Framkvæmdir og rekstur á Egilsstaðaflugvelli

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:12:49 (1978)

[16:12]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 63 flytur Jónas Hallgrímsson fsp. til samgrh., um framkvæmdir og rekstur á Egilsstaðaflugvelli.
  ,,1. Hvað kostar að búa Egilsstaðaflugvöll þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að hin nýju mannvirki nýtist að fullu og hvenær er ráðgert að framkvæmdum ljúki?
    2. Hvað líður áformum um sólarhringsvakt á Egilsstaðaflugvelli?``
    Þó að nýr flugvöllur hafi verið tekinn í notkun á Egilsstöðum er ljóst að framkvæmdum og nauðsynlegum tækjakaupum er ekki enn þá lokið svo að þessi þarfa framkvæmd nýtist að fullu. Fyrir það fyrsta er brýn nauðsyn á kaupum og uppsetningu nýs aðflugshallasendis. Við núverandi aðstæður geta flugvélar í blindflugi að vellinum farið niður að 470 fetum. Ef og þegar nýr og fullkomnari sendir kemur verður þetta lágmark fært niður í 270 fet sem þýða víst ein 200 fet við brautarendann. Það er talið mjög brýnt að komið sé á 24 klukkustunda vakt í flugturni og/eða hjá slökkviliði flugvallarins, en tækjabúnað þess verður áreiðanlega að bæta og endurnýja. Koma verður á reglulegri veðurspá fyrir flugvöllinn. Um þessar mundir er 12 tíma spá, en þyrfti að vera langtímaspá.
    Auk þess að vera varaflugvöllur fyrir íslenskt millilandaflug er vitað um áhuga flugrekstraraðila í Færeyjum að nota fremur Egilsstaðaflugvöll sem varavöll fyrir Vogar heldur en Bergen í Noregi, sem nú er varaflugvöllur fyrir Færeyjar. Verður það bæði skemmri flugtími og aukin hagkvæmni. Meiri tæknivæðing og fullkomnari aðstæður eru kröfur tímans og eflaust skortir margt í þessari upptalningu svo að þessi nýi flugvöllur komi að fullum notum. Kemur mér t.d. í hug radar, en næsti landradar er á Gunnólfsvíkurfjalli, sem er í mínum huga í órafjarlægð. Þá er talað um að endurnýja þurfi tæki í flugturni, sérstaklega segulband og annað sem lýtur að daglegum rekstri og komið er til ára sinna.