Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:50:03 (5905)


[11:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég held að menn séu dálítið hér á villislóð vegna þess að það sem verið er að tala um er eingöngu hvort milliríkjasamningar leyfi undirboðs- og jöfnunartolla. Það er ekki verið að tala um túlkun á öllum samningunum í þessu tilviki, það er verið að tala á mjög þröngu sviði. Ég held að það sé vel þess virði og það sé kannski forsenda þess að okkur takist að leysa úr þessu flókna viðfangsefni að öll ráðuneyti séu sammála um það hvernig við leysum þetta mál. Það er ekki nóg að það sé fjmrn. sem hefur formlega valdið, það verður að vera utanrrn., sem fer með samningana, það verður að vera iðnrn., sem fer með hagsmuni iðnaðarins, og það verða að vera önnur þau ráðuneyti sem að þessu máli eiga að koma. Þetta legg ég áherslu á.
    Ég undirstrika það enn og aftur að utanrrn. er auðvitað hagsmunagæsluaðili Íslands og það eru hagsmunir Íslands, við megum aldrei gleyma því, að farið sé að reglum og samningum. Ísland sem er smáríki er einmitt ríki sem þolir það verst ef brotnar eru reglur og brotnir eru samningar því að Ísland á allt sitt undir því að þjóðir virði milliríkjasamninga, þar á meðal viðskiptasamninga. Þess vegna er það mikilvægt að mínu áliti að utanrrn. komi að þessu máli og ég bendi á að hér er einungis verið að fjalla um örlítinn þátt málsins. Það er ekki verið að tala um túlkun á einhverjum heildarsamningum, við erum að tala um þá þætti sem snúa eingöngu að jöfnunartollum annars vegar og hins vegar að undirboðstollum. Ég vil taka það fram að þegar um undirboðstolla er að ræða á Evrópska efnahagssvæðinu þá er það ekki þessi nefnd sem hér er til umræðu sem fjallar um málið, heldur samkeppnisnefnd sem er íslenskur aðili.