Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:41:34 (91)

[12:41]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég veit ekki hvort það stafar af misskilningi hv. þm. þau orð sem hann hafði um lokun veiðisvæðisins í Smugunni eða vegna þess að það kunni að vera stefna Alþb. að vera á móti þeim lögum sem í gildi eru um verndarráðstafanir til að koma í veg fyrir smáfiskadráp. En staðreynd málsins er sú að íslensk stjórnvöld og strandgæslan norska gerðu með sér samkomulag um samvinnu í þessum efnum og starfsmaður Landhelgisgæslunnar var um tíma um borð í norsku strandgæsluskipi og gerði fjölmargar mælingar á veiðum íslenskra skipa á tilteknu svæði syðst í Smugunni. Allar þessar mælingar sýndu, bæði eftir íslenskum reglum og norskum reglum, að sá fiskur sem var verið að veiða var undir viðmiðunarmörkum. Þetta var í samræmi við mælingar norskra eftirlitsmanna um þó nokkuð langan tíma þar á undan. Í ljósi þessara staðreynda byggðum á vinnubrögðum sem eru nákvæmlega þau sömu og við beitum hér heima þá var tekin ákvörðun um lokun tiltölulega lítils svæðis sem togararnir höfðu verið á og höfðu fengið bæði lítinn afla og lítinn fisk. Þetta er í fullu samræmi við þessar reglur. Síðan er íslenskur eftirlitsmaður um borð í skipi sem hefur verið á veiðum á öðrum stað í Smugunni. Þannig að ásakanir um það að íslensk stjórnvöld hafi ekki framkvæmt eðlilegt eftirlit eru rangar. Og ásakanir um að teknar hafi verið ákvarðanir um friðunarráðstafanir með öðrum hætti en innan íslenskrar lögsögu eru líka rangar. Þá ályktun má helst draga af ummælum hv. þm. að hann sé í raun og veru á móti friðunarráðstöfunum af þessu tagi og sé hér að verja smáfiskadráp.