Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 14:16:21 (2676)

[14:16]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér um ræðir og ég mælti fyrir fyrr á þessu haustþingi er kannski fyrst og síðast fram sett til að glöggva bótaflokka sem hafa heyrt undir almannatryggingalög og hafa á tvennan hátt haft einkenni félagslegra bóta annars vegar og almannatryggingabóta hins vegar. Eins og fram hefur komið í framsögu formanns trn. og framsögumanns minni hluta trn. þá er hér um að ræða að skilja þar á milli.
    Í álitum meiri hluta og minni hluta annars vegar eru uppi álitamál um hversu mikil nauðsyn er á þessari tvískiptingu annars vegar og hins vegar hvort því þurfi nauðsynlega að fylgja það ákvæði að um heimild sé að ræða til greiðslu bótanna ellegar að um skyldugreiðslu sé að ræða lögum samkvæmt. Ég hygg að segja megi að í inngangi greinargerðar minni hluta heilbr.- og trn. sé réttilega á það minnst, eins og raunar í áliti meiri hlutans, að með þessari tvískiptingu er verið að tryggja að ákveðnar bætur séu ekki fluttar út landi og af þeim sökum þurfi að tryggja með heimildarákvæði og tekjutengingu að þær flytjist ekki sjálfkrafa úr landi eins og ákvæði EES-samkomulagsins segja til um. Hins vegar er það álit minni hluta heilbr.- og trn. að þrátt fyrir þetta sé ekki ástæða til að gera þær grundvallarbreytingar að ýmsir bótaflokkar sem nú er skylt að greiða samkvæmt lögum um almannatryggingar breytist í heimildarbætur sem jafnframt verði tekjutengdar. Um þetta standa kannski þessi stóru álitamál.
    Mitt mat er það eins og frv. gefur til kynna að það sé nauðsyn á því að tryggja að ákveðnir bótaflokkar sem að mínu áliti bera óumdeilanlega keim félagslegrar aðstoðar séu þannig úr garði gerðir að sjálfkrafa flytjist ekki bótaréttur úr landi. Ég hygg að þrátt fyrir allt séu hv. þm. sammála um það atriði. Um hitt kunna að vera skiptar skoðanir hvar þessir skurðarpunktar eigi að liggja.
    Ég hirði ekki um, virðulegur forseti, að fara mörgum orðum um efnisinnihald frv., né heldur þær brtt. sem heilbr.- og trn. hefur í heild orðið ásátt um. Ég vil hins vegar árétta það sem fram kemur í athugasemdum við frv. sjálft og ég gat sérstaklega um í framsögu minni fyrir nokkrum vikum síðan að þegar gengið var til þessarar vinnu þá var það áréttað sem raunar var vitað fyrir að frá þeim tíma sem núverandi lög um almannatryggingar gengu í gildi 1972 hefur lögunum verið breytt eigi sjaldnar en 60 sinnum. Við þá vinnu sem fram hefur farið nú í sambandi við EES-gildistökuna þá var um leið reynt að fara þannig í saumana á gildandi lögum í þessu efni að leiðrétta, fylla eyður, lagfæra númer greina og aðra lagfæringarstarfsemi sem ég hygg að sé ekki stór ágreiningur um.
    Ég held að sú vinna sem nú liggur fyrir þinginu undirstriki í raun og sanni að tími er til þess kominn að heildarendurskoðun þessara laga fari fram. Eftir því sem ég best veit hafa nokkrar atlögur verið gerðar að slíkri heildarendurskoðun og síðast undir formennsku hv. þm. Finns Ingólfssonar þar sem heildstætt frv. var fullklárað og lokið við en hlaut ekki afgreiðslu á sínum tíma árið 1991 hygg ég að hafi verið ártalið sem þar um ræðir. Í því ljósi tel ég brýna nauðsyn á því, ekki síst í tengslum við þessa tvíkskiptingu, þessi auknu tengsl við Evrópu, að þessi heildarendurskoðun verði tekin upp aftur. Ég vænti þess að ákveðin grunnvinna liggi nú þegar fyrir og mun fljótlega á nýju ári kalla til verka hóp karla og kvenna til að fara í þessa heildarendurskoðun og bind vonir við að hún geti verið heildstæð og til þess að tryggja að svo geti orðið og um hana geti orðið allnokkur sátt þá hef ég ætlað mér að kalla til þeirra verka fulltrúa allra stjórnmálaflokka hér á hinu háa Alþingi.
    Þetta þykir mér, virðulegur forseti, nauðsynlegt að fram komi því að í brtt. minni hluta heilbr.- og trn. er um að ræða ný og gömul efnisatriði sem kæmu vafalaust til álita og umræðu við slíka endurskoðun. Í tillögu minni hlutans er til að mynda vakin athygli á nauðsyn þess að koma á tryggingarskóla Tryggingarstofnunar ríkisins, auknu námi til handa því ágæta starfsfólki sem þar vinnur. Það er að sönnu alveg hárrétt að með tímanum hafa bótaflokkar almannatrygginga breyst og þróast, að sumu leyti orðið flóknari fyrir bótaþega og þá um leið hefur álag á þá sem starfa við að útskýra og greiða út bæturnar til bótaþeganna aukist að umfangi. Þannig að ég get tekið undir það með flytjendum þessarar tillögu að það er nauðsynlegt að skoða allar leiðir í því að tryggja það að starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins fái alla nauðsynlega menntun og fræðslu í þessum efnum. Vissulega er það eitt álitamála sem rétt væri að skoða mjög nákvæmlega hvort skóli af einum eða öðrum toga væri þar inni í mynd. Ég tel hins vegar hér um það stórt mál að ræða að við þessar aðstæður sé ekki unnt að taka slíkar ákvarðanir heldur eigi þær heima í heildarendurskoðun laganna sem eins og ég gat um áðan munu væntanlega fara í gang með nýju ári. Einnig er gerð tillaga um það að endurhæfingarlífeyrir fari úr frv. til laga um félagslega aðstoð í frv. um laga um almannatryggingar. Að mínu áliti er hér um bótaflokk að ræða sem fellur betur að frv. til laga um félagslega aðstoð. Reglur um endurhæfingarlífeyri eru með öðrum hætti en reglur um örorkulífeyri. Hér er um bráðabirgðagreiðslur að ræða uns unnt er að meta hlutaðeigandi til varanlegrar eða tímabundinnar örorku. Í því liggur sá eðlismunur.
    En hvað varðar hugmyndir og tillögur minni hluta heilbr.- og trn. um uppihaldsstyrki sjúklings og fylgimanns þá er hér um nýmæli að ræða sem ég tel að eigi að koma til álita við heildarendurskoðun þessara laga. Það liggur auðvitað ekki fyrir kostnaðarmat á slíku. Kostnaður við slíkt gæti numið háum tölum en færi auðvitað að öðru leyti eftir þeim reglum sem um þá yrði að setja. Ég held hins vegar að nýmæli af þessum toga eigi heima í heildarendurskoðun á frv. til almannatryggingalaga. Hvað varðar dánarbætur slysatrygginga til foreldra þá er lagt til að þær verði ekki felldar niður. Rökin fyrir breytingum í fyrirliggjandi frv. liggja í þeirri staðreynd að í gildandi lögum um félagslega þjónustu hefur gagnkvæm framfærsluskylda verið felld niður. Það er auðvitað kannski stóra röksemdin fyrir því að þessi bótaflokkur og þessar bætur standast ekki rök þegar litið er til gildandi laga á öðrum sviðum.
    Virðulegur forseti. Hér er vissulega um mjög mikilvægt mál að ræða. Ekki einasta er hér um verulega fjármuni til útgreiðslu að ræða úr ríkissjóði og ekki síður er mikilvægt að bótaþegar, sem skipta þúsundum, njóti þeirrar gullnu reglu sem almannakerfið byggist á, þess öryggisnets sem ég hygg að þingheimur allur sé sammála um að strengt verði til að tryggja framfærslu allra einstaklinga hvernig sem fjárhagslegri eða félagslegri stöðu þeirra er háttað frá einum tíma til annars. Um það hefur auðvitað verið deilt um nokkuð langt skeið og seint komast menn sennilega að einni og sömu niðurstöðu um það hvort yfirleitt beri að tekjutengja bætur almannatrygginga. Hér í öndverðu var það með þeim hætti að menn töldu að svo ætti ekki að vera, það ætti yfir alla að ganga hvernig sem hagaði til hjá viðkomandi einstaklingum fjárhagslega. Með tímanum hefur hins vegar því sjónarmiði vaxið ásmegin kannski ekki síst út frá tveimur höfuðástæðum. Í fyrsta lagi hafa menn bent á ákveðin réttlætisrök í því og spurt þeirrar áleitnu spurningar hvort það sé skylda samfélagsins að greiða bætur óháð efnum og aðstæðum bótaþegans. Svarið hefur að mínu mati verið í vaxandi mæli nei. Það eigi þvert á móti að líta til félagslegrar og fjárhagslegrar stöðu njótenda, þ.e. bótaþegans. Hinu er auðvitað heldur ekki að leyna að þegar að kreppir í samfélaginu og enn þá minna verður til skipta hjá ríkissjóði sem öðrum þá hafa menn auðvitað horft með meiri gaumgæfni á þessa leið. Vissulega ber að stíga þar varlega til jarðar og nálgast ekki þessi verkefni undir þeim formerkjum fyrst og síðast heldur hinum hvað sanngirnis- og réttlætisvitund hv. alþingismanna segir þegar teknar eru stórar ákverðanir af þessum toga.
    Mitt mat er það að réttlætisrök skjóti stoðum undir þá stefnumörkun að tekjutengja bótagreiðslur í auknum mæli þó þannig að gætt verði við útfærslu þessarar tekjutengingar að skurðarpunktar verði með þeim hætti að þeir sem á þessum bótum þurfa sannarlega að halda verði ekki af skornir. Þó það sé auðvitað enn annað álitamál sem ég hygg að menn komist nú kannski seint að niðurstöðu um hvar eigi að vera upp á krónur og aura.
    En allt að einu, virðulegur forseti, ég hygg að nauðsynlegt sé í ljósi komandi áramóta og gildistöku EES-samningsins að hv. Alþingi afgreiði þetta frv. Á því eru engar stórar efnisbreytingar hvað innihald varðar heldur þvert á móti er hér um ákveðna tvískiptingu að ræða í frv. til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar. Innihaldið og efnið er að langstærstum hluta til óbreytt frá því sem verið hefur og að því leytinu til ætti að ríkja allvíðtæk sátt um áframhald málsins á þeim grundvelli þó eins og ég kom inn á séu einstök atriði sem hér eru gerðar brtt. um. En aðalatriðið er að ég vænti þess að ég geti átt allgott samstarf um það að hefjast nú þegar handa á nýju ári um að fram fari heildarendurskoðun þessara laga þar sem farið verður yfir greinar þess og reynt að gera bótaflokkana einfaldari í sniðum, kerfið aðgengilegra fyrir bótaþega. Ég hygg að það sé með þeim hætti hérlendis ólíkt því sem gerist víða erlendis í þeim löndum sem við berum okkur saman við að grunnlífeyririnn er lágur hér en þeir pinklar sem bundnir eru á hann eru í sumum tilfellum háir. Þessu er víðast hvar öfugt farið og það er kannski eitt þeirra stóru álitamála sem nefnd sem væntanlega hefur störf á nýju ári mun hafa mjög ákveðið til hliðsjónar og athugunar í sínu starfi.