Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:16:39 (280)


[12:16]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skildi ræðu hv. 3. þm. Vesturl. og ég trúi því að hann mæli hér fyrir hönd síns flokks Alþb., að hann og flokkur hans muni styðja þetta frv. Hann segir að hann sé ekki ánægður með frv. Ég skil það samt ekki svo að hann sé óánægður með að það sé verið að lækka verðlag á matvælum í landinu eða greiða niður verðlag á matvælum í landinu og að reyna að styrkja atvinnulífið með greiðslum úr ríkissjóði. Hv. þm. hlýtur að vita það að til þess að slíkt megi gera þá verði að afla til þess einhverra tekna. ( SJS: Með heilsukortum.) Þess vegna spurði ég hann annarrar spurningar í mínu fyrra andsvari, hvernig ætti að afla tekna til ríkissjóðs ef ekki má spara og ekki afla tekna með því að leggja álögur á fólkið í landinu. Ríkissjóður er ekkert annað en almenningur í landinu. Þetta eru ekki einhverjir peningar sem koma einhvers staðar annars staðar að. Ég var að spyrja hv. þm. um hvort hann vildi halda áfram að afla þessara peninga í útlöndum og á lánsfjármarkaði innan lands með lántöku og stofna þar með enn frekar sjálfstæði þessarar þjóðar okkar í hættu en orðið er. Ég gef þess vegna hv. þm. tækifæri á að svara þessari spurningu minni sérstaklega vegna þess að þetta er spurningin sem skiptir kannski veigamestu máli. Já, með heilsukortum já. Það er ein leið til að verja velferðarkerfið. Og ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mun styðja það þegar hann skilur að það er betra að verja kerfið heldur en að rústa því með lántökum, með erlendum lánum þegar kemur síðan að skuldadögum. ( SJS: Koma ekki skólakort næst?)