Lax- og silungsveiði

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:09:04 (6885)


[11:09]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Það er grundvallarmarkmið þessara laga og þessara breytinga að tryggja að þær leiðir sem lax velur sér í sínar ár verði ekki truflaðar. Ég vek t.d. athygli á 71. gr. þar sem segir: ,,Ráðherra er rétt, að fengnum meðmælum veiðimálastjóra, að ákveða friðunarsvæði í sjó framan við frárennsli fiskeldis- og hafbeitarstöðva`` sem nánar er vitnað í í sambandi við 7. og 8. mgr. 14. gr. Reyndar eru fleiri ákvæði í þessum lögum sem eiga að tryggja að ekki séu truflaðir venjulegir laxavegir til sinna heimkynna.
    Sérstaklega vil ég minna á í þessu sambandi, af því það mátti skilja orð hv. 3. þm. Vesturl. með þeim hætti að hér væri landbrh. veitt víðtækt vald, að í 67. gr., þar sem hún er takmarkandi fyrir ákvæði 67. gr., segir:     ,,Þrátt fyrir ákvæði 66. gr. skal ráðherra eftir tillögum veiðimálastjóra og með samþykki veiðimálanefndar setja reglur um töku á laxi, er kemur úr sjó í hafbeitarstöð, og um merkingar og sýnatöku úr fiskum.``
    Þannig að það er nú ekki eins og það sé bara ráðherrann sem geti tekið ákvörðun um þetta heldur þarf bæði að liggja fyrir samþykki veiðimálastjóra og veiðimálanefndar sem, eins og liggur hér fyrir, er nú styrkt í þessum breytingum frá því sem er. Og það er alveg ljóst, eins og menn væntanlega þekkja nú til, að ákvarðanir eins og þessar, sem mundu þá verða bundnar við rekstrarleyfi hverrar stöðvar fyrir sig, ganga auðvitað ekki fram nema í miklu samkomulagi. Þar vitnar m.a. um að landbrh. hefur ekki nýtt sér nema einu sinni ákvæði 72. gr. eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið og það segir það eitt út af fyrir sig hvað þessi mál eru vandasöm í framkvæmd. Þannig að ég held að það sé alveg ljóst að hér sé miklu betur séð fyrir þessum málum og í huga landbn. var m.a. sú reynsla sem fengist hefur í þessum efnum. Með því að nú á að gefa út rekstrarleyfi innan árs fyrir allar hafbeitarstöðvar, hverju nafni sem þær nefnast og hvaða pappíra sem þær kunna að hafa í höndunum, þá er það auðvitað mjög mikilvæg trygging fyrir því að þessi rekstur verði í fastara horfi heldur en verið hefur, því þau fyrirmæli sem þessi lög gefa eru miklu fastari í formi heldur en verið hefur.