Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:15:26 (796)


[14:15]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get nú ekki sagt að ræða hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi gert þetta mál mikið skýrara í mínum huga. Sannleikurinn er sá að hv. þm. talaði hér áfram mjög óljóst. Hann greindi okkur frá ákveðnum hugleiðingum sínum um líklega niðurstöðu af þeim kosningum sem fara fram eftir rúmar þrjár vikur. Það var allt saman fróðlegt að heyra. Hann greindi okkur frá því að þetta þyrfti að vera hluti af einhverri valddreifingu, stærri breytingu á stjórnsýslunni og einhvers konar útfærsla á þriðja stjórnsýslustiginu. Þetta hefur ekki skýrt málið í mínum huga, því miður. Það er auðvitað rétt ábending og athugasemd hjá honum að þau byggðasamlög sem við höfum í dag eru einhvers konar vísir að þriðja stjórnsýslustiginu. En ég hef a.m.k. skilið það svo að með þeim breytingum sem menn vilja gera núna á skipan sveitarstjórnarstigsins, með því að flytja þangað aukin verkefni, með því að stækka sveitarfélögin, þá séu menn í raun og veru að gera óþarfan þennan vísi að þriðja stjórnsýslustiginu. Mér finnst að umræðan hafi nú við þessi andsvör hv. 1. flm. málsins orðið mun óvissari og ómarkvissari og vekur a.m.k. ekki með manni þær hugmyndir að það sé ætlunin að gera þessar breytingar raunverulegar fyrr en þá einhvern tíma í óvissu framtíðarinnar.