Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:56:21 (521)

[13:56]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um almannatryggingar. Frv. er lagt fram að mestu óbreytt frá því sem var þegar það var lagt fram á síðasta þingi. ( GHelg: Hversu lengi á þessi fundur að standa?) ( Forseti: Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hversu lengi fundurinn á að standa en gert er ráð fyrir að reyna að ljúka þeim málum sem eru á dagskrá. Það verður að sjá til þegar fram líður en ekki er ráðgert að hann standi langt fram eftir degi. Nákvæm tímasetning hefur ekki verið ákveðin.)
    Gildandi lög um almannatryggingar, nr. 67/1971, gengu í gildi 1. janúar 1972. Lögunum hefur á liðnum áratugum verið breytt rúmlega 60 sinnum. Þrátt fyrir það að ýmsar þessar breytingar hafi verið allumfangsmiklar hafa lögin aldrei verið endurútgefin á þessu tímabili.
    Í byrjun ársins 1992 var ákveðið í heilbr.- og trmrn. að nauðsynlegt væri að útbúa endurútgáfu laga um almannatryggingar. Fljótlega kom hins vegar í ljós að við síendurteknar breytingar höfðu eyður myndast í lögin og jafnvel hafði númeraröð greina raskast. Niðurstaðan varð því sú að nauðsynlegt væri að fella lögin saman og leggja þau þannig fyrir Alþingi ásamt þeim breytingum sem gera þyrfti á þeim vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Frv. það sem hér liggur frammi er því annars vegar samfelling laganna og hins vegar nauðsynlegar breytingar á almannatryggingalögum vegna EES-samningsins. Öðrum breytingum hefur verið haldið í lágmarki. Þó hafa ýmis ákvæði laganna sem í raun voru orðin úrelt vegna eldri breytinga verið felld niður. Þá hefur orðalag nokkurra ákvæða verið aðlagað breyttri framkvæmd. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar vegna annarra lagabreytinga. Loks hafa verið gerðar breytingar í framhaldi af ábendingum tveggja starfshópa. Annars vegar hefur verið breytt orðalagi ákvæðis til bráðabirgða varðandi öryrkjavinnu í samræmi við ábendingar starfshóps um öryrkjavinnu. Hins vegar hafa nokkrar breytingar verið gerðar á ákvæðum um svokallaða sjúklingatryggingu almannatrygginga að fengnum tillögum vinnuhóps sem skoðaði reynsluna af framkvæmd þessara ákvæða.
    Þá hefur og endurkröfuheimild almannatrygginga verið felld niður í samræmi við ákvæði skaðabótalaga, nr. 50/1993, sem gengu í gildi þann 1. júlí sl.
    Í athugasemdum við einstakar greinar frv. er gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á viðkomandi ákvæði.
    Ég tel rétt að víkja stuttlega að meginreglum Evrópubandalagsins á sviði almannatrygginga sem jafnframt verða meginreglur hins Evrópska efnahagssvæðis á þessu sviði. Reglurnar stefna ekki að því að koma á sameiginlegu almannatryggingakerfi í aðildarríkjunum. Þeim er á hinn bóginn ætlað að tryggja samspil almannatryggingalöggjafar aðildarríkjanna. Meginreglurnar koma ekki í veg fyrir að reglur aðildarríkja á sviði almannatrygginga séu ólíkar bæði að formi og efni þannig að réttindi launþega og sjálfstæðra atvinnurekenda geti verið mismunandi eftir því hvar þeir starfa.
    Meginreglur EB um almannatrygginga hvíla á fjórum meginstoðum:
    1. Jafnræðisreglan tryggir að launamenn og einstaklingar sem starfa sjálfstætt skulu að því er varðar aðgang þeirra að almannatryggingabótum og greiðslu þeirra standa jafnfætis ríkisborgurum viðkomandi Evrópubandalagsríkis.
    2. Samlagningarreglan tryggir að launamenn og einstaklingar sem starfa sjálfstætt missa í engu áunnin réttindi eða réttindi sem þeir eru um það bil að ávinna sér þó svo þeir flytjist til eða hefji störf í öðru aðildarríki.
    3. Útflutningsreglan tryggir að bótaþegi fær áunnin réttindi án tillits til þess hvort hann búi í landinu þar sem réttindin eru áunnin eða ekki.
    4. Hlutfallsreglan sem tryggir bótaþega hlutfallsgreiðslu ef hann vegna breytingar á vinnustað hefur ekki náð því að vinna sér inn nægileg réttindi til að tryggja fullar bætur.
    Með samningi um Evrópska efnahagssvæðið hafa EFTA-löndin ákveðið að hlíta reglum EB á sviði almannatrygginga. Samanburður á íslenskri löggjöf á sviði almannatrygginga og reglur EB á þessu sviði hefur leitt í ljós að íslensku lögin eru í nokkrum atriðum ósamrýmanleg. Þær breytingar sem þarf að gera á íslenskum almannatryggingalögum lúta að því að tryggja það að meginreglurnar fjórar séu virtar. Íslensk almannatryggingalög gera hvergi kröfu um íslenskt ríkisfang, þannig að það kallar ekki á breytingu. Hins vegar þarf að taka af öll tvímæli um að það sé ekki háð heimild tryggingaráðs að aðrar bætur almannatrygginga en grunnlífeyrir séu greiddar úr landi. Þá þarf að bæta inn í lög um almannatryggingar ákvæði um að almannatryggingabætur annars staðar frá dragist frá almannatryggingabótum hér á landi. Ákvæði af þessu tagi á að tryggja það að bótaþegi fái aldrei bætur oftar en einu sinni fyrir sama tryggingatímabilið. Ákvæðið er mikilvægt vegna þess að tryggingakerfi EES-ríkjanna byggist ýmist á búsetu eða vinnu og því ekki óhugsandi að einstaklingur geti áunnið sér tvöfaldan rétt.
    Ein helsta breytingin á almannatryggingalögum hér á landi vegna reglna EB á sviði almannatrygginga er sú að tryggja þarf að í ákvæðum laga um almannatryggingar séu engin ákvæði um bætur sem í raun eru bætur af félagslegum toga. Eins og fyrr hefur verið rakið verður að flytja bætur almannatrygginga á milli landa í samræmi við þann rétt sem hlutaðeigandi hefur áunnið sér í landinu. Þar sem kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi er skammt á veg komið, hefur verið gripið til þess ráðs í gegnum tíðina að setja inn í almannatryggingalög ýmis ákvæði um aðstoð sem bera frekar keim félagslegrar aðstoðar heldur en almannatryggingar. Í frv. því sem hér liggur fyrir hafa öll slík ákvæði verið felld út og sett í frv. til laga um félagslega aðstoð sem er lagt fram samhliða þessu frv. og ég mun mæla fyrir hér á eftir. Með þessu móti

er tryggt að við munum ekki þurfa að flytja á milli landa þessar bætur því að bætur félagslegrar aðstoðar er ekki skylda að flytja á milli landa líkt og bætur almannatrygginga.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu ástæður þess að hér er lagt fram nýtt frv. til laga um almannatryggingar. Frv. telst til svokallaðra EES-frumvarpa. Það er því nauðsynlegt að frv. verði afgreitt á þessu þingi.
    Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar og meðferðar í hv. heilbr.- og trn.