Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:09:50 (7731)


[17:09]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn er hér um misskilning hjá hv. þm. að ræða. Ég hef verið að skoða mál þessu skyld sem er raforkusala til gróðurhúsa og gróðurhúsabænda og ég get fullyrt það til upplýsingar fyrir hv. þm. að það er ekki sama orkuverð til allra gróðurhúsabænda innan Evrópusambandsins. Það er mjög mismunandi verð bæði eftir því í hvaða landi er um að ræða sölu á orku til slíkra þarfa og eins hvaða orkufyrirtæki það er sem selur orkuna. Ég þori ekkert um það að fullyrða en mér er samt næst að fullyrða það úr ræðustól að ég sé sannfærður um að það sé ekki sama orkuverð til allra áburðarverksmiðja á svæði Evrópusambandsins. Það er auðvitað alveg fráleitt að láta sér detta í hug að það brjóti í bága við samninginn um EES að tveir orkukaupendur, jafnvel þó í sömu grein séu, fái ekki orkuna á nákvæmlega sama verði á öllu svæðinu. Það er gersamlega út í hött og sýnir það, virðulegi forseti, að enn þarf að ræða, og ræða lengi virðist vera, þessi EES-mál áður en hv. þm. gera sér grein fyrir aðalatriðum og aukaatriðum í því sambandi.