Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:23:03 (5900)


[11:23]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil eins og aðrir fagna því að loksins sé komið fram frv. sem, ef að lögum verður, heimilar að leggja undirboðs- og jöfnunartolla á þjónustu eins og hæstv. ráðherra hefur gert ráð fyrir. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að mér þykir hálfsérkennilegt að ræða þessi mál, bæði fyrsta málið, þetta mál og fleiri mál sem eru hér á dagskránni sem ætlunin er að vísa til efh.- og viðskn. án þess að efh.- og viðskn. sé hér stödd því að eins og fram kom er meiri hlutinn af nefndinni með fjarvistarleyfi og ekki hér til staðar og mér finnst það mjög slæmt. En það breytir ekki því að ég ætla að segja hér nokkur orð og vonast til að það komist þá til efh.- og viðskn. auk þess sem ég á sæti í iðnn. og vonast til þess að við fáum þetta frv. til skoðunar einnig þangað.

    Það kom mér á óvart að heyra það frá hæstv. ráðherra að Ísland væri fyrsta landið sem nýtti sér þær heimildir eða ætlaði sér að nýta sér heimildir að því er varðaði undirboðs- og jöfnunartolla á þjónustuviðskipti, eftir því sem ég skildi hann best, vegna þess að ég man ekki betur en samtök iðnaðarins hafi verið að ræða um að slík ákvæði væru í lögum annarra landa. Það má vel vera að það sé einhver misskilningur af minni hálfu, en það er hins vegar ljóst að samtök iðnaðarins hafa talið að Íslendingar hafi ekki nýtt sér með sama hætti og aðrir möguleika til þess að setja á jöfnunar- og undirboðstolla og það má vel vera að það sé einhver misskilningur af minni hálfu að þetta sé ekki til annars staðar. En það er fagnaðarefni að þetta mál er nú komið fram.
    Því miður er þetta mjög seint fram komið. Eins og hér hefur komið fram er búið að tala um þetta mál í fjölda ára. Ég get ekki einu sinni talið hversu lengi en svo lengi sem ég man eftir mér hér höfum verið að ræða um einmitt þetta atriði, ekki síst að því er varðar skipasmíðaiðnaðinn. Hann hefur farið mjög illa út úr undirboðum erlendis frá og ríkisstyrkjum og hefur þurft að heyja harða baráttu og hefur því miður farið mjög illa út úr því. Það gildir að vísu líka um annan iðnað að hann er nánast að líða undir lok hér á landi, að mínu mati vegna rangrar stefnu stjórnvalda. Við höfum haft hér iðnrh. í mörg ár, reyndar ekki lengur en hér á árum áður, sem mátti ekki heyra nokkurn tíma talað um að setja nokkuð sem héti jöfnunar- eða undirboðstollar eða nokkuð annað það sem styrkt gæti íslenskan iðnað þó að það væri ekki annað en sambærilegt við það sem gerist í nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Iðnn. hefur í allan vetur verið að fjalla um mál skipasmíðaiðnaðarins og m.a. verið að ýta á um að mál eins og þetta kæmi fram, reyndar ásamt öðrum aðgerðum. Sumar aðgerðirnar hefur þegar verið tekið til við varðandi skipasmíðaiðnaðinn, komnar í gagnið en þetta á eftir að taka til skoðunar hér á Alþingi og vil ég eins og aðrir vonast til þess að við getum afgreitt þetta frv. núna fyrir þinglok fljótt og vel og það sé ekki orðið of seint að því er varðar skipasmíðaiðnaðinn, því að það óttast ég. En það er vonandi betra seint en ekki.
    Ég vil segja það eins og raunar aðrir hér að það er mjög mikilvægt að þessar heimildir séu notaðar, það sé tekið strax til við að nota þær. Í c-lið 1. gr. er talað um ákveðna nefnd sem eigi að rannsaka kærur um innflutning eins og þar segir og lýsti ráðherra hér fyrir okkur þeim hugmyndum sem í gangi eru að reglugerðardrögum sem hann kynnti hér sem ég vil lýsa yfir að sé gott að fá að heyra af hálfu ráðherrans. Ég hef það reyndar ekki hér undir höndum eins og hv. 9. þm. Reykv. en væntanlega gefst okkur í iðnn. tækifæri til að skoða þau drög. En það virkaði þannig á mig einnig að það væri nokkuð flókið ferli sem þarna væri lýst. Bæði finnst mér skipta mjög miklu máli hvernig þessi nefnd lítur á hlutverk sitt. Ef nefndin lítur á hlutverk sitt að hún eigi að reyna að koma sem mest í veg fyrir að settir séu undirboðs- og jöfnunartollar, þá er það ekki nógu gott. En það getur vel verið að nefndin líti á það sem sitt meginhlutverk að reyna að jafna stöðu íslensks iðnaðar sem ég vænti að sé tilgangurinn með þessu öllu og þá er auðvitað mjög mikilvægt að hún vinni hratt og vel og það verði ekki allt of flókið kerfi sem sett er í gang. Ég tel eðlilegt að það verði farið aðeins yfir það ferli og reynt að koma í veg fyrir að það verði til þess að nefndin geti ekki unnið hratt því að það er mjög nauðsynlegt.
    Ég tel alveg útilokað að utanrrn. hafi þarna raunverulegan rétt til að segja af eða á um það hvort undirboðs- og jöfnunartolla eigi að setja á eða ekki. Ég tel að það eigi að vera þessi nefnd sem eigi að rannsaka þetta. Það er hennar hlutverk að rannsaka kærur og það á að vera hennar mat hvort þarna er um að ræða að við förum eftir þeim samningum sem við erum aðilar að. Það er auðvitað grundvallaratriði og það ætla sér allir að gera, að fara að alþjóðasamningum. Utanrrn. verður þá að hafa sjálfstætt eftirlit með því og kvarta ef þeir telja að farið sé yfir þau mörk eða þær skyldur sem alþjóðasamningar leggja á okkur, en ég tel ekki hægt að þetta sé gert eins og mér virtist vera gert ráð fyrir í þeim reglugerðardrögum sem ráðherra hér las.
    Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi að ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Ég reikna með að við fáum að skoða þetta í iðnn. Það er kannski helst að ég gagnrýni það að mér finnst frv. ekki nógu afgerandi, það þurfi að koma fram í því ákveðnari vilji af hálfu Alþingis að þarna sé fast á málum tekið. Það getur vel verið að það sé ekki nauðsynlegt, en þetta þarf að kanna í nefnd. En ég vil stuðla að því að þetta mál fái hraða málsmeðferð hér í gegnum þingið.