Lax- og silungsveiði

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 10:50:21 (6879)


[10:50]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Forsaga þessa máls er sú að það var flutt hér á síðasta þingi. Í landbn. var leitað umsagna um frv. en það hlaut ekki afgreiðslu á þinginu. Aftur á móti afgreiddi landbn. málið með þeim hætti að vísa því til landbrn. og þess óskað að við endurskoðun og endurtekin flutning málsins hér á þinginu yrði tekið tillit til þeirra umsagna sem borist höfðu. Málið er þess vegna flutt hér öðru sinni og þá að teknu tilliti til þeirra umsagna sem fyrir lágu fyrir einu ári síðan. Málið var svo lagt fram á þskj. 767. Eins og menn minnast væntanlega fór fram ítarleg umræða um málið þá og vísa ég til þeirrar umræðu að því er varðar efni frv., auk þess sem að sjálfsögðu var tekið tillit til þess við afgreiðslu málsins hvaða ábendingar komu þá fram. Nú hefur landbn. komist að sameiginlegri niðurstöðu þar sem hún leggur fram brtt. við frv. á þskj. 1017 og nál. er á þskj. 1016 og hafa allir landbúnaðarnefndarmenn undirritað það athugasemdalaust.
    Nál. skýrir brtt. nefndarinnar sem, eins og ég sagði, eru lagðar hér fram á þskj. 1017 og þykir mér ekki ástæða til að fara yfir þær að öðru leyti heldur en nál. gefur til kynna og ég vænti þess að það sé fullgild skýring á tillögum landbn.
    Mér finnst hins vegar vert að geta þess, virðulegur forseti, að í nefndinni fór fram víðtæk umræða um þetta mál. Það var haft samráð við ýmsa aðila, reyndar alla aðila sem hér eiga hlut að máli og ég fullyrði að niðurstaða í nefndinni og tillögflutningur er í samræmi við samkomulag þeirra sem þar hafa fjallað um.
    Mér þykir vert til frekari skýringar að geta þess hverjir það voru sem komu til viðræðna við nefndina eða lögðu fram umsagnir um málið.
    Þar ber fyrst að telja Jón Höskuldsson, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu, Árna Ísaksson veiðimálastjóra, frá félagi veiðiréttareigenda við sjó og vötn í Vestur-Húnavatnssýslu, Ólaf Þórhallsson, formann þess félags, Tryggva Eggertsson og Heimi Ágústsson og frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva Vigfús Jónasson og Júlíus Birgi Kristinsson. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands, Sókn, Hafrannsóknastofnun, Landssambandi veiðifélaga, veiðimálanefnd, veiðimálastjóra, fisksjúkdómanefnd, Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Stéttarsambandi bænda og Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar.
    Af þessari upptalningu má sjá að umræðan í landbn. um málið var býsna víðtæk og eins og kemur fram á þskj. 1017 hefur nefndin lagt fram allmargar tillögur til breytinga sem ég held að séu til bóta á frv. Ég met svo að víðtæk sátt sé um það, ekki einungis milli landbúnaðarnefndarmanna heldur líka annarra þeirra sem hér eiga hagsmuna að gæta.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta mál frekar en að lokinni þessari umræðu geri ég tillögu um að málinu verði vísað til 3. umr.