Sala ríkisins á verðbréfum og spariskírteinum

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:01:06 (1706)


[17:01]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Þau voru skýr og greinargóð og þar kemur fram að talsverð sala, ég tek það fram að þar sé átt við frumsölu á bréfum, hafi farið fram þennan dag og það er að mínu mati auðvitað alveg ótrúlegt að fjmrh. skuli leyfa áfram frumsölu á spariskírteinum á miklu hærri kjörum heldur en áformað var að ná vaxtastiginu niður í strax á næstu dögum. Það kemur líka í ljós að þarna er á ferðinni munur upp á tvo tugi milljóna eða rúmlega það, en það sem er þó alvarlegast er að það eru fyrst og fremst bankar og verðbréfafyrirtæki í eigu bankanna og þar af ekki síst í eigu ríkisbankanna sem nýta sér þá aðstöðu að búa yfir vitneskju um þessa hluti greinilega og kaupa þarna í verulegum mæli í frumsölu bréf á þessum kjörum. Og það er alveg ljóst að stærstur hluti af þessum mun fer í hendur bankanna og verðbréfafyrirtækjanna. Og síðan skjóta menn sér á bak við bankaleynd þessara aðila þó að þeir séu í opinberri eigu þegar spurt er nánar um það hvernig þetta skiptist. Ég vona að hæstv. viðskrh. fái greið svör um það hvort þarna hafi átt sér stað óeðlileg innherjaviðskipti og hann leggi þær upplýsingar á borðið því að það á ekki að hlífa þessum aðilum við því að þetta komi fram.
    Ég vek athygli á því að til viðbótar þessu áttu sér stað umfangsmikil viðskipti á eftirmarkaði sem nema líklega hátt í milljarði kr. og þar er auðvitað líka á ferðinni stórkostlegur munur borið saman við ávöxtunarkröfuna eða kjörin eins og þau urðu strax á næstu dögum. Þetta er hið furðulegasta mál og verðskuldar að mínu mati að farið sé miklu betur ofan í saumana á því hverjir bera þarna ábyrgð, annars vegar fjmrh. sem leyfir söluna og hins vegar þá ríkisstjórnin sem hefur haldið illa á þessu, misst frá sér upplýsingar um þetta sem einstakir valdir aðilar hafa greinilega notfært sér með afar hæpnum hætti að mínu mati.