Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:39:08 (6231)


[14:39]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem hefur komið fram í þessari umræðu fram að þessu. Ég vil samt nota þetta tækifæri til að leggja á það áherslu að hér erum við að setja löggjöf um mikilvæga þjónustu sem starfar í afar viðkvæmu umhverfi og þess vegna er nauðsynlegt að þar séu skýrar reglur um alla hluti.
    Við erum hér að ræða um stétt manna sem verður ekki kölluð hátekjustétt. Þeir sem ná þokkalegum tekjum út úr leigubílaakstri gera það með mikilli og slítandi vinnu og þess vegna tel ég að það sé skylda Alþingis að ganga þannig frá þessari löggjöf að við verndum eftir því sem við getum starfsumhverfi þeirra sem hafa þessa þjónustu að sinni aðalatvinnu.
    Það hefur m.a. verið nokkuð rætt hér um aldurstakmörkin og það frv. sem hv. þm. Björn Bjarnason og fleiri hafa lagt fram. Þar er að sjálfsögðu um að ræða umdeilanlegt atriði, en ég vil þó leggja áherslu á það hér að þetta ákvæði var ekki sett inn í lög fyrir neina tilviljun og það er engin tilviljun að þetta er eingöngu í lögum um leigubílstjóra en ekki til að mynda varðandi þá sem stunda sérleyfisakstur eða vöruflutninga. Við sem í það minnsta þekkjum eitthvað til varðandi þá starfsemi vitum að hana stunda engir aðrir en þeir sem eru á besta aldri og við hestaheilsu. Eðli þeirrar vinnu er einfaldlega þannig að það eru ekki líkur á því að hún sé stunduð, þ.e. vörubíla- og rútuakstur, af aðilum sem eru komnir á eftirlaunaaldur. Þannig að ég ítreka það að á sínum tíma voru fyrir því full rök að þetta ákvæði var sett inn í lög.
    Starfsumhverfi þeirra sem stunda leigubílaakstur hefur á margan hátt verið óhagstætt á síðustu árum og ég vil m.a. nefna það að um nokkurt árabil hafa leigubílstjórar búið við það að þurfa að greiða hæstu aðflutningsgjöld af sínum atvinnutækjum. Þetta var hins vegar tekið upp varðandi lagabreytingu fyrir rúmu ári í efh.- og viðskn. og þar náðist um það samstaða að leigubílar gætu notið sömu tollakjara og þeir sem keyptu stærri bíla í atvinnuskyni, þ.e. 30% toll, og það var sett þar inn sem undanþáguákvæði. Eftir að við í efh.- og viðskn. höfðum rætt þetta ítrekað við fjmrn., þá náðist samstaða um að gera þessa breytingu.
    Því miður er það hins vegar svo að framkvæmdin af hálfu fjmrn. hefur ekki verið eins og við höfðum ætlast til sem stóðum að þessari lagabreytingu í nefndinni og þau skilyrði sem þar eru sett til þess að menn geti endurnýjað sína bíla á 30% tolli eru það ströng að það er ekki nema lítill hluti leigubifreiðastjóra sem nær að komast í gegnum það nálarauga. Það eru sett það há tekjumörk sem þeir þurfa að hafa til þess að ná undir þessar reglur og það undirstrikar það sem ég sagði í upphafi máls míns að hér er ekki um starfsemi að ræða sem er þess eðlis að við getum talað um þá sem hana stunda sem hátekjumenn. Þetta hefur orðið til þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá leigubifreiðastjórum og samtökum þeirra þá eru ekki nema um það bil 20% leigubílstjóra sem geta nýtt sér þessa undanþágu varðandi tolla á nýja bíla. Og eins og ég sagði, tekjumörkin eru það há, auk þess sem það eru nettótekjur, þannig að ef menn verða fyrir einhverjum áföllum, vélarupptekt eða öðru slíku, þá eru menn um leið komnir út fyrir þá möguleika sem menn þarna hafa. Þó hafa einhverjir nýtt sér þessa möguleika og það er vel því að því miður höfum við horft á það hér og það staðfestir enn það sem ég sagði í upphafi míns máls varðandi tekjur bifreiðastjóra í dag, að bílaflotinn hefur verið að eldast ár frá ári, endurnýjun hefur ekki verið sem skyldi.
    Að lokum, virðulegur forseti, þar sem þeir þingmenn sem hér hafa talað áður hafa rætt um efnisatriði frumvarpanna, þá ræði ég frekar á almennum nótum um þessi mál. En að lokum ætla ég aðeins að koma að skattlagningu á bíla almennt því vissulega kemur það við leigubílstjóra eins og aðra. Ég hef nokkuð beitt mér hér í þinginu varðandi það atriði, bæði með fyrirspurnum til ráðherra og í umræðu um skattamál. Það er mín skoðun að skattlagning á bíla og framkvæmdin á þeirri skattlagningu sé komin út fyrir allt sem hægt er að sætta sig við. Þar vil ég sérstaklega nefna til kílóagjaldið sem eru að mínu mati engin rök fyrir hvernig er framkvæmt. Ég er ekki að segja það hér að það eigi ekki að leggja neinn skatt á bíla sem tengist bílaeigninni beint líkt og kílóagjaldið gerir. En eins og það er framkvæmt í dag þá brýtur það algerlega í bága við réttlætiskennd þeirra sem þurfa það að greiða, sem eru ansi stór hópur. En því miður ber það við í umræðunni enn þá og hefur m.a. gerst meðal ráðamanna hér að menn tala um bíleigendur sem mennina með breiðu bökin sem sé sjálfsagt að skattleggja umfram aðra. En ég hef fært að því rök hér að kílóagjaldið á bíla, eins og það er framkvæmt núna, sé í raun sérstakur skattur á lágtekjufólk.
    Sama má segja um þungaskattinn. Við erum orðin síðasta þjóðin í Evrópu sem ekki er komin með þungaskattinn á dísilbílana inn í olíuverðið og það leiðir aftur hugann að leigubílstjórum. Þetta hefur gert það að verkum að dísilbílar virðast vera að hverfa úr flota leigubílstjóra þó svo að þeir eðli málsins samkvæmt væru þeir bílnotendur sem öðrum fremur ættu að hafa hag af því að nota dísilbíla. Þetta er ekki síst bagalegt vegna þess að það hefur orðið afar mikil þróun í gerð dísilhreyfla á síðustu árum sem gerir það að verkum að þeir eru sem áður afar hagkvæmur kostur fyrir þá sem aka mikið ef skattlagning er í lagi.

Í öðru lagi er svo komið að nýjustu gerðir dísilhreyfla eru þær bílvélar sem menga minnst. Þess vegna væru full rök fyrir því, þó ekki væri annað, að leigubílstjórum sem mikið eru á ferðinni í þéttbýlustu hlutum borga og bæja væri gert kleift að aka á bílum með dísilvélum. En eins og ég sagði áður þá er skattlagningin þar --- ég hef ekki tíma til að rökstyðja það frekar hér --- en þá er skattlagning á dísilbílum hér á landi þannig að hér eru nánast ekki fluttir inn bílar með dísilvélum aðrir heldur en þá stórir og þungir.
    Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að sá dómur sem féll í Mannréttindadómstólnum gerir það að verkum að það þarf að breyta lögum og það snertir starfsumhverfi leigubílstjóra. En ég vil beina því til hv. nefndar að þar verði skoðað mjög gaumgæfilega á hvern hátt þessi breyting getur orðið, en það verði samt áfram hægt að halda utan um þessa starfsemi og það held ég að sé sameiginlegt hagsmunamál bæði þeirra sem aka leigubílum og í raun neytenda líka.