Þjóðminjalög

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:31:03 (7566)


[09:31]
     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð vegna þeirrar umræðu sem hér er hafin. Hæstv. menntmrh. var ekki viðstaddur 2. umr. þessa máls og ég vil af því tilefni koma því á framfæri við hann að ég er þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að hafa miklu meiri tíma til að skoða þetta mál og að ástandið innan safnsins sé þannig að nauðsynlegt hefði verið að taka á þeim skipulagsvanda sem þar er að finna. Við hefðum þurft að fara dýpra ofan í málið og reyna að finna leiðir til lausnar og ekki síst að átta okkur á því hvort þær breytingar sem núna er verið að gera á lögunum breyta í rauninni nokkru um þann vanda.
    Hæstv. menntmrh. sagði áðan að það væri ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því hvern hann skipaði sem formann þjóðminjaráðs, en ég held að það sé alveg augljóst mál að við höfum orðið vitni að því að bæði þjóðminjaráð og fornleifanefndir sem setið hafa á undanförnum ára hafa verið umdeildar. Það hafa skapast deilur í kringum störf þeirra þannig að ég vil ítreka það og leggja mikla áherslu á að það er afar nauðsynlegt að vanda mjög til valsins þegar kemur að skipan þjóðminjaráðs. Þangað þarf að veljast fólk með þekkingu á söfnum og rekstri þeirra en jafnframt fólk sem er fært til þess að taka á þessum vanda. Sá vandi felst m.a. í því að þessi stofnun hefur verið fjársvelt um áratuga skeið og allt hennar skipulag er afar gamaldags. Það þarf að endurskipuleggja safnið sjálft, þ.e. sýningarsali og það sem að fólki snýr sem þangað kemur, en það þarf jafnframt að taka á þeim starfsanda sem ríkir innan safnsins. Þar geta stjórnendur auðvitað skipt miklu máli til að bæta starfsandann og að taka á þeim málum sem þarna eru.
    Til að skýra betur hvað ég á við þarf ekki annað en vitna til þess sem birst hefur í blöðum varðandi deilur í kringum fornleifauppgröft og hugmyndir um það hverjir megi grafa og hvar og í rauninni hverjir séu hæfir til að grafa. Það hefur einkum verið á því sviði sem deilurnar hafa staðið, en ég hef ekki minni áhyggjur af Þjóðminjasafninu sem safni fyrir allan almenning. Það er svo gamaldags og þungt í vöfum og svo mikil þörf á því að breyta safninu, ekki síst með tilliti til námsfólks og þeirra sem ánægju hafa af því að skoða safnið, að það verður að taka á þessum vanda. Þess vegna skiptir það höfuðmáli, hæstv. menntmrh., að það veljist fólk í þjóðminjaráð og reyndar í fornleifanefndina líka sem getur unnið með öðru fólki og er hæft til þess að taka á þeim mikla vanda sem þarna er.