Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:36:09 (986)

[16:36]

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er flutt eins og segir í greinargerð vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað við stjórn menningarstofnana á undanförnum missirum. Það mætti nú ætla af upphafsorðum greinarinnar að eitthvað skelfilegt hefði gerst og það er samviskusamlega rakið í greinargerðinni. Fyrst er þar rakinn sá atburður eins og það heitir þegar ég sem menntmrh. réð þjóðminjavörð til tveggja ára og eins og segir í greinargerð með, leyfi forseta ,,án alls samráðs við starfsmenn safnsins``, já og gekk jafnvel á svig við lög þar sem safnstjóri átti lögum samkvæmt að taka við starfi þjóðminjavarðar. Minna mátti það nú ekki vera.
    Ég vísa þessu á bug og hef raunar gert það áður í utandagskrárumræðu sem hv. flm. þessa frv. hóf hér á síðasta þingi, nánar tiltekið þann 13. apríl og ég vona að ég þurfi ekki að endurtaka það sem ég sagði þá þar sem ég hrakti þessi sömu ummæli að ég hefði gengið á svig við lög eða mér hefði verið á einhvern hátt skylt að bera mig saman við starfsmenn safnsins áður en ég tók mína ákvörðun um ráðningu Guðmundar Magnússonar til tveggja ára.
    Það er nú eiginlega svo að það er kannski meira efni til þess að tala um greinargerðina heldur en frv. sjálft vegna þess að mér finnst hún dálítið sérstök. Þar segir t.d. nokkru neðar í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Þá er augljóst að lögum um Ríkisútvarpið þarf að breyta. Fráleitt er að ráðherra geti hlutast til um ráðningar einstakra starfsmanna útvarpsins með þeim hætti sem núv. menntmrh. hefur gert í blóra við aðra starfsmenn stofnunarinnar.``
    Það er sem sagt önnur ástæðan fyrir flutningi þessa frv. að ég hafi hlutast til um ráðningu einstakra starfsmanna Ríkisútvarpsins í blóra við aðra starfsmenn stofnunarinnar. Ég er að reyna að ráða í það hvað hérna er verið að segja. Mér sýnist það vera að ég hefði átt að spyrja starfsmenn Ríkisútvarpsins hvern ég mætti setja í tímabundið starf sem ráðherra á samkvæmt embættisskyldu sinni að ráða í. Hjá Ríkisútvarpinu er það nú svo að ráðherra ræður aðeins í æðstu stöðurnar, útvarpsstjóra og framkvæmdastjórana, og ég skil satt að segja ekki ef í raun og veru er til þess ætlast að ráðherra beri það undir starfsmenn viðkomandi stofnunar áður en hann tekur sína ákvörðun. Ég er að velta fyrir mér hverjar séu þá skyldur útvarpsstjórans sem ræður hina 380 starfsmennina eða hvað þeir eru margir nákvæmlega, hvort það eigi að leggja sömu skyldur á hann, að hann beri sig saman við starfsmenn útvarpsins áður en hann gengur frá ráðningu nýrra manna. Það væri út af fyrir sig þá samræmi í því, en ég held að þetta geti ekki gengið.
    Hv. flm. vísar til þeirra breytinga sem gerð var á lögum um Háskóla Íslands og það kom fram í ræðu hans hér áðan þar sem allt vald var í raun og veru tekið úr höndum ráðherra og fært til háskólans, til dómnefnda og atkvæðagreiðslu í hinum einstöku deildum háskólans. Mér hefur skilst að þetta hafi verið gert og það sama er andinn í þessu frv., fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir að pólitík gæti komist í málið eða ráðið frama manna við háskólann.
    Við erum eflaust sammála um það, ég og hv. flm. og vonandi þingmenn almennt, að það beri að efla sjálfstæði háskólans sem mest. En menn mega ekki halda að öll pólitík sé útilokuð ef veitingavaldð er eingöngu tekið úr hendi ráðherrans. Pólitík þekkist nú víðar heldur en bara hjá ráðherrunum eða þingmönnunum. Þetta var um greinargerðina og ég hef svo sem ekki mikið meira um hana að segja.
    Um frv. sjálft segi ég aðeins það að mér finnst það vera tímaskekkja að koma með þetta mál inn í þingið núna. Í fyrsta lagi vegna þess að nú er unnið að samningu frv. um þjóðbókasafn sem við getum kallað svo, er nú á vinnslustigi vegna þess að sameining Háskólabókasafns og Landsbókasafns er á næsta leiti. Það mál verður að koma fyrir þetta þing sem nú situr og ég geri fastlega ráð fyrir að geta lagt fram frv. um hið nýja þjóðbókasafn jafnvel nú fyrir jól og það er mjög æskilegt að það fái afgreiðslu á þessu þingi vegna þess að við gerum ráð fyrir að hið nýja safn flytji í hið nýja hús fyrir árslok 1994. Ég vil aðeins skjóta því hér inn að það er unnið að þessari nýju löggjöf eða frv. til nýrra laga. Þar eru ýmsir góðir menn að verki og þær hugmyndir sem þeir hafa sett fram um stjórn þessa nýja safns eru mjög á annan veg, hníga í allt aðra átt en hér er lagt til án þess að ég geti farið að greina frá því í smáatriðum hér núna hvað þar er hugsað. Þess vegna finnst mér að breyting á lögum um Landsbókasafn sé ekki á réttum tíma hér í þinginu núna.
    Það er líka unnið að endurskoðun þjóðminjalaga og væntanlegt frv. á þessu þingi. Það var kynnt í stefnuræðu forsrh. að það væri ætlunin og að því máli er einnig unnið núna. Þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir sömu skipan um ráðningu forstöðumanna Landsbókasafns, Þjóðskjalasafns og Þjóðminjasafns, þ.e. í stuttu máli sagt að veitingavaldið verði í raun tekið af ráðherra og falið þriggja manna dómnefndum skipuðum með tilteknum hætti og ráðherra bundinn við álit þeirra. Ég tel þetta ekki skynsamlega leið. En mér finnst hins vegar mætavel koma til greina að settar verði á laggirnar dómnefndir í sambandi við umsóknir um þessar stöður og dómnefndarálit gæti orðið ráðherra til leiðbeiningar um ráðstöfun þessara embætta til hæfra umsækjenda. Ég tek fram að mér þykir það mjög koma til greina og alveg á sama hátt finnst mér koma til greina og raunar sjálfsagt að tímabinda ráðningar þessara embættismanna. Að því leyti eru við sammála, ég og hv. flm.
    Ég tel heldur ekki rétt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að ráðherraskipaður forstöðumaður, jafnvel þótt ráðherrann hafi ekki valið hann heldur aðeins innsiglað það sem dómnefnd hefur ákveðið, velji sér sjálfur staðgengil. Ég tel eðlilegt að það sé þá það sama viðhaft varðandi staðgengilinn og ráðherra

ákveði hann. Ráðherra hlýtur að gera þetta.
    Hv. flm. sagði að þótt hann teldi að það sama ætti að gilda um útvarpsstjóra og þjóðleikhússtjóra, þá hefði hann ekki flutt frv. til breytinga á þeim lögum vegna þess að þjóðleikhússtjóri væri ráðinn til fjögurra ára nú, sem er rétt, og svo vegna þess að útvarpslög væru í endurskoðun sem er alveg rétt, en þá er sama röksemdin sem gildir varðandi Landsbókasafnið og þjóðminjalögin. Þau eru bæði í endurskoðun eins og ég hef hér rakið en má vera að það hafi ekki verið hv. flm. alveg ljóst.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður neitt frekar. Á máli mínu má skilja að mér finnst ekki rétt að samþykkja þetta frv. en ég hef hins vegar ekkert á móti því að það fari til hv. menntmn. eins og hv. flm. leggur til og nefndin geti rætt þessar hugmyndir í samhengi þá við þau frumvörp sem eru væntanleg og snúast um þessar sömu stofnanir.