Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 14:48:39 (2411)


[14:48]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem hv. þm. las upp úr greinargerðinni með fjárlagafrv. er allt saman satt og rétt en alveg eins og ætlað var á þessu ári að það framlag, 50 millj. kr. sem átti að koma vegna sölu ríkisfyrirtækja, það gerðist ekki, þá var engu að síður svo að ríkisstjórnin tryggði þetta ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs og það gerði hún með tillögu á fjáraukalögum. Á sama hátt mun það verða á næsta ári ef þetta framlag skilar sér ekki af tekjum af sölu ríkiseigna eða ríkisfyrirtækja þá verður þetta framlag engu að síður tryggt og þá á fjáraukalögum.
    Ég hafði ekki tíma til að svara öllu sem spurt var um áðan. Ég var spurður um viðhorf mitt til þál. frá því í maí 1992. Það er þegar komin fram fsp. í þinginu frá hv. þm. Svanhildi Árnadóttur og þeirri fyrirspurn verður svarað skriflega þar sem koma fram viðhorf mín til þál. og jafnframt svör við því sem hefur verið unnið í þeim efnum.