Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:33:34 (90)

[12:33]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. fyrir að flytja þetta mál hér inn. Enda hefur umræðan borið það með sér að hér er á ferðinni tímabært mál. Ég vil í upphafi máls míns endurtaka þær spurningar sem bornar voru hér fram áðan til hæstv. utanrrh. Ég held að það væri til upplýsingar og skýringar á málum ef það gæti komið hér skýrt fram hvers vegna þessi starfsmaður sem hér var hælt að verðleikum í ræðu hæstv. sjútvrh. var ekki talinn hæfur til að veita umsagnir þegar þessi mál voru til umfjöllunar.
    Ég vil í þessu máli ræða lítllega um þá atburði sem hafa gerst í sumar. Það hefur verið fjallað töluvert mikið um réttindi okkar Íslendinga til veiða á alþjóðlegum hafsvæðum og hæstv. sjútvrh. nefndi þá deilu hér áðan og talaði þar um að það yrði að fylgja fast fram okkar rétti. Ég skildi hann þannig að hann væri þá bæði að tala um þau réttindi sem verið er að tala um í þessu þingskjali sem við höfum hér fyrir framan okkur og einnig réttinn til veiða á alþjóðlegum hafsvæðum. Það hefur orðið mér nokkuð til umhugsunar hvernig hæstv. sjútvrh. hefur haldið á þeim málum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst að það

hafi ekki verið tekið mjög skynsamleg afstaða til hlutanna. Það er mikilvægt að vanda sig í þessu. Íslenskir útgerðarmenn hafa lagt mikið af mörkum. Það kann vel að vera að menn geti verið með mismunandi afstöðu til málsins hvernig hafi verið af stað farið en íslenskir útgerðarmenn hafa lagt mikla fjármuni og mikla áhættu í það sem þeir eru að gera í Smugunni. Og það að þeir eru að reyna að koma íslenska flotanum í notkun á alþjóðlegum hafsvæðum er ekki lítið hagsmunaatriði fyrir okkur Íslendinga. En hvað gerist þá? Það gerist að hæstv. sjútvrh. virðist taka þá afstöðu til mála í upphafi að hann sé andvígur því að íslensk fiskiskip leiti til veiða á erlendum hafsvæðum. Og núna er það síðast af málinu að frétta að hæstv. sjútvrh. beitir sér fyrir því að það er sett veiðibann á flotann sem er í Smugunni. Gott og vel, það á auðvitað að stjórna fiskveiðum. En það á að gera það vísindalega. Það er ekki upp á það bjóðandi að íslenskum skipum sé bannað að veiða á alþjóðlegum hafsvæðum án þess að á bak við það bann sé vísindalegt eftirlit með því hvað þessi fiskiskip eru að fá. Og ég tel að það sé í sjálfu sér auðvelt að koma því eftirliti við. Ég efast ekki um að það er hægt að semja við íslenska útgerðarmenn um að um borð í þessum veiðiskipum séu eftirlitsmenn sem geta gefið skýrslur til sjútvrn. og á þeim forsendum verði síðan hægt að stjórna þessum veiðum. Það er ekki upp á það bjóðandi að banna þessar veiðar svona langan tíma án þess að það sé fylgst með hvernig ástandið er á fiskstofnunum á svæðinu. Og ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða afstöðu sína. Hann hefur neitað að verða við tilmælum um það þegar útgerðarmennirnir hafa boðist til að leggja af mörkum það að fara inn á svæðin og að það verði skoðað með því að toga á svæðunum hvernig ástandið er, því hefur líka verið neitað. Ég tel að þetta sé eitthvað sem menn verði að ræða hér og að menn þurfi að standa þannig að þessum málum að það sé um þetta friður og það sé eðlilega staðið að þessu. Eftirlit með veiðum er eðlilegt en það á að vera gert með svipuðum hætti eins og við gerum hér á miðunum heima hjá okkur.
    Ég vil að lokum taka undir það sem hefur verið sagt um þá þáltill. sem hér er til umfjöllunar. Ég tel að það sé um mjög margt full ástæða til að taka þessi mál til umfjöllunar einmitt núna og það verði að gera það í raunverulega stóru samhengi. Þar eigi að taka til umfjöllunar hafsbotnsréttindin, réttindi til auðlinda á hafsbotninum, réttindi okkar til veiða á alþjóðlegum hafsvæðum. Og við þurfum að samræma þessa afstöðu. Þegar þessi umræða kom upp í sumar þá virtust menn vera mjög ráðvilltir og sumir töluðu eins og Íslendingar mættu alls ekki koma nærri úthafsveiðum vegna þess að þeir væru strandríki. Rétt eins og strandríkin væru ekki einmitt úthafsveiðiríkin. Ég tel að þetta hafi þess vegna verið mjög tímabært mál að lenda í, þ.e. þessar umræður sem urðu í framhaldi af því að íslenskir útgerðarmenn fóru að veiða í Smugunni. Það er þess vegna verkefni Alþingis Íslendinga að takast á við það að endurmeta afstöðuna til þessara mála allra og samræma hana. Ég tel að það eigi vel að vera hægt að hafa þá afstöðu til mála að það eigi að stækka íslensku landhelgina en jafnframt að Íslendingar eigi að taka þátt í að móta þær reglur sem þurfa að vera um nýtingu fiskstofna á alþjóðlegum hafsvæðum. Ég sé ekki annað en að þetta tvennt geti auðveldlega farið saman. Og það þarf að vera verkefni sem menn snúa sér að og ætla sér ekki allt of langan tíma til vegna þess að íslenskir útgerðarmenn hafa ekki tíma til að bíða eftir því að við mótum afstöðuna mjög lengi. Við þurfum á því að halda að nota flotann okkar eins og við mögulega getum. Það vita allir hvernig aðstæður eru í íslenskum sjávarútvegi í dag. Ef við ekki nýtum alla möguleika til að nýta þann flota sem við eigum þá mun það verða til þess að það verði enn þá meiri erfiðleikar í íslenskri útgerð.