Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 17:06:45 (6527)

[17:06]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að hér er verið að leggja til að ákveðinn texti hafi lagagildi í framtíðinni. Nú er það svo að einstakar greinar í þessari stóru bók eru þess eðlis að ég teldi rétt að greiða um þær atkvæði sérstaklega. Sá er á gallinn að sé þetta flutt í þingsályktunarformi er það ekki hægt og þess vegna tel ég málið vanbúið til atkvæðagreiðslu á Alþingi í því formi sem það er og tel að það hljóti að verða að koma í lagatexta þannig að hægt sé að taka afstöðu til einstakra greina. Þess vegna greiði ég atkvæði gegn því að það haldi áfram lengra í því formi sem það er.