Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:23:50 (264)


[15:23]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er reyndar svo að málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri eru enn í umfjöllun. Það fyrirtæki var svo illa komið þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum að þessi hlutafjáraukning og endurskipulagning á því fyrirtæki, sem ekki veitti nú af, bar ekki tilætlaðan árangur. Það þarf að koma meira til. En ég vil aðeins geta þess að þetta er að sjálfsögðu afleiðing þess að fyrirtækið var svo illa komið þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar skildi við að það hefur ekki einu sinni nægt það mikla hlutafjárframlag sem hefur farið inn í þetta fyrirtæki.
    Önnur fyrirtæki eru einnig í skoðun. Það er verið að ganga í þessi mál núna, það hefur tekið dálítinn tíma og ég reikna með að það taki enn nokkurn tíma. Það verður gert af fullri einurð og ég hef enn þá fulla trú á því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar muni sinna þessu verkefni með eðlilegum hætti og geri þá kröfu til þeirrar ríkisstjórnar.
    Mér finnst að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geti tæplega talað eins digurbarkalega hér í ræðustóli eins og hann gerði, miðað við það hvernig fyrri ríkisstjórn skildi við málefni atvinnulífsins á Akureyri.