Átak gegn einelti

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:43:00 (905)


[15:43]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þm. þá ályktaði Alþingi um átak gegn einelti árið 1990. Í tilefni þessarar fyrirspurnar hef ég athugað hvernig þingsályktuninni hefur verið fylgt eftir. Í ljós kom að viðræður höfðu átt sér stað milli menntmrn. og félmrn. um efni þáltill. og á grundvelli þeirra viðræðna liggja fyrir tillögur um skipan starfshóps sem falið skyldi að fjalla um aðgerðir gegn einelti meðal barna og unglinga. Þessum starfshópi var ekki ætlað að gera neina tæmandi úttekt á stöðu mála með könnun eða ítarlegum skýrsluskrifum heldur fyrst og fremst að benda á leiðir til aðgerða og úrbóta. Ég sé ekki að þessari ályktun hafi verið fylgt eftir að öðru leyti af hálfu ráðuneytisins.
    Tíðni og umfang eineltis hefur hins vegar verið athuguð í nokkrum skólum á landinu. Flestar slíkar athuganir hafa farið fram í Reykjanesumdæmi á vegum skólasálfræðinga við fræðsluskrifstofu eða á vegum skólasálfræðinga sem starfa á vegum einstakra bæjarfélaga. Einnig var nýlega gerð athugun á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur í nokkrum skólum, en niðurstöður hafa ekki enn verið gerðar opinberar. Á grundvelli þessara rannsókna hefur verið brugðist við einelti á tvenns konar hátt og hefur báðum aðferðum verið beitt samtímis. Annars vegar með einstaklingsviðtölum, bæði við foringjahóp sem staðið hefur að einelti, svo og fórnarlömb eineltis. Hins vegar hefur verið brugðist við með almennri fræðslu í viðkomandi skóla eða umdæmi. Fræðslan nær til nemenda og forráðamanna þeirra, svo og starfsfólks skóla.
    Nýleg rannsókn á áhrifum aðgerða gegn einelti hér á landi bendir til að hægt sé að hafa veruleg

áhrif á tíðni þess, a.m.k. til skemmri tíma. Rannsóknin var gerð í meðalstórum grunnskóla í Kópavogi. Þrjár athuganir voru gerðar á tíðni eineltis í skólanum og var aðgerðum gegn einelti beitt strax eftir fyrstu könnunina. Strax eftir að aðgerðum lauk var gerð könnun til að meta skammtímaárangur og var þriðja könnunin gerð ári síðar til að meta langtímaáhrif.
    Fyrstu vikurnar eftir eineltisaðgerðir dró mjög úr öllum tegundum eineltis. Þegar frá leið sótti hins vegar aftur í fyrra horf. Ári síðar var tíðni eineltis í skólanum orðið svipuð því sem verið hafði fyrir átakið að því undanskildu að minna var um barsmíðar. Samkvæmt þessum niðurstöðum má því ætla að takmarkað gagn sé af einstökum aðgerðum og farsælla að vinna markvisst jafnt og þétt yfir skólaárið. Slíkt er hægt að gera með því að útbúa fræðsluefni fyrir skóla, bæði kennsluefni og leiðbeiningar um forvarnir og viðbrögð. Í því sambandi vil ég geta þess að Námsgagnastofnun hefur í samvinnu við Rauða kross Íslands og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur unnið að gerð myndbands þar sem fjallað er um einelti. Myndbandið er bæði ætlað kennurum og nemendum. Þá hafa sömu aðilar gert skyggnuröð um sama efni. Mér er tjáð að þetta myndband verði tilbúið á næsta ári.
    Að öðru leyti vil ég aðeins segja að ég mun athuga sérstaklega hvernig unnt er að vinna að þessu máli frekar af hálfu ráðuneytisins.