Leigutekjur af embættisbústöðum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:03:38 (934)


[17:03]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög greinargóð svör við þessum spurningum. Ég held að það sem þetta mál snúist ekki síst um sé að reynt hefur verið að samræma þessi leigukjör. Ég nefndi það áðan að það væri mjög nauðsynlegt að þessir embættisbústaðir væru til staðar, af ástæðum sem ég rakti, en það sem hefur náttúrlega skort á er tiltekið samræmi í leigukjörunum milli einstakra staða og einstakra bústaða.
    Ég lít þannig á, án þess að hafa haft aðstöðu til þess að kynna mér það til hlítar, að af svari hæstv. fjmrh. megi ráða það að hér hafi verið reynt að gæta samræmis milli einstakra starfshópa.
    Það er auðvitað ljóst, eins og hér hefur komið fram, að þessir embættisbústaðir hafa verið hluti af starfskjörum einstakra stétta og starfshópa og ekkert nema eðlilegt um það mál að segja og sjálfsagt að þau mál séu m.a. skoðuð í því ljósi. En það breytir hins vegar ekki því að þessi afgjöld og þessi leiga hefur verið með ýmsum hætti og þess vegna hefur verið ástæða til þess að endurskoða það.
    Það sem hefur líka gert þetta mál dálítið slæmt er að þessar húseignir ríkisins hafa verið, eins og fram hefur komið, í mjög misjafnlegu ástandi og sums staðar svo hraklegu að það hefur verið til stórrar skammar fyrir eiganda húsnæðisins, þ.e. ríkið hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Sem betur fer var nokkurt átak gert núna á þessu ári að bæta viðhald og ástand ýmissa húseigna ríkisins og ég vænti þess að það verði svo, eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh., að hinar auknu leigutekjur af þessum embættisbústöðum verði notaðar til þess að bæta þetta húsnæði þannig að sómi sé að, bæði fyrir eigendurna og líka þá sem búa í þessum húsum.