Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:01:04 (7125)


[17:01]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Því miður er það þannig að þeir sem eiga krókaleyfisbáta, sumir hverjir, hafa rétt til að fara á sjó en þeir nota ekki þann rétt heldur leigja út trilluna jafnvel þótt það sé stuttur tími og leigja afnotarétt að sínum bátum til annarra sjómanna.
    Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þm., að það hlýtur alltaf að koma til endurskoðunar og umfjöllunar um þá löggjöf sem gildir um þessi mál, hvort sem það er hinn hagræni þáttur, sem felst í löggjöfinni um stjórn fiskveiða, eða hinn tæknilegi þáttur, sem felst í löggjöfinni um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Við þurfum að sjálfsögðu alltaf að haga því eftir þeim aðstæðum sem ríkja hverju sinni en grundvallaratriðið hlýtur að vera að skapa þessari atvinnugrein þá umgjörð sem leiðir til hagkvæmni og leiðir til þess að hún geti staðið undir þeim lífskjörum sem við viljum hafa í landinu. Þá er grundvallarskilyrðið að sjávarútvegurinn sé rekinn á sem hagkvæmastan hátt.