Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 18:32:17 (7888)

[18:32]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það virðast vera örlög mín að koma hér upp í ræðustól í hverju málinu á fætur öðru en ég skal reyna að taka því með stillingu og jafnvel jafnaðargeði.
    Varðandi umræðu um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem enduðu mjög brátt í gærkvöldi finnst mér illskárri örlög að tala hér eigin tungu heldur en að hafa hv. borgarstjóra mælandi fyrir minn munn um uppbyggingu í Grafarvogi eins og hv. frsm. minni hluta sjútvn. mátti sæta í gærkvöldi þannig að ég er fullkomlega sátt við það að fara í þessa umræðu nú og þá með eigin orð á vörum væntanlega.
    Ég held að það þurfi ekki nokkur maður að velkjast í vafa um það að Þróunarsjóður sjávarútvegsins er mjög umdeilt fyrirbæri og kannski segir það allt sem segja þarf sem fram kemur í nál. minni hluta sjútvn., nál. sem ég á aðild að sem áheyrnarfulltrúi að í umfjöllun sjútvn. fannst í reynd ekki einn einasti stuðningsaðili frv. eins og það er í óbreyttri mynd fyrir utan ríkisstjórnina sjálfa og stjórnarflokkana. Hér væri

kannski hægt að nema staðar. Mér finnst í rauninni svo furðulegt að við skulum vera komin með þetta mál aftur í umræðu undir þessum formerkjum að það segir kannski meira um átakanlega stöðu þessarar ríkisstjórnar en margt annað. En hér vita að sjálfsögðu allir hvaða hrossakaup hafa farið fram og að Alþfl. hangir á þessari ímynd eins og hundur á roði og vill engu sleppa. Hitt er annað mál að það er náttúrlega orðið dálítið sérkennilegt þegar við fáum brtt. frá meiri hluta sjútvn. aftur og aftur og það endar með því að orðaforði yfir að prenta upp brtt. er orðinn frekar fátæklegur því við höfum á þskj. 1096 brtt. sem eru endurprentaðar upp á ný. Slíkur hrærigrautur hefur verið í þessum vinnubrögðum og ég held að það sé rétt að taka það fram svo það sé ekki verið að senda neinar sneiðar til skrifstofuliðs Alþingis sem hefur unnið sitt starf af prýði, að hér er um hreinar málefnalegar útfærslur að ræða og meiri hluti sjútvn. ber, eftir því sem ég kemst næst, fulla ábyrgð á þessu hringli en ekki skrifstofulið á Alþingi.
    Hér er sem sagt verið að grauta í máli sem menn eru meira og minna ósáttir við en það er verið að reyna að halda uppi því sem eftir er af sjálfsmynd Alþfl. og í nafni mannúðarstefnu væri kannski hægt að gera það þar sem þar mun um hverfandi fyrirbæri vera að ræða sem ekki var sett á friðunarskrá í villidýrafrumvarpinu en ég bý alla vega ekki yfir slíkri góðmennsku að vilja að slíkt sé á kostnað sjávarútvegsins.
    Hér er verið að setja á vísi að auðlindaskatti og samkvæmt skilgreiningu alþýðuflokksmanna sjálfra þá er verið að setja á auðlindaskatt eða veiðileyfagjald eða hvað sem menn kjósa að kalla það. Þetta er auðvitað mikið metnaðarmál alþýðuflokksmanna. Hvers vegna skil ég að vísu ekki en það verður að vera þeirra mál að útskýra. Hitt er annað að þeir virðast ekki treysta sér til að fara í næstu kosningar fylgisrúnir og traustsrúnir öðruvísi en að geta sagt: Sjáið, ja, ekki var það tindur, en sjáið árangurinn, þessu náðum við. En það er náttúrlega spurning hvað verður úr þessu fyrirbæri, Þróunarsjóðnum, þegar til á að taka, hvort þetta verður bara orð á borð við landslagið sem var lítils virði ef það hét ekki neitt. Að þetta verði bara heitið eitt eftir.
    Annað sem mér þykir skipta verulegu máli er það að vissulega þarf að taka á einum hluta þessa máls en það er úreldingin sjálf. Menn hafa beðið langtímum saman eftir því að fá skýrar reglur um úreldingu og þar bendum við í minni hlutanum á að það er hægt að flytja brtt. við lögin um Hagræðingarsjóð þar sem úreldingarprósentan verði færð upp í þau 45% sem frv. um Þróunarsjóð gerir ráð fyrir og síðan hækkuð sú upphæð sem þarf að sama skapi. En að öðru leyti verði þessu frv. vísað til ríkisstjórnarinnar, þ.e. því sem hér liggur fyrir. Þetta er að sjálfsögðu það einasta sem hægt er að gera við það og a.m.k. miðað við þá reynslu sem oft er af því að vísa til ríkisstjórnarinnar þá er það vís leið til að drepa málið og sá væri að sjálfsögðu tilgangurinn. Að sjálfsögðu í þessu tilviki.
    Ég tel að það sé ástæða til þess að líta lítillega á þau efnisatriði sem hér eru til umfjöllunar og ekki síst vil ég taka undir röksemdir sem koma frá allmörgum útvegsmannafélögum sem sendu inn sameiginlega umsögn þar sem þau benda á að kannski það allraversta af mörgu slæmu við að leggja sérstakt veiðileyfagjald á sjávarútveginn sé það að þarna sé verið að leggja á gjald sem er svipað og aðstöðugjald sem hæstv. fyrrv. viðskrh. barðist ekki lítið fyrir að reyna að ná burtu, þ.e. aðstöðugjaldinu, þar sem það er verið að leggja gjald á fyrirtæki hvort sem um hagnað eða taprekstur er að ræða. Þetta er mikil eymd að horfa upp á að Alþfl. skuli fyrr á þessu kjörtímabili berjast hart gegn slíkri óréttlátri skattheimtu og eyða síðan síðari hluta kjörtímabilsins í að reyna og linna ekki látunum fyrr en þau koma því aftur á og þá á þann atvinnuveginn sem síst þolir skakkaföll, þ.e. sjávarútveginn, og síst má við því að fara að fá á sig slíkt gjald eins og staðan er núna a.m.k. Réttlát skattheimta á útgerðarfyrirtæki þegar vel árar er eins og önnur skattheimta, þ.e. fyrst og fremst að skattleggja arð, hagnað í greininni. Ég er mjög ósátt við það að það skuli hafa verið stefna þessarar ríkisstjórnar almennt að bæta sífellt fleiri flötum sköttum eða gjöldum af ýmsu tagi á alla, bæði þá sem standa vel og þá sem standa illa, og síðan að þykjast vera að ná einhverju réttlæti fram með því að lækka skattaleiðina sem skattleggur þá sem í rauninni eru færir um að greiða skatta, þ.e. þá sem skila hagnaði. Þetta finnst mér hugsun sem ég sætti mig ekki við og ég man ekki betur en þegar aðstöðugjaldið var til umræðu og afnám þess að þá hafi verið aðeins meiri skilningur á þessum málum.
    Þetta er nú varðandi tilhögun á þessari skattheimtu en ég vil ekki alveg hverfa frá úreldingunni án þess að geta þess að þrátt fyrir að flotinn sé nú talinn frá 10 og upp í 30% of stór núna og að það sé fátt nema sókn í vannýttar tegundir sem geti leyst þennan vanda þá verðum við að sjálfsögðu að hafa eitthvert borð fyrir báru. Við verðum að gera ráð fyrir því að það sé að einhverju leyti hægt að mæta þeim sveiflum sem jafnan verða í sjávarútvegi, þannig að við megum ekki fara svo skarpt í að úrelda að við stöndum uppi þegar betur árar eins og við stóðum uppi í vetur þegar við stóðum sérstaklega frammi fyrir því að vanta fiskvinnsluhús til þess að taka við þeirri blessunarlegu loðnuuppsveiflu sem kom hingað. Þannig að við verðum að hafa þetta sérstaklega í huga.
    Í ákveðnu plaggi sem við höfum fyrr rætt um, skýrslu tvíhöfða nefndarinnar, þá er töluvert rakið með hvaða hætti staðið hefur verið að úreldingu allt frá árinu 1978 þegar Aldurslagasjóður var stofnaður. Ég hef heyrt í umræðum innan sjútvn. að það gætir nokkurs trega hjá sumum stjórnarsinnum þar sem vilja hverfa aftur til annarra úreldingarkerfa og stenst Þróunarsjóður ekki samanburð þar. Það sem mér finnst hins vegar skipta langmestu máli í þessu er það að við tökum á þessum úreldingarmálum og séum ekki að hringla með þau og við gerum það af því réttlæti sem þarf og þá tek ég sérstaklega fram að það er fleira en bara

úreldingin sem var sérstaklega hlutverk Hagræðingarsjóðs sem við stjórnarandstæðingar höfum reynt að halda verndarhendi yfir. Það var nefnilega mjög merkilegt hlutverk þar sem var ákveðin sveiflujöfnun og þetta hélst alveg ljómandi vel í hendur við það að úrelda. Það er sem sagt í rauninni ekki glóra í því að á einum stað á landinu séu menn að kaupa og bæta við meðan á öðrum stað er verið að úrelda skip sem ættu í raun réttri að fá að lifa vegna þess að þarna er verið að færa sveiflur á milli byggðarlaga. En í rauninni þá er þetta bara ekki óhollt vegna úreldingarinnar heldur einnig vegna mikils kostnaðar og röskunar og atvinnuhagsmuna fólksins í þessum byggðarlögum sem hafa verið að missa fiskveiðiheimildir. Í lögum um Hagræðingarsjóð hefur lengst af verið smámöguleiki til þess að rétta þetta af þó það sé engan veginn það sem við kvennalistakonur hefðum viljað sjá með byggðakvóta.
    Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki verulega miklu að bæta inn í þessa umræðu. Ég ítreka enn og aftur að það er sérkennilegt að vera hér að fjalla um mál sem enginn virðist geta varið nema nokkrar sálir úr hópi stjórnarsinna og hlýtur maður að efast um að hugur fylgi alltaf máli þar og í rauninni dálítið sérkennilegt að umræðan skuli vera komin svona langt í trássi við alla heilbrigða skynsemi.