Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:20:14 (1668)



[15:20]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þau vinnubrögð sem hér um ræðir eru á ábyrgð heilbrrn. og heilbrrh. og það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að hann hefur mælt svo fyrir að málið væri sent til fjölmiðla áður en það væri sent hingað til þingsins. Það er alveg útilokað að embættismannanefnd taki það upp hjá sjálfri sér að kynna þetta mál án samþykkis ráðherra, enda hefur það komið fram hér að ráðherra ber fulla ábyrgð á þessu máli og þess vegna vil ég beina til hans ráðleggingum að koma í veg fyrir frekara slys í þessu sambandi heldur en orðið er.

    Það er gert ráð fyrir miklum breytingum á rekstri og skipulagi sjúkrahúsanna. Ég þarf ekki að rekja það á þeim stutta tíma sem ég hef. Það er hreinlega gert ráð fyrir því að heilir landshlutar og þar á meðal Austurland, sem er 700 km frá norðri til suðurs, verði án sjúkrahúss með sérfræðiþjónustu. Þetta er hnefahögg framan í íbúana á Austurlandi og hefur áreiðanlega haft mikil áhrif í þeim kosningum sem fóru fram um helgina þetta frumhlaup að setja fram þessa skýrslu.
    Í þeim hluta skýrslunnar sem ég hef séð eru ýmsar óljósar fullyrðingar og niðurstöður. Ég ætla ekki að ræða efnislega um skýrsluna. Ég hef ekki fengið hana í hendur í heild og ekki farið nógu vel í gegnum hana til þess en það sem ég hef lesið af henni eru mjög miklar fullyrðingar sem eru vafasamar og óljósar og það hefur komið fram hér í þessari umræðu nú þegar.
    Ég set fram þá kröfu að þessi skýrsla verði endurskoðuð í samræmi við þær upplýsingar sem réttastar liggja fyrir um samgöngur og aðrar forsendur. Annars fer hreinlega allt í bál og brand og þær tillögur sem horfa til bóta sem gætu verið í skýrslunni verða ekki að veruleika.