Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:59:21 (58)


[14:59]
     Margrét Frímannsdóttir :

    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þau fáu svör sem ég þó fékk, því ekki svaraði hann nema hluta þeirra spurninga sem ég var með. Jafnframt vil ég þakka þeim hv. þm. sem tóku þátt í þessari umræðu.
    Hæstv. ráðherra talaði um það að ekki væri rétt af okkur að fara í umræðuna með þessum hætti, að taka einstaklinga, ákveðinn hóp einstaklinga eða einhverja sérstaka, heldur ættum við að tala um málið sem eina heild. Það er akkúrat það sem ég var að gera. Niðurskurður til meðferðarheimila almennt. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því núna að það er verið að loka heilli stofnun þar sem 26 vistmenn eru og 12 starfsmenn og eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í gær: Við erum þjóð sem stendur saman, þjóð sem byggir á þeim grunni að samfélagið lætur sig varða um afkomu hvers einasta þjóðfélagsþegns. --- Það er einmitt það sem við erum að gera hér. Við erum að láta okkur varða hvað verður um þá einstaklinga sem nú eru í Gunnarsholti sem á að fara að loka.
    Hæstv. ráðherra sagði að fjórir ættu heima að Víðinesi, sex ættu heima á stoðbýlum, tíu ættu heima í virkri eftirmeðferð, t.d. Staðarfelli, fimm ættu heima á dvalarheimili aldraðra. --- Eru þetta svörin til mín um það hvað verður um þessa einstaklinga, að þeir eigi heima á hinum eða þessum stöðunum? Eflaust væri það best að þeir ættu allir sín eigin heimili. Þannig vildum við helst hafa það. En ég spyr: Hvað verður um þessa einstaklinga? Ég óska eftir því að fá skýrari svör og spyr einnig: Hvernig á að nýta húsnæðið að Gunnarsholti og verður eitthvert samráð við sveitarstjórnina vegna þess atvinnuástands sem skapast og verður þeim mönnum sem nú vinna þarna tryggð atvinna með einhverjum hætti?