjórnar. Og þegar það hefur gerst eins og í þessu tilviki að húsnæðismálastjórn lagði til að það yrði stofnaður nýr lánaflokkur við Byggingarsjóð ríkisins þá fer um lánskjör og skilmála eftir ákvæðum í lögunum. Reglugerðin sem slík hefur ekkert gildi. Hún er fullkomlega óþörf en hún þjónaði einhverjum markmiðum ráðherrans sem ég held að eigi að vera skilgreind sem pólitísk markmið að gefa hana út en hún hefur ekkert gildi og var engin þörf á henni. Það var hægt að gera allt og var allt gert sem til þurfti eftir ákvæðum laganna sem ég hef rakið. Ég vænti þess að ráðherrann fari nú ekki að halda því fram og blanda saman ákvæðum laganna hvernig staðið er að því að stofna nýja lánaflokka og svo þessu áliti lögfræðinganna um almenna heimild til að fresta greiðslum af lánum í Byggingarsjóð ríkisins og við húsbréfadeild. Ég vil miklu frekar skora á ráðherrann að kynna sér þetta álit lögfræðinganna og í framhaldi af því að ræða við Húsnæðisstofnun um hvort ráðuneytið og stofnunin sé ekki sammála um þetta atriði því ef svo er, ef þessir aðilar eru sammála um þetta atriði, þá getum við gert svo mikið án þess að þurfa að fara með málið gegnum þingið fyrst og fá lagalegar heimildir til þess að skuldbreyta þar sem nauðsyn ber til. En eins og þetta mál ber með sér, þá er greinilega afar þungt að koma í gegnum stjórnarflokkanna heimildum til að fresta greiðslum af lánum manna og það mundi létta af mörgum og þar á meðal ráðherranum miklum áhyggjum ef menn gætu gert þetta með almennum reglum sem ráðherrann síðan staðfesti og ég vil einmitt skora á ráðherrann að taka þetta til vandlegrar athugunar.
    Ég vil fagna yfirlýsingu ráðherrans í ræðu hennar að því er varðar vörslu á fjármunum byggingarsjóðanna að þar sé átt við innan lands og um meðferð á 3. og 4. gr. frv. varðandi lán til lögbýla. Hins vegar heyrði ég ekki að ráðherrann svaraði hugmyndum mínum um breytingar á ákvæðinu um skyldusparnað, um rýmkun sem ég tel að nauðsynlegt verði að gera umfram það sem frv. gerir ráð fyrir og varpaði hér fram hugmynd og bað menn að hugleiða hana og ég vonast til að ráðherrann segi sitt álit á því.
    Þá tók ég líka eftir því að ráðherrann fjallaði ekkert um fjárhagslega stöðu stofnunarinnar en hún er ekki góð um þessar mundir eins og ég rakti, einkum og sér í lagi vegna þess að lánsfjáröflunin gengur ekki eins og til er ætlast. Og ríkisstjórnin verður að láta það mál til sín taka og ég spyr enn: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til þess að lánsfjáröflun stofnunarinnar geti gengið eftir?
    Virðulegi forseti. Þá hygg ég að ég hafi svarað því sem mér fannst ástæða til að ítreka í framhaldi af ræðu ráðherrans hér fyrr en í ljósi þess að ég er með nýrri tölur en fram koma í nefndaráliti meiri

hlutans um afgreiðslu og innkomnar umsóknir vegna greiðsluerfiðleika, þá mun ég ítreka þær að miðað við stöðuna 17. mars sl. höfðu komið inn 420 umsóknir. Þar af var búið að afgreiða 208 og þær voru afgreiddar þannig að 111 voru samþykktar en 79 hafði verið synjað. Af þeim 111 sem höfðu verið samþykktar voru 9 þar sem menn höfðu nýtt þær heimildir í Byggingarsjóði verkamanna að fresta greiðslum í tvö eða þrjú ár þannig að það gefur okkur vísbendingu um það hvernig menn meta hitt ákvæðið sem lagt er til að taka upp núna varðandi Byggingarsjóð ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja frekar þessa umræðu. Það eru komin til skila þau sjónarmið sem ég hef viljað halda til haga en ítreka að menn verða að gera miklu betur en er í þessum breytingartillögum við stjfrv. varðandi greiðsluvanda þeirra fjölmörgu sem eru í vanskilum við stofnunina um þessar mundir og fer fjölgandi að mínu viti m.a. og einkum vegna vaxandi atvinnuleysis. En það er rétt að minna ráðherrann á það að einn þátturinn í þessum vanda er aðgerðir ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun á síðasta ári að hækka vexti í Byggingarsjóði verkamanna úr 1% í 2,4% og það hefur ekki gefist betur en svo að ári seinna kemur ríkisstjórnin og biður Alþingi um að samþykkja heimild til að fresta greiðslum af því að fólk geti ekki staðið undir þessu.