Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:47:33 (6903)


[11:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um þetta. En það sem skiptir máli í söguskýringunni er einfaldlega það að um áramótin 1990/1991 þegar við, hv. þm. og ég, vorum í stjórnarandstöðu kom frv. sem sameinaði ýmsa gjaldaliði á atvinnureksturinn í eitt tryggingagjald. Þá urðu heilmiklar umræður um hvort þessu tryggingagjaldi, sem m.a. var á bændur, ætti að fylgja atvinnuleysisbótaréttur og bótarétturinn fylgdi ekki í það skiptið. Það er síðari tíma mál sem það gerist. Um þetta urðu miklar umræður og þeir sem lögðust gegn þessu á sínum tíma voru m.a. Alþýðusamband Íslands. Á síðari stigum málsins þegar var verið að ræða um atvinnuleysisbætur fyrir skömmu síðan á yfirstandandi kjörtímabili var gerð sú breyting sem hv. þm. er nú að tala um. Ég skil hans afstöðu mjög vel að það er auðvitað eðlilegt að það komi fram sú krafa að horfið verði frá því að bændur greiði þennan hluta gjaldsins sem fer í Atvinnuleysistryggingasjóð og þá verði afnumin réttindin í staðinn. Þá lógik skil ég fullvel.