Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:51:01 (7136)


[17:51]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég andmæli algerlega fullyrðingu um að með samþykkt frv. og brtt. sé verið að auka á atvinnuleysi sjómanna, en að ég hafi tekið stórt upp í mig varðandi umsögn atvinnumanna má vel vera. En ég er hér með umsögn frá einum af þessum ágætu atvinnumönnum um að stjórnvöld verði að kaupa upp bátaflotann eða hluta hans og leggja honum. Eru þetta ekki stóryrði? Er ekki ástæða til að svara svona löguðu með stórum orðum? ( StG: Til hvers var Þróunarsjóðurinn?) Hér stendur, með leyfi forseta, að togarar og stærri fiskiskip geti sótt í fjarlæg fiskimið. Geta smábátar það? Togarar og stærri fiskiskip geta verið á sjó í hvaða veðri sem er og hvenær sem er. Smábátar mega vera á sjó sex mánuði þegar færi og veður gefst. Hver er með stóryrði og hver er með dylgjur?