Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 15:41:28 (2384)


[15:41]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því ef þarna eru samkomulagsdrög á ferð. Ég ítreka það sem ég sagði að mér þykir mjög sérkennilegt að vera að lögbinda þetta framlag sveitarfélaganna og í rauninni held ég að hér sé bara um bókhaldskúnstir að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar til að geta sýnt fram á einhvern sparnað því að hér í lokaniðurstöðum frv. eru þessar 600 millj. taldar til tekna þannig að ríkisstjórnin telur sig vera að ná inn meiri peningum, en auðvitað er þetta óskylt mál. Þarna er um framlag sveitarfélaganna að ræða en það er mjög sérkennilegt að vera að lögbinda það með þessum hætti.