Hátíðarsjóður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins

162. fundur
Föstudaginn 17. júní 1994, kl. 11:22:05 (8077)


[11:22]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti, góðir Íslendingar. Hvað er það sem gerir Íslendinga að þjóð? Það er öðru fremur tungan. Hún tengir okkur saman og gerir okkur að sérstökum hópi í samfélagi veraldarinnar. Hún gefur okkur tækifæri til að halda uppi bókmenntum og menningarlífi sem er frábrugðið menningu annarra þjóða. Hún varðveitir menningararf fyrri alda og gefur okkur eigin sögu sem kemur okkur við og tengir okkur við fortíðina og landið sem við byggjum.
    Örlögin höguðu því svo að hingað til Íslands komu forfeður okkar um úfin höf og settu hér byggð. Ísland hefur verið heimkynni okkar í meira en 1100 ár og við eigum þetta land.
    Fyrir 50 árum komu menn saman hér á Þingvöllum og stofnuðu lýðveldi. Þeir völdu það form stjórnskipunar að yfirlögðu ráði þar sem þeir töldu að það hentaði Íslendingum best. Þá töldu menn að hagsmunum okkar væri best borgið með því að við værum fullvalda og réðum málum okkar sjálfir.
    Það var stórkostleg tilraun sem menn stofnuðu til á Þingvöllum 1944, tilraun svo fámennrar þjóðar að starfrækja sjálfstætt og fullvalda þjóðfélag þar sem fólkið byggi við menningarlega og efnahagslega velferð og félagslegt öryggi.

    Þegar við lítum til baka yfir 50 ára lýðveldisskeið getum við staðhæft að sú tilraun hefur tekist vel. Ísland hefur getað búið börnum sínum efnahagslega velferð. Gróðurmoldin og hafið umhverfis landið, lífbeltin tvö, hafa megnað að búa okkur góð lífsskilyrði. Þjóðin sjálf, fólkið í landinu, hefur reynst þess umkomin að búa í menningarlegu samfélagi. Okkur hefur varðað hvert um annað. Þótt við öll getum bent á margt sem hefði mátt betur fara er ég viss um að flestöll viðurkennum við að okkur þætti ekki eftirsóknarverðara að búa annars staðar. Við erum Íslendingar og tilheyrum þessari þjóð og þessu landi.
    Ísland er gott land og gjöfult og mun í framtíðinni áfram geta búið börnum sínum farsæld og góð lífsskilyrði ef við gætum þess að umgangast það og nýta auðlindir þess af fyrirhyggju og virðingu. Okkur er höfuðnauðsyn að þekkja land okkar og möguleika þess og skilyrði. Efnahagsleg velferð þjóðarinnar mun í framtíðinni öðru fremur byggjast á þeim afrakstri sem við höfum af hafinu. Við vitum enn þá allt of lítið um það hvaða lögmál gilda í lífríki hafsins. Það er því vel við hæfi að minnast 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi með því að verja nokkrum fjármunum sérstaklega til þess að efla íslenska tungu og í öðru lagi til þess að gera sérstakt átak í vistfræðirannsóknum á lífríki hafsins.
    Fimmtíu ára lýðveldisskeið hefur fært okkur heim sanninn um að við Íslendingar getum lifað hér góðu lífi í framtíðinni. Það er ekki vandalaust í viðsjálum heimi. Til þess þurfum við að hafa trú á okkur sjálfum og á landi okkar. Ég vara við þeirri uppgjöf, þeirri vantrú á okkur sjálf og land okkar sem felst í því að telja þann kost vænlegastan fyrir okkur að tengjast stjórnarfarslega útlendum ríkjabandalögum og lúta þeirra forsjá. Við eigum að leita dæma í sögu okkar og af reynslu annarra þjóða sem svipað hefur verið ásatt um. Þá sjáum við glöggt hve dýrmætt það er að geta ráðið sér sjálf og þurfa ekki til annarra að sækja um ákvarðanir. Við eigum að ástunda vinskap við aðrar þjóðir og efla við þær samskipti, en ákvörðunarvaldinu megum við aldrei afsala okkur. Við þurfum sjálf að geta átt lokaorðið um lífshagsmuni okkar þegar við viljum.
    Ég á mér þá ósk á þessum tímamótum að okkur auðnist að halda áfram í heiðri þær hugsjónir sem lýstu mönnum hér á Þingvöllum fyrir 50 árum: Ísland verði áfram sjálfstætt og fullvalda lýðveldi. Íslendingar hafi áfram trú á sjálfum sér og landi sínu, treysti áfram sjálfum sér og sjái þá möguleika og þann auð sem Ísland býður upp á og þá gæfu að vera Íslendingur.
    Við erum svo lánsöm að eiga þetta góða og fagra land og munum það einnig að þetta land á okkur.