Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 19:17:07 (221)


[19:17]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það tvennt sem hlýtur fyrst og fremst að móta fjárlagafrv. hverju sinni er stefna ríkisstjórnar og aðstæður í þjóðfélaginu. Reyndar má segja að nú sé þetta hvorutveggja nátengt þegar ríkisstjórnin er búin að sitja að völdum í hálft þriðja ár, svo mjög sem stefna hennar hefur mótað aðstæður hér innan lands.
    Tvímælalaust afdrifaríkustu afleiðingarnar af frjálshyggjutrú ríkisstjórnarinnar á afkomu þjóðarbúsins eru að sjálfsögðu þrengingar atvinnulífsins. Háu vextirnir vega þar þyngst og eru táknrænir um vinnubrögðin. Við framsóknarmenn vöruðum sterklega við þessari stefnu og oft síðan höfum við bent á afleiðingarnar í umræðum hér á Alþingi. Það er að vísu rétt að hávaxtatrúin var ríkjandi í mörgum nágrannalöndum okkar þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók vaxtaheljarstökkið í upphafi ferils síns. En þegar stjórnendur þeirra ríkja sáu hinar hrikalegu afleiðingar af villutrú þessari og afleiðingarnar urðu vaxandi atvinnuleysi, sérstaklega hjá ungu fólki, þá beittu þeir valdi sínu til að knýja fram lækkun vaxta. Þar með viðurkenndu þeir ekki aðeins voðann sem hávaxtastefnan veldur heldur kollvörpuðu þeir einnig því trúaratriði Sjálfstfl. og Alþfl. að háir vextir væru svo heilagt lögmál að mannlegt vald ætti ekki og gæti ekki haft nein áhrif á vextina. Í þessum nágrannalöndum okkar eru ríkisverðbréf víðast hvar nú boðin á 2--5% vöxtum. En hér býður ríkið skuldabréf með 7--8% vöxtum sem er miklu hærra en nú þekkist nokkurs staðar hjá nágrönnunum. Og þó er fjárlagahalli í sumum þessara landa miklu hærra hlutfall en hér á landi svo það getur ekki verið ástæðan fyrir þessum háu vöxtum hér. Orsakanna taldi hæstv. fjmrh. reyndar einkum að leita í sérkennum íslensks fjármagnsmarkaðar. Ég held að réttara væri að segja að orsökin sé sérkenni íslensku ríkisstjórnarinnar sem rígheldur í þessa stefnu.
    Hv. 3. þm. Vestf. flutti hér athyglisverða ræðu um að stefna hans í vaxtamálum væri algjör andstaða stefnunnar sem hann hefur stutt ríkisstjórnina til að framkvæma á undanförnum árum eins og honum var reyndar bent á í andsvörum við ræðu hans áðan. Hv. þm. sagði líka að fjármálastjórn hefði verið hér traust. En hvar sjáum við þessa traustu fjármálastjórn? Ber þetta fjárlagafrv. með 10 milljarða kr. halla vitni um trausta fjármálastjórn hjá ríkinu? Birtist þessi trausta fjármálastjórn hjá fyrirtækjunum sem hvert af öðru eru að leita nauðasamninga vegna yfirvofandi gjaldþrota? Birtist þessi trausta fjármálastjórn hjá þeim einstaklingum sem eru að missa eignir sínar fyrir lítið vegna verðfalls á fasteignum? Því miður

er staðreyndin sú að stjórnarflokkarnir eru hér kaþólskari en páfinn í vaxtastefnu sinni og í verki virðist það hana engu máli skipta þó vaxtabyrðin sé ekki aðeins að sliga undirstöðuatvinnuvegina heldur einnig fjölmarga einstaklinga í þjóðfélaginu og einnig ríkissjóð sem kemur skýrt fram í þessu fjárlagafrv.
    Þegar árlegur halli ríkissjóðs er orðinn á milli 10--20 millj. kr. eins og því miður er staðreynd hjá núv. fjmrh., og enginn veit hvar í ósköpunum endar með óbreyttri stjórnarstefnu, þá er augljóst að hið háa vaxtastig leggur slíkar drápsklyfjar á ríkissjóð að það hrekkur skammt til að mæta því þó af handahófi sé dregið úr ýmissi samfélagslegri þjónustu sem bitnar harðast á þeim sem höllum fæti standa.
    Eina færa leiðin til að bæta afkomu ríkissjóðs og þjóðarbúsins er að sjálfsögðu að efla þá atvinnuvegi sem auka raunverulega verðmætamyndun í þjóðfélaginu. En það er því miður með fleira en vaxtastefnunni sem ríkisstjórnin leggur stein í götu þess að það megi takast. Íslensk ferðaþjónusta horfir með kvíða fram til næstu áramóta þegar nýi ferðaþjónustuskatturinn gengur í gildi. Og það vofir meira að segja yfir að veitingahús verði frá næstu áramótum krafin um hærri virðisaukaskatt af matarsölu en verslanir sem selja unna matvöru og væri æskilegt að hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því hvernig þar verður að verki staðið.
    Margir hafa sýnt í verki trú sína á framtíðarmöguleikum ferðaþjónustunnar og lagt á sig ærið erfiði til að byggja upp aðstöðu í því skyni. Á liðnum árum og áratugum hafa íslenskir bændur verið í fararbroddi þó væntanlega sé það ekki af þeim sökum sem stjórnarflokkarnir náðu samstöðu um þessa ákvörðun sem bæði hindrar komu útlendinga hingað og hvetur til utanfara Íslendinga. Ef til vill er þetta fordæmi sótt til Svía sem gerðu þetta fyrir fáum árum að leggja aukinn skatt á ferðaþjónustu með hrapallegum afleiðingum fyrir þarlenda ferðaþjónustu og eru þeir nú að hverfa frá villu síns vegar. Vonandi verða afleiðingarnar ekki eins alvarlegar hér og þær reyndust Svíum og enn þá er e.t.v. von um að ríkisstjórnin sjái villu síns vegar.
    Þannig væri lengi hægt að halda áfram að telja upp þau axarsköft ríkisstjórnarinnar sem leggja grunninn að þessu dapurlega fjárlagafrv. Því miður virðist ríkisstjórnin harla lítið hafa lært af þeim og heldur áfram að vega í sama knérunn.
    Við framsóknarmenn höfum oft bent á þá augljósu staðreynd að það eru framleiðsluatvinnuvegirnir umhverfis landið sem standa undir afkomu þjóðarbúsins alls og þar með einnig íbúa höfuðborgarinnar. Samdráttur hjá þessum atvinnuvegum muni því fljótlega bitna á öllum landsmönnum. Því miður er þetta nú að koma í ljós með vaxandi atvinnuleysi hér á höfuðborgarsvæðinu og fleiri dökkar blikur eru á lofti. Húseigendafélagið hefur ákveðið að boða til umræðufundar um verðhrun fasteigna. Slíkt þekkja að vísu þeir sem hafa búið við þær aðstæður víðs vegar á landinu að undirstöður atvinnulífsins þar hafa brostið en það hefur verið óþekkt hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er því eðlilegt að þessi staðreynd komi í opna skjöldu ekki síst þeim sem trúa á kenningu úr frægum sjónvarpsþætti, reyndar af endemum, á sl. sumri þar sem fram kom sú skoðun að það væru hagfræðingarnir sem sköpuðu verðmætin. En þrátt fyrir það að afleiðingarnar af samdrætti atvinnulífsins á landsbyggðinni bitni nú með vaxandi þunga á landsmönnum öllum þá sjást þess ekki merki að ríkisstjórnin vilji bregðast við þeim vanda með tillögum fjárlagafrv. um framlög til Byggðastofnunar.
    Hæstv. forsrh. hóf harða hríð að Byggðastofnun í upphafi stjórnarferils síns og þeim atlögum var fylgt eftir með samdrætti í fjárveitingum og reglugerð sem batt mjög hendur stjórnanda Byggðastofnunar til góðra verka. Hefur þetta skýrt komið fram í orðum formanns Byggðastofnunar, hv. 1. þm. Vestf. Þeim mun alvarlegra er þetta þar sem mjög þrengir nú að undirstöðuatvinnuvegum okkar, sjávarútvegi og landbúnaði. Þörfin er því brýn að byggja upp á nýjum sviðum og að rétt sé fram til þess örvandi hönd. Það ætti að segja öllum sem um það vilja vita sína sögu að samdráttur í þeim verkefnum sem nú eru færð í fjárlagafrv. undir landbrn. nemur 4,5 milljörðum kr. eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. Eru það 40% miðað við töluna í frv. Mikill hluti þeirrar upphæðar er samkvæmt búvörusamningnum sem bændur gerðu við ríkið og sýnir hversu gífurlegar byrðar bændur taka nú á sig. Annað gengur þar í þveröfuga átt við þann samning. Þar má nefna atriði sem valda óviðunandi mismunun vegna þess að nú er ákveðið með þessu fjárlagafrv. að þá falli algjörlega niður framlög til jarðræktarframlaga en undir þau falla vatnsveitur á lögbýlum. Þar með fá bændur engan stuðning við vatnsveitur á sama tíma og vatnsveitur sem gerðar eru í nafni sveitarfélags fá framlög frá Jöfnunarsjóði. Hér er því eitt dæmi um óviðunandi mismunun. Einnig má nefna að framlög til skógræktar og landgræðslu eru skorin niður frá núgildandi fjárlögum og gengur það þvert á þau fyrirheit sem bændum voru gefin með búvörusamningnum og þvert á það sem virðist vera almenn skoðun og vilji í þjóðfélaginu. A.m.k. virðast allir sammála um að gróðureyðingu þurfi að stöðva en þar er nú sérstök vá fyrir dyrum.
    Nú er að koma í ljós að gífurlegt sandfok úr farvegi Skaftár vegna jökulhlaupanna á undanförnum árum er að verða að óviðráðanlegu vandamáli eða lítt viðráðanlegu. Framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs, Þóroddur Þóroddsson, orðaði það svo eftir skoðun á aðstæðum á liðnu sumri að þar væri um að ræða náttúruhamfarir sem væru sambærilegar við eldgos. Vissulega er erfitt að ráða við náttúruöflin þegar þau eru í slíkum ham en sérfræðingar eru sammála um að ýmislegt sé hægt að gera til að draga úr afleiðingunum. Verði það ekki reynt nú þegar, að stemma stigu við þeim, þá verði kostnaðurinn margfaldur að fáum árum liðnum, enda muni sandurinn þá hafa fært í kaf mikið af grónu landi, einnig sérstæða náttúru eins og Lakagíga og jafnvel ógna byggð og samgöngum. En við gerð fjárlagafrv. virðist ekki tekið tillit til ábendinga Landgræðslu vegna þessa yfirþyrmandi vanda og honum þar með velt með margföldum þunga yfir á framtíðina.
    En þrátt fyrir að þannig sé víða að verki staðið í þessu fjárlagafrv., þá er það lagt fram með 10 milljarða kr. halla. Það er víst öllum ljóst hversu mikil fjarstæða sjálfstæðismönnum hefði fundist það ef við framsóknarmenn hefðum haft hugmyndaflug til að segja það fyrir síðustu kosningar að eftir tveggja ára setu í ríkisstjórn mundi Sjálfstfl. leggja fram slíkt fjárlagafrv. En tölurnar í þessu frv. segja því miður ekki alla söguna, við meðferð Alþingis á frv. mun það koma betur í ljós. Ég vil aðeins nefna eitt dæmi. Hæstv. dómsmrh. hefur boðað mikinn sparnað í útgjöldum ráðuneytisins með fækkun sýslumannsembætta og hefur sá skrifborðsvinnusparnaður verið tekinn inn í frv. Á meðal þess sem þar á að gera er að leggja niður sýslumannsembætti í Vestur-Skaftafellssýslu og færa þau undir sýslumann á Hvolsvelli. Eitt stærsta verkefni þessara embætta er löggæsla og í fjárlagafrv. er nú lagt til að veita 18,5 millj. kr. til löggæslu í báðum þessum sýslum. Í fjárlögum á yfirstandandi ári fær sýslumaðurinn á Hvolsvelli 17,2 millj. Það eru því aðeins ætlaðar 1.300 þús. kr. til viðbótar til að sinna löggæslu í núverandi Vestur-Skaftafellssýslu. En allir sem til þekkja vita að löggæsla verður ekki ódýrari ef henni á að sinna allri frá einum stað á Hvolsvelli. Jafnframt má benda á að hún hefur að undanförnu verið í algjöru lágmarki í Vestur-Skaftafellssýslu þar sem flestir íbúar hafa verið að baki fastráðnum lögregluþjóni.
    Hæstv. dómsmrh. hefur lýst því yfir á fundum með sveitarstjórnum í Vestur-Skaftafellssýslu að úr löggæslunni eigi samt alls ekki að draga. Hér er því um algerlega óraunhæfa tölu að ræða og þarf að hækka hana a.m.k. um 28% til þess að uppfylla það sem hæstv. dómsmrh. segir, að ekki eigi að draga úr löggæslunni. Því má svo bæta við að með hinni breyttu skipan er íbúum héraðsins ætlað að sækja þjónustu allt að 200 km vegalengd sem er sambærilegt við það að Reykvíkingar ættu að sækja sína þjónustu austur í Vík í Mýrdal eða norður fyrir Holtavörðuheiði. Og fyrir þetta fámenna byggðarlag hefur þetta sambærileg áhrif og að 500 stöður ríkisstarfsmanna væru lagðar niður hér í Reykjavík. Það er því spurning, hvort þannig er í framkvæmd tillaga um stefnu í byggðamálum sem Byggðastofnun sendi til hæstv. forsrh. á sl. sumri þar sem segir að ekki eigi að draga úr opinberri þjónustu.
    Hv. 3. þm. Reykn. hafði reyndar harðari orð um málatilbúnað hæstv. dómsmrh. en ég hafði látið mér detta í hug að stjórnarþingmaður mundi gera. Ef allir hv. stjórnarþingmenn héldu áfram að taka hér til máls og gerðu það á svipuðum nótum og hann og fleiri stjórnarþingmenn hafa gert, þá stæði harla lítið eftir af þessu stjfrv. En það eru ekki aðeins þingmenn stjórnarliðsins sem sýna lítinn stuðning við frv. Það er áberandi hversu þunnskipaður bekkur ráðherra er og nú situr hér aðeins hæstv. fjmrh. einn. ( Fjmrh.: Það er nú allnokkuð.) Já, vissulega er það rétt hjá hæstv. fjmrh., það er allnokkuð, enda er þetta hans frv. En mér finnst að það væri samt lágmark hjá fleiri hæstv. ráðherrum að vera hér vegna þess að til þeirra hefur verið beint ýmsum spurningum sem komið hefur í ljós að a.m.k. hv. stjórnarþingmenn vita engin svör við og ég veit ekki hversu auðvelt hæstv. fjmrh. á með að veita svör við þeim öllum. En það á eftir að koma í ljós hér á eftir.
    Það hafa einkum verið bornar fram spurningar til hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. félmrh. Ég ætla að bæta þar við einni spurningu og láta á það reyna hvort hæstv. fjmrh. getur svarað því en ég ætlaði að beina henni til hæstv. félmrh. eða staðgengils hennar, sem hér hefur nú verið öðru hvoru fram undir þetta. Hún er um það hvernig viðræður um húsaleigubæturnar standa núna, en húsaleigubæturnar voru eitt af þeim málum sem hæstv. félmrh. gerði fyrirvara um við samþykkt fjárlagafrv. Niðurstaðan var sú að hennar tillögur voru samþykktar í þingflokki Alþfl., að því er sagt var, og þar með virtist hæstv. utanrrh. hafa breytt sinni afstöðu eins og hún hafði komið fram á ríkisstjórnarfundi. Hins vegar var sagt að þá væri eftir að semja um málið við samstarfsflokkinn, Sjálfstfl. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh.: Eru þeir samningar til lykta leiddir eða hvernig standa þeir?
    Ég tók hér aðeins eitt dæmi um það hversu vanáætlaðar tölur fjárlagafrv. eru og ég ætla ekki að tefja tímann með því að nefna þar fleiri tölur. En þessi eina tala sýnir skýrt á hvaða brauðfótum fjárlagagerðin er og nauðsynlegt að skoða hvern einasta lið rækilega við umfjöllun Alþingis á frv. Og þá er spurningin: Hversu dýr verður Hafliði allur? Hvað verða leiðréttingarnar miklar úr því að hægt er að benda á tuga prósentu skekkju á einum smáum lið?
    Þegar allshn. fær gjaldahliðina í fjárlagafrv. sem varðar dómsmrn. til meðferðar mun ég fara fram á það að fulltrúum héraðsnefnda á þeim svæðum þar sem á að leggja niður sýslumannsembætti verði gefinn kostur á að koma á fund nefndarinnar til að skýra mál sitt. En vegna spurninga sem hv. 18. þm. Reykv. bar hér fram um gildi starf fagnefnda og hvaða áhrif það hefði á gerð fjárlagafrv., þá vil ég taka undir það að mér virðist að þau áhrif hafi orðið of lítil, enda því miður oft verið orðin tímaþröng. Þær fréttir bárust stundum frá fjárveitinganefnd að þessi álit fagnefndanna hefðu ekki öll verið lesin upp. Ég held því að fagnefndirnar þyrftu að fylgja þessu betur eftir og fá tækifæri til að skýra sín viðhorf á fundum hjá fjárln. Vildi ég beina þessari ábendingu til hv. formanns hennar sem hér er enn staddur.
    Ég mun hér láta staðar numið að þessu sinni að fjalla um þetta fjárlagafrv., enda gefst kostur á því síðar þegar nánari athugun hefur farið fram. En óhætt er að segja að þetta fjárlagafrv. er þyngri áfellisdómur ríkisstjórnarinnar á hennar eigin stjórnarstefnu en nokkurn gat órað fyrir að hún mundi fella yfir sjálfri sér, enda umkomuleysi þessa frv. í umræðunni hér algert.
    Hæstv. fjmrh. hefur áreiðanlega gert sitt besta til að þurfa ekki að láta það líta svona út. En við

það getur hæstv. fjmrh. ekki ráðið á meðan haldið er óbreyttri stjórnarstefnu. Því miður gefur boðskapur hæstv. forsrh. í stefnuræðu hans, þar sem hann taldi að flest horfði nú til betri vegar, ekki tilefni til að hægt sé að vona að breytingar til bóta á stefnunni séu í nánd, þar sem hann telur að reynslan hafi sannað svo ágæti hennar. Þegar glundroðinn og ásakanirnar milli ráðherra í ríkisstjórninni hafa keyrt úr hófi á undanförnum vikum og mánuðum hefur hæstv. forsrh. reynt að afsaka það með því að sum þessi orð ráðherra séu í gamni sögð. Það var líka svo hjá Goðmundi á Glæsivöllum að gleði var í höll, enda mungátið áfengt og óminnishegrinn undir niðri í stiklunum þrumdi. Og þótt á Glæsivöllum aldrei með ýtum væri fátt og allt kátt og dátt, þá var bróðernið flátt mjög og gamanið grátt þar sem í góðsemi vógu menn hver annan. Frá öllum þessum ósköpum slapp Grímur Thomsen kalinn á hjarta. En hversu helfrosið verður íslenska þjóðfélagið þegar það sleppur undan hinu harða hnútukasti núv. hæstv. ríkisstjórnar?