Ljósleiðarar

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:29:11 (5669)


[15:29]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Merki Ríkisútvarpsins er í dag flutt eftir ljósleiðara frá Egilsstöðum suður um firði á Reyðarfjörð, Eskifjörð, Neskaupstað, Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík og Djúpavog. Ríkisútvarpinu stendur til boða að leigja hjá Pósti og síma flutning á merki sínu eftir ljósleiðara alveg frá Reykjavík um Akureyri til Egilsstaða á mjög hagstæðum kjörum eða þeim sömu og Stöð 2 nýtur.
    Póstur og sími hefur byggt upp fyrir Ríkisútvarpið flutningskerfi á örbylgjuleiðum sem nú eru orðnar það úr sér gengnar vegna aldurs að nauðsynlegt er að skipta þeim út. Ríkisútvarpið hefur í langan tíma verið að bera saman þá valkosti að byggja upp stafrænt örbylgjukerfi eða leigja sambönd í ljósleiðurum Pósts og síma. Þeir hafa ekki komist að niðurstöðu enn, en Póstur og sími er tilbúinn að tengja merki Ríkisútvarpsins inn á þessar leiðir á innan við þrem mánuðum ef óskað er eftir.