Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:24:39 (7150)


[18:24]
     Petrína Baldursdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna það úr ræðustóli á Alþingi og ég gerði það í haust í umræðum um sjávarútvegsmál að ég hef ekkert verið sérstaklega mikill talsmaður kvótakerfis. Ég sagði þá að ég óttaðist að með þessum breytingum og þessum lögum væri verið að festa kvótakerfið í sessi. Hins vegar verð ég að horfast í augu við þá staðreynd, eins og margir aðrir sem gagnrýnt hafa þetta kerfi, að ég

hef engar aðrar tillögur og meðan ég get ekki lagt fram einhverjar tillögur þá verð ég að sætta mig við það kerfi sem er en ég ætlast til þess að leikreglurnar séu skýrar og að eftir þeim sé farið.
    Varðandi seinni spurninguna þá hef ég ekki verið neitt sérstaklega hrifin af þessum viðskiptum með tonn á móti tonni, en ég sagði í ræðu minni að það mætti færa rök fyrir því að báðir aðilar, bæði sjómenn og útgerðarmenn, gætu hagnast á þessum viðskiptum vegna þess að við vitum að útgerðarmenn geta sagt við sína sjómenn: Nú er kvótinn búinn. Ég þarf að kaupa kvóta, viljið þið taka þátt í því? Þegar sjómaðurinn stendur frammi fyrir þessu vill hann láta leggja skipið við bryggjuna, neita að taka þátt eða vill hann taka þátt í þessu? Hann getur þénað á því, hann getur grætt á því.
    Ég ætla ekki að lýsa því yfir að ég sé algjörlega mótfallin þessu. Þetta er eitt af því sem kerfið hefur leitt af sér og jafnvel sú skerðing sem hefur verið á þorskveiðiheimildum sem við höfum verið að ganga í gegnum hefur náttúrlega leitt til þess að menn hafa frekar farið út í svona hluti. Ef það er alveg skýrt að útgerðarmenn séu ekki að leika sér að því að selja kvóta og kaupa svo aftur kvóta til þess eingöngu að láta sjómenn taka þátt í því þá get ég að mörgu leyti verið fylgjandi tonn á móti tonni viðskiptum. Ef leikreglurnar eru skýrar.