Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:41:16 (5941)


[15:41]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er, eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Austurl., þannig að umræðan um réttarstöðu launafólks í landinu hefur ekki beinst að því sérstaklega að styrkja réttarstöðu launafólks í seinni tíð. Það var vel til fundið hjá þingmanninum að minnast á þennan ótrúlega grátkór sem upphófst í sjónvarpinu eitt kvöldið þar sem þeir grenjuðu hver ofan í annan, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins og Pétur Blöndal, sem er yfirverðbréfastjóri Íslands að mér hefur skilist, og þessir menn fengu mótmælalaust að leggja undir sig og sínar hugsjónir heilan sjónvarpsþátt þar sem þeir kvörtuðu aðallega yfir því hvað þjóðin hefði yfirleitt verið vond við atvinnurekendur og gróðamenn og m.a. hefðu rithöfundar ekki sýnt atvinnurekendum og þeim sem græða í þjóðfélaginu neina virðingu. T.d. hefði sú mynd sem upp var dregin af Búa Árland ekki verið sérstaklega hagstæð fyrir þróun atvinnurekstrar í landinu. Grátkórinn er á þessa hlið. Og svo heldur eitthvert Alþýðuflokksfélag hér í Reykjavík fund þar sem einn af hugmyndafræðingum Alþfl. heldur því fram að það sé nauðsynlegt að koma vinnuaflinu á uppboð þannig að lágmarkslaunin verði sveigjanlegri, þau geti lækkað þegar þannig stendur á fyrir blessuðum atvinnurekstrinum.
    Og svo þegar hæstv. félmrh. kemur hér með frv. inn í þingið er það þá komið frá félmrh.? Er þetta eitthvert frv. sem félmrh. hefur verið að velta fyrir sér í langan tíma? Er þetta eitthvert frv. sem Alþfl. hefur beitt sér fyrir lengi? Eða er þetta eitthvert frv. sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur gert samþykktir um ótal sinnum og sett fram í kröfum sínum 1. maí ár hvert? Ónei, ekki. Það eru aðrir sem hafa frumkvæðið. Það eru aðrir sem ráða og móta stefnuna í raun og veru og senda félmrh. ríkisstjórnar Íslands hingað upp í ræðustólinn með þetta frv. eins og það lítur út. Því að þetta frv. er nefnilega ekki flutt í framhaldi af samþykktum Alþfl. heldur í framhaldi af ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar um Evrópska efnahagssvæðið um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. ( HG: Hann er nú kominn frá Alþfl.) Nei. Hann er ekki kominn frá Alþfl. en Alþfl. samþykkti hann og beitti sér fyrir því að Alþingi Íslendinga meðtók þau ósköp.
    Síðan segir hér: Þetta mál er búið að fá mikla meðferð á þessum evrópska vettvangi, mjög verulega meðferð. Fyrst gerist það þannig að sameiginlega EES-nefndin ákveður m.a. á fundi sínum 21. mars 1994 að tilskipun ráðsins 92/56/EBE frá 24. júní 1992, um breytingu á tilskipun 75/129/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir, skuli bætast við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði með tilteknum ákvæðum sem hér er verið að taka inn. Hinar evrópsku silkihúfur, samráðsnefndirnar, tilskipanirnar og allt þetta eru þannig búnar að fara yfir þetta út og suður og að lokum kemur hæstv. félmrh. úr ríkisstjórn Íslands og gegnir auðvitað vegna þess að það er búið að ákveða það að Íslendingar hlíti þessum ákvörðunum.
    Þetta frv. er því enn ein staðfesting á því að tillögur um breytingar á íslenskri löggjöf eiga ekki uppruna sinn hjá íslenskum ráðherrum, íslenskum stjórnmálamönnum og íslenskum almenningi heldur í embættismannakerfi Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Það er þetta sem verið er að innleiða á Alþingi Íslendinga. ( Gripið fram í: Alþjóðasamband jafnaðarmanna.) Alþjóðasamband jafnaðarmanna, auðvitað er það svo, hæstv. forseti.
    Á undanförnum árum og áratugum hefur það verið þannig að þingmenn hafa kannski sett sig með misjöfnum hætti inn í mál eins og gengur. Þó hygg ég að það hafi verið þannig að flestir þingmenn hafi reynt að setja sig í grófum dráttum inn í það sem hefur verið að gerast og hefur verið borið á borð þingmanna. Síðan hefur það komið í ljós hægt og bítandi, m.a. fyrir þá sem hafa verið hér í lengri tíma, að það hefur verið erfitt að setja sig inn í öll mál þannig að það hefur átt sér stað tiltekin verkaskipting, t.d. innan flokkanna þar sem einstakir þingmenn úr flokkunum hafa tekið að sér þessi mál og aðrir hin málin. Núna er hins vegar komið svo, hæstv. forseti, að það liggja hér á borðunum haugar sem er vitað að enginn þingmaður, núll, ekki einu sinni hv. 4. þm. Austurl. sem les betur pappír en allir aðrir menn, munu setja sig inn í í smáatriðum eða geta sett sig inn í í smáatriðum (Gripið fram í.) hvað svo sem hann kann að segja í frammíkalli. Þannig liggur það mál, hæstv. forseti, og það er þvílík lítilsvirðing við Alþingi Íslendinga sem birtist í þessum haugum sem eru hér á borðunum og þessum málflutningi öllum eins og hann hér kemur fram, að það er alveg með ólíkindum. Auðvitað má kannski segja að ýmsir þingmenn hafi séð þetta fyrir og varað við þessu á sínum tíma en nú er þessi veruleiki að birtast okkur sem aldrei fyrr í þeim 10 kg af pappír sem búið er að bera á borð hvers einasta þingmanns í dag. ( Gripið fram í: Hefur þingmaðurinn vigtað þetta?) Þingmaðurinn hefur kynnt sér þetta mál sérstaklega.
    Nú liggur hér fyrir þetta frv. frá hæstv. félmrh. sem gerir ráð fyrir tilteknum breytingum á lögunum um hópuppsagnir. Og þær tillögur eru gerðar að frumkvæði þeirra í Evrópubandalaginu, Evrópukerfinu. Það er svo bersýnilegt að frumvarpsákvæðin eru þýdd, textinn er svo fjarska óíslenskulegur að tekur engu tali. Þess vegna er það fyrsta atriðið sem ætti að gera kröfu um að það sé reynt að koma þessum textum á íslenskt mál á venjulegan hátt.

    Ég nefni, hæstv. forseti, t.d. 2. gr. þar sem talað er um að það eigi að draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða. Ég gæti lesið upp úr þessari grein margar setningar sem eru alveg með ólíkindum og sýnt að þetta er þýtt. Það er verið að snara þessu úr erlendum málum. Menn hafa ekki einu sinni svo mikið við að fá sæmilegt fólk sem er þjálfað til þess sérstaklega að fara höndum um texta og koma þeim yfir á íslenskt mál, að ég best fæ séð.
    Síðan eru líka í þessu ákvæði sem eru líka fullkomin endileysa í íslensku samhengi og sérstaklega hjá þessari ríkisstjórn sem er öll í því að brjóta niður félagsleg réttindi launafólks. Hér stendur t.d. í greinargerðinni eins og það er orðað, með leyfi forseta:
    ,,Tekið er fram að beita skuli félagslegum aðgerðum til að draga úr afleiðingum hópuppsagna sem hafa m.a. að markmiði að auðvelda tilfærslur eða endurhæfingu starfsmanna sem sagt hefur verið upp.``
    Það er alveg ljóst að á hinu Evrópska efnahagssvæði er það þannig í ýmsum löndum, t.d. í Þýskalandi, Svíþjóð og víðar, að þar eru til þær félagslegu aðgerðir sem á að grípa til þegar um er að ræða verulegar hópuppsagnir. Það eru alveg tiltekin lagaleg ferli sem þar er gert ráð fyrir í lögum. En þegar búið er að þýða þetta á íslensku og flytja um það lagafrv. og horfast jafnframt í augu við þann veruleika að það eru engar slíkar félagslegar aðgerðir í gangi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að draga úr afleiðingum hópuppsagna sem hafi m.a. að markmiði auðvelda tilfærslur eða endurhæfingu starfsmanna sem hefur verið sagt upp. Er eitthvað svona í gangi? Er eitthvað svona í gangi með skipulögðum hætti? Það var breytt verulega í fyrra, m.a. að okkar frumkvæði, lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem átti að tryggja það að fólk gæti fengið námskeið í staðinn fyrir bótalausa tímann. Niðurstaðan er hins vegar sú að það hefur verið verulegur misbrestur á því. Hæstv. félmrh. gerði í framsöguræðu sinni enga grein fyrir því hvaða aðgerðir hér eru uppi til að draga úr afleiðingum hópuppsagna. Enda er ekki um neitt slíkt að ræða, hæstv. forseti. Af því hérna er verið að þýða upp úr löggjöf milljónatuga þjóðfélaganna ákvæði úr tilskipunum sem hafa orðið til við allt annan veruleika en þann sem birtist okkur hér í þessu harðbýla landi þar sem enn þá er snjór. Það er auðvitað dapurlegt fyrir Alþingi Íslendinga að láta bjóða sér afgreiðslur af þessu tagi.
    Mér sýnist að það sem kallað er samráðsnefnd félmrn. hafi fjallað um þetta mál. Í henni eru fulltrúar frá verkalýðssamtökunum og þeir telja sjálfsagt að það sé ekkert annað að gera heldur en að taka við þessu og telja jafnvel að þetta sé til bóta af því að hér er verið að takmarka og tiltaka með öðrum hætti en verið hefur hópuppsagnirnar sem slíkar. En allt um það er þetta fyrst og fremst undirstrikun á því þegar búið er að bera hér inn í salina svona hálft tonn af pappír á einum degi frá þessu kompaníi, að þegar við gerðumst aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði vorum við að taka ákvarðanir um að frumkvæði að löggjöf væri annars staðar, ákvarðanir um uppsetningu mála og nálgun mála sem er með allt, allt öðrum hætti en við erum vön og öðrum hætti en við ráðum við í þessari stofnun, það verður að segja það eins og það er. Vegna þess að það er alveg fullvíst að menn munu ekki plægja í gegnum þessa hauga sem skyldi. Og það er dapurlegt þegar félmrh. Alþfl. er neyddur til að bera inn mál af þessu tagi sem er orðið til við allt annan pólitískan veruleika en ráðherrann þekkir og ráðherrann á rætur sínar í.